BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Lygilega létt Lautarferð

30.08.2021 image

Sunnudagskvöldið 29. ágúst. Arnar „Young Naza“ Ingi pikkar mig upp á Volvo station 1992 árgerð. Förinni var heitið á Fönix á Höfða. Kungpao, dumplings og Coke Zero. Takk fyrir mig. Næst á dagskrá. Lautin, Würth-völlurinn Árbæ. Haust. Away days í hinni mögnuðu Pepsi Max deild. Þetta sunnudagskvöld var heldur napurt til þess að skella sér í Lautarferð undir berum himni svo ég þakka Guði, Reykjavíkurborg og Fylki fyrir að hafa komið upp þaki á stúkuna upp í Árbæ. Gamla aðstaðan hefði boðið upp á allskyns haustveikindi. Velgengni liðsins núna í sumar skilar sér í því sem við Blikar þekkjum ekki best allra liða en höfum þó fengið smjörþefinn, haustkvíðinn. Almáttugur jú, gamla slektið má tala um það sem er grænt og fellur á haustin og að það muni vel eftir þeim haustkvíða á hinum enda töflunnar en 90‘s krakkarnir sem ólust réttu megin upp í Kópavogi þekkja þá tilfinningu ekki.

Blikar vs Fylkir 29. ágúst 2021 - stemningin á pöllunum. Instastory blikar.is frá leik Fylkis og Breiðabliks 29. ágúst 2021.

Við komum inn í þennan leik eftir veislu fyrir norðan þar sem CHANGING OF THE GUARDS átti sér stað þegar við skelltum okkur í fyrsta sætið, eftir 2-0 sigur á Greifa(s)velli. Óskar talaði um pressuna að vera í fyrsta sæti og leiða deildina þegar lítið er eftir er eitthvað sem menn þurfa að faðma, umvefja og elska hana. Pressan má ekki fara að stjórna þeim sagði Óskar á Akureyri. Auðmýktin uppmáluð. Ég hef ekki lært að elska þessa pressu enn en ég tek einn leik í einu. Set kassann út og geng áfram. Örlögin eru í okkar höndum. Stöðutaflan er bara augnabliksmynd og það þarf bara að klára næstu leiki. Svo eftir allt saman þá er fótbolti bara fótbolti. Ég mun samt líklega ekki höndla það að stuðningsmenn annarra liða hífi okkur upp til skýjanna í apríl einungis til að geta rakkað okkur niður í júlí og fram í september. Það er að ýta undir pressuna hjá mér. Nóg um pressuna hún er algjört aukaatriði. Við fengum Viktor Örn og Alexander Helga sem komu til baka úr banni eftir leikinn á Akureyri. Við höfum verið að spila eins og smurð vél síðan í Evrópuleikjunum í júlí fyrir utan það að Keflavík í Keflavík er alltaf Keflavík. Byrjunarliðið í Árbænum var því svipað og hefur verið í seinustu leikjum eða á þessa vegu:

image

Það er óhætt að segja það að leikmenn hafi náð, hingað til, að faðma, umvefja og elska pressuna. Haustkvíðinn varði ekki lengi. Elsku Blikarnir mínir sáu um það. Kvíðinn minnkaði allverulega á 12. mín þegar Kiddi Steindórs skoraði fyrsta mark okkar manna. Enn þá minni varð hann þegar fyrirliðinn Höskuldur Gunnlaugsson skoraði stórgott mark á 20. mínútu. Haustkvíðinn fór alveg þegar að Viktor Karl setti þéttingsfast skot framhjá slökum Fylkismarkmanninum. 3-0 og ég í skýjunum. Greyið skoraði svo sjálfsmark á 41. mínútu. Fylkisstuðningsmenn köstuðu svo flösku í Högga þarna rétt fyrir hálfleik. Höggi harður samt, kippti sér ekkert upp við það, geggjaður, svona atvik eiga ekki að pirra okkur. 4-0 í hálfleik og leikurinn er búinn. Við sýndum klærnar í fyrri hálfleik og gátum tekið seinni hálfleikinn á sjálfstýringu. Við getum það því við erum besta liðið í þessari deild. Jesús góður hvað ég styð ógeðslega gott fótboltalið, þakklátur.

Samtals hafa strákarnir okkar skorað 49 mörk til þessa í Pepsi Max 2021 og eru hvergi nærri hættir. Markaskorunin dreifist á 10 leikmenn: Árni Vill er kominn með 8 mörk. Markahæsti leikmaður Blika frá upphafi í efstu deild, Kristinn Steindórsson, hefur skorað 7 mörk. Miðjumaðurinn kviki Viktor Karl er búinn að skora 6 mörk. Höskuldur fyrirliði, sem skoraði 2 í leiknum, er kominn með 6 mörk. Sex mörk komin hjá snillingnum Jasoni Daða. Landsliðsmaðurinn okkar, Gísli Eyjólfsson, er með 5 mörk eins og Thomas Mikkelsen. Varnarmaðurinn sterki Viktor Örn er búinn að setja 3 mörk. Davíð Örn Atlason skorði í leiknum fyrsta markð sitt fyrir Breiðablik. Og markahrókurinn Andri Rafn Yeoman er kominn með 1 mark. Eitt af þessum 49 mörkum er sjálfsmark. 

Markaskorarar leiksins:

image

Sjálfstýringin var ekki alveg að gera sig fyrsta korterið í seinni hálfleik þar sem Fylkismenn bitu aðeins frá sér en þó ekki mikið. Á 70. mínútu skoraði Höggi draumamark tók hann á lofti, smellhiti hann, svo boltinn söng í bláhorninu. Höggi 100% maður leiksins í kvöld. Fylkismenn voru átákanlega slakir. Svona frammistaða á ekki skilið neitt annað en að spila í Lengjudeildinni. Þetta var ekki boðleg Pepsi Max deildar frammistaða. Viktor Örn og Damir voru með tærnar upp í loft með Enya á blasti og grænan andlitsmaska. Þetta var ansi létt í kvöld fyrir mína menn í hjarta varnarinnar. Það var annað á hinum enda vallarins. Guð minn góður hvað stjörnuleikmaður Árbæinga, Raggi Sig, var hrikalega lélegur. Hann var algjör farþegi í þessum leik. Sést lang best þegar hann dró fram rauða dregilinn fyrir Davíð Örn Atlason í marki númer sex. Hleypir honum inn að marki í góða skotstöðu í staðinn fyrir að loka skotvinklinum. Hann fer í flokk þeirra atvinnumanna sem koma heim og eru aaaaansi slakir. Honum til happs eru ansi margir í þessum flokki, því miður fyrir deildina. Árni Vilhjálmsson skoraði svo sjöunda og lokamark leiksins. Alvöru slútt, sláin inn eftir að við höfðum enn eina ferðina splúndrað Fylkisvörninni.

Þess má geta að Ásgeir Galdur Guðmundsson spilaði sínar fyrstu mínútur fyrir Breiðabliksliðið í kvöld. Ásgeir er fæddur árið 2006 (hvaða grín er það samt, úff) og hefur spilað og skorað fyrir U-17. Það var flottur kraftur í honum. Vonandi sjáum við meira af honum í framtíðinni.

image

7-0 sigur staðreynd. Við tökum einn leik í einu. 7-0 gefur okkur ekkert ef við stöndum okkur ekki í næsta leik gegn Valsmönnum þar næsta laugardag. Núna kemur smá pása sem við verðum að nýta vel. Þrír risastórir leikir eftir. Þetta er í okkar höndum. Áfram veginn drengir.

Freyr Snorrason 
 

Umfjallanir netmiðla

Visir.is: Sjáðu öll mörk Breiðabliks í Lautinni er liðið lagði Fylki í Pepsi Max deild karla.

Til baka