BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Mikkelsen kvaddi með sigri

09.08.2021 image

Eitt af algengari nöfnum fótboltaliða hér í heimi er Stjarnan, gjarna Rauða stjarnan. Slíkan roða má sjá í Belgrað, Brno, París og Zürich og eru líka til í Venesúela, Angóla, Mósambík og Bandaríkjunum. Hið merka lið CSKA í Soffíu frænku, höfuðstað Búlgaríu, hét Rauða stjarnan meðan kommúnistar fóru þar með völd og úti um allar trissur í Austur-Evrópu eru fyrrverandi Rauðar stjörnur sem heita nú borgaralegri nöfnum. Sum þessara liða hafa látið duga að sleppa rauða litnum og heita nú bara Stjarnan. Þannig er það til dæmis með fótboltaliðið í Cheb í Tékklandi sem keppir nú í bláu, alveg eins og Stjarnan í Garðabæ.

Breiðabliksliðin eru færri, svona á heimsvísu, og af öllum þeim Stjörnum sem hægt er að keppa við í fótbolta vildi svo heppilega til að eina Breiðablikið í veröldinni var einmitt að keppa við Stjörnuna í Garðabæ í kvöld; keppnisferðalagið, milli heimavalla liðanna að telja, var ekki nema 3,0 kílómetrar. Heimsmetið í 3000 metra hlaupi er 8:06,11.

Frá Bredebro til Beiðabliks

Eina Breiðablikið? Ja, við þekkjum nú einn fótboltamann sem tróð fyrst grasið takkaskóm með hinu danska Bredebro. Hann heitir Thomas Mikkelsen og byrjaði á bekknum í Garðabænum í kvöld. Svona var byrjunarliðið: 
 

image

Leikurinn fór rólega af stað. Boltinn gekk frá einum kyrrstæðum Breiðabliksmanni til þess næsta en lengri sendingar heppnuðust illa. Það er varasamt þegar hreyfinguna vantar á okkar menn og Stjarnan fékk dauðafæri á 10. mínútu eftir aukaspyrnu. Eigin klaufagangur andstæðinganna var þar okkur til bjargar. Eftir korter fengum við svo dauðafæri og svolítið meira adrenalín, testósterón, viagra eða bara flinkheit hefðu átt að skila marki eftir frábært samspil Höskuldar, Kristins og Árna.

Okkar menn áttu þarna leikinn með húð og hári og á 24. mínútu fékk Viktor Karl, nýkominn úr hvíldarinnlögn í boði aganefndar KSÍ, boltann utanlega í teignum, lagði hann fyrir sig og smurði svo í fjærhornið. 0-1. Nú var kominn betri taktur í leik grænna og gott spil skilaði flottu marki sem var dæmt af, hárfínt, vegna rangstöðu.
 

image

Engin Höskuldarviðvörun borist

Tíu mínútum eftir fyrsta markið kom í ljós að fjarskipti við Garðabæ hljóta að vera eitthvað stopul. Eftir að brotið var á Jasoni, líklega innan teigs, fengum við aukaspyrnu nánast á vítateigslínunni. Fyrirliðinn endurtók spyrnuna sem hann tók á móti KR fyrir þremur vikum og klíndi tuðrunni í markmannshornið.

Það liðu sléttar 10 mínútur á milli fyrsta og annars marksins og nákvæmlega 20 mínútur á milli þess annars og þriðja. Það var semsagt á 54. mínútu, þegar Höskuldur var kominn á miðjuna, að hann hreinlega tróð sér í gegnum báða miðverði Stjörnumanna og kláraði fagmannlega einn á móti markmanni. Staðan 0-3 og harla ólíklegt fannst manni að hún myndi breytast, nema þá til batnaðar fyrir Breiðablik.

image

Út á stoppustöð

Á 60. mínútu var boðvangur Stjörnumanna eins og biðstöð Strætó hjá Aktu taktu í grennd við völlinn. (Taka Garðbæingar ekki örugglega Strætó?) Það er ekki oft að maður sér helminginn af mannskapnum í biðskýlinu fara inn á í einu í ferfaldri skiptingu. Þessi tilþrif Þorvaldar þjálfara bæði borguðu sig og hefndu sín. Aukinn kraftur í Stjörnuliðinu skilaði pressusókn með þremur fínum færum þar sem skorað var úr því síðasta. Stöngin inn og minna dugði ekki gegn Antoni Ara í kvöld. Það mæddi drjúgt á honum. Stungusending sem hann nær á undan framherjanum, misheppnuð hreinsun samherja sem hefði getað farið í netið og skot af öllu tagi. Hann átti það allt og var öruggur í löppunum í uppbyggingu spils Breiðabliksliðsins.

Svipuð sería og skóp mark blárra var svo við hitt markið. Gísli Eyjólfsson var kominn inn, vann boltann af aftasta varnarmanni, óð inn fyrir en var tæklaður. Boltinn hrökk til Thomasar sem skaut í stöng, frákastið fór til Jasonar sem setti hann í slána. 

image

Tusind tak, Thomas!

Ef takti hefði verið haldið – 10 mínútur, 20 mínútur og svo 30 mínútur milli Breiðabliksmarka – hefði 84. mínútan orðið skemmtileg. Það var hún ekki og síst fyrir fyrirliða Stjörnunnar.  Leikurinn var að vatnast út, þó með mjög opnum velli fyrir bæði lið, þá laskaðist Laxdal. Búið að skipta fimm inn á og þeir spiluðu einum færri síðustu fimm og uppbótarmínúturnar. Þá var þetta búið hjá Stjörnunni. Breiðabliksmörkin hefðu getað orðið fleiri og satt best að segja var stærsta vonin sú að Mikkelsen næði að kveðja með marki. Ja, næststærsta vonin, því undir blálokin gladdist græna Blikahjartað við það að inn á var skipt þriðja flokksstráknum Ágústi Orra Þorsteinssyni. Hann átti sinn sprett og hefði verið jafngaman að sjá hann leggja upp og sjá Mikkelsen skora.

Sú varð ekki raunin og 1-3 sanngjörn niðurstaða. Thomas fór í viðtal við Stöð2 Sport strax eftir leik og það var augljóst að kveðjustundin var ekkert einföld frekar en hjá Messi í gær. Hann varð að fara, sagði hann, og bar liðsfélögunum og félaginu öllu afar vel söguna. Breiðablik er fjölskylda, sagði hann. Hann komi ekki til með að spila fyrir annað lið á Íslandi, Breiðablik sé liðið hans og hann muni styðja okkar menn úr fjarska.

Við þökkum fyrir okkur eins og dyggir Blikar gerðu svo snoturlega í stúkunni í blíðunni í Garðabænum í kvöld.

image

Hvað næst?

Liðin komu inn í leikinn í kvöld hafandi bæði unnið síðustu leiki sína 4-0. Eftir leikinn erum við í þriðja sætinu með leik á móti KA til góða og getum með sigri í inneigininni komist einu stigi á eftir Val. Það er svo leikur á móti Val eftir á dagatalinu, heimaleikur mánudaginn 13. september. Taktu daginn frá.

Fyrstur er þó seinni leikurinn á móti Aberdeen. Eftir frábæran fyrri leik og frýjunarorð Óskars Hrafns í garð fótboltahæfileika Skotanna verður spennandi að sjá hvernig fer í skosku hafnarborginni á fimmtudaginn.

Næsti leikur í deild er svo strax á sunnudag, heimaleikur á móti Skagamönnum. Þá má ekki misstíga sig eins og borið hefur við í sumar á móti liðum í neðri hluta deildarinnar.

Eiríkur Hjálmarsson

Umfjöllun annarra miðla

image

Myndaveisla: Breiðablik sótti þrjú stig í Garðabæinn:

Til baka