Pepsi MAX 2021: Stjarnan - Breiðablik
08.08.2021Áfram rúllar Pepsi MAX hjá strákunum. Hörku umferð um helgina. Fimm leikir í dag og einn leikur á morgun - stórleikur Stjörnunnar og Breiðabliks. Það er alltaf sérstök stemmning þegar okkar menn mæta bláklæddum Garðbæingum á fótboltavellinum.
Leikurinn er sem betur fer sjónvarpsleikur því miðar á leikinn eru af mjög skornum skammti.
Flautað verður til leiks stundvíslega klukkan 19:15 á mánudaginn. Leikurinn er sýndur á Stöð 2 Sport.
Liðin eru á ólíku róli. Blikar enn á fullu í Evrópukeppni, ásamt því að halda í við toppliðin í Pepsi Max, en Stjörnumenn að spyrna sér frá botninum í deildinni. En svona lítur stöðutaflan út fyrir leiki í 16. umferð. Öll lið búin með 15 leiki nema Blikar, KA, FH og Keflavík sem eru með einum leik minna:
Sagan
Liðin mættust síðast í mótsleik í 5. umferð Pepsi MAX deildarinnar á Kópavogsvelli í lok maí:
Nágrannaslagir Breiðabliks og Stjörnunnar eru nánast alltaf uppskrift að frábærri skemmtun fyrir áhorfendur. Oft er mikið undir í leikjunum umfram þá augljósu staðreynd að leikir liðanna er auðvitað slagur tveggja nágrannabæjarfélaga þar sem “heilbrigður” rígur hefur ríkt milli meistaraflokka Breiðabliks og Stjörnunnar eins langt aftur og heldri menn muna.
Tölfræði
Innbyrðis mótsleikir Breiðabliks og Stjörnunnar eru 61. Blikar hafa unnið 27 leiki, Stjarnan 23 leiki og 11 sinnum er jafntefli niðurstaðan. Leikirnir 61 dreifast á sex keppnir: A-deild 32 leikir, B-deild 12 leikir, Bikarkeppni KSÍ 3 leikir, Litli bikarinn 6 leikir, Lengjubikarinn 3 leikir, og 5 leikir í .Net.mótinu.
Fyrsti mótsleikur Breiðabliks og Stjörnunnar var í ágúst 1970. Leikurinn var í 1. umferð Bikarkeppni KSÍ 1970.
Efsta deild frá upphafi
Í 32 efstu deildar leikjum liðanna hafa Blikar yfirhöndina með 16 sigra gegn 9 sigrum Stjörnunnar. Jafnteflin eru 7. Liðin léku fyrst innbyrðis í efstu deild árið 1991.
Efsta deild frá 2009
Í 25 viðureignum liðanna frá endurkomu Stjörnunnar í efstu deild árið 2009 hefur Breiðablik unnið 13 leiki, Stjarnan hefur unnið 6 leiki og 6 sinnum er jafntefli niðurstaðan. Blikar hafa skorað 46 mörk gegn 29 mörkum Stjörnumanna. Samtals 75 mörk eða liðlega 3 mörk að meðaltali í leik.
Síðustu 5 á Stjörnuvelli
Síðasti leikur á heimavelli Stjörnunnar var árið 2019 því seinni leikur liðanna í fyrra, sem vera átti á Stjörnuvellinum í lokaumferðinni 30. nóvember 2020, en var felldur niður útaf svolitlu.
Leikmenn
Aðeins einn leikmaður í núverandi leikmannahópum liðanna hefur leikið með báðum liðum. Sölvi Snær Guðbjargarson lék með lék með Garðabæjarliðinu árið 2018 – 2021 en söðlaði um og skrifaði undir samning við Breiðabliksliðið fyrr í sumar.
Leikmannahópur Blika 2021:
Stuðningsmaðurinn
SpáBliki 16. umferðar er mörgum Blikum kunnur, og sumum að góðu. Hann greiddi Gumma Þórðar fyrsta æfingagjaldið með beinhörðum glerflöskum 7 ára gamall, á Vallargerðisvelli árið 1965, og var settur beint á kantinn í D - liði 5. flokks (var stundum kallað ruslið). Þá spilaði 5 flokkur á stórum velli og á stór mörk. 11 í liði. Hann spilaði svo með öllum yngri flokkum félagsins og ríflega 200 leiki með meistaraflokki, lengst af sem fyrirliði, auk þess að spila nokkra A- og U-21 árs landsleiki á 9. áratug síðustu aldar. Tók svo við formennsku í meistaraflokksráði og sat í stjórn deildarinnar 1988 - 90 og svo aftur frá 2001 - 2012. Er nú gjaldkeri í Ungmennafélaginu Dúdda sem er einskonar kjaftaklúbbur sem tippar í Smáranum á laugardögum og reynir að safna peningum. SpáBlikinn er líka í ritstjórn Blikar.is, en þar rífur hann aðallega kjaft og kemst iðulega upp með það, enda skipuritið lárétt. Skrifar svo um leiki af og til undir dulnefni úr Star Wars. Ekki má gleyma golfmótinu sívinsæla, Breiðablik Open sem hann hefur haldið á hverju ári í nafni Knattspyrnudeildar frá árinu 2006. Það er alveg að verða uppselt enn eitt árið. SpáBlikinn er sérlegur verndari og vörslumaður síðustu torfunnar sem fjarlægð var af Kópavogsvelli haustið 2018. Hún fer aftur á einn daginn, spái ég.
Ólafur Björnsson: Hvernig fer leikurinn?
Það þarf ekki mikinn spámann til að spá því að leikurinn við Stjörnuna á mánudaginn verði spennandi. Stjarnan með góðan og sannfærandi sigur gegn Skagamönnum í síðasta leik og Blikar sömuleiðis með sterkan sigur gegn Víkingum í síðasta deildarleik og fína frammistöðu í 88 mínútur gegn Aberdeen. Stjarnan mun örugglega spila með a.m.k 5 manna vörn og liggja og bíða færis. Þetta verður leikur þar sem við munum ekki fá mörg færi og því algjört möst að nýta þau. Að sama skapi megum við alls ekki gefa gjafir hinumegim. Stjarnan er með marga góða leikmenn og spila ekki bara kraftabolta eins og sumir spekingarnir segja. Þorvaldur Örlygsson er líka klókur þjálfari og er ákkurat núna að kokka eitthvað til að klekkja á okkur ef ég þekki hann rétt Stundum hefur honum heppnast það en ég trúi á okkar menn og er illa svikinn ef þeir mæta ekki vel stemmdir og ákveðnir til leiks. Þessir leikir hafa oft verið miklir markaleikir en ég spái að sú verði ekki raunin nú. En þetta verður ekkert 0-0 og við vinnum pottþétt. Það væri betra ef við skoruðum fyrsta markið, það myndi létta á, en við vinnum sama hvað. Nýkviknað tungl líkist öðru fremur spámána þannig að ég sé ekki að þetta geti klikkað. Eia perlur!
Blikar eru með sterkan og breiðan hóp og því ætti þreyta eftir Aberdeen leikinn ekki að hafa mikil áhrif á liðið. Svo verður spennandi að sjá hvort Thomas fái tækifæri til að slútta Íslandsdvölinni með marki gegn besta vini sínum, Daníel Laxdal. Enginn Íslendingur hefur faðmað Thomas jafn oft og Daníel.
Að lokum vil ég hvetja Blika til að flykkjast á völlinn og styðja okkar menn ef einhverjir miðar verða í boði. Öflugur stuðningur okkar getur gert gæfumuninn og það er ekki spá, heldur staðreynd.
Áfram Breiðablik!
Ólafur Björnsson SpáBliki ásamt Ólafi H. Kristjánssyni þjálfara og Einari Kristjáni Jónssyni formanni knattspyrnudeildar. Myndin er tekin í Motherwell í Skotlandi árið 2010.
Dagskrá
Hertar reglur þýða að aðgengi að miðum á leikinn er mjög takmarkað, en Stubbur sér um miðasölu. Við minnum á að það er grímuskylda á þessum viðburði.
Leikurinn hefst kl.19:15 á mánudaginn og er sýndur í beinni á Stöð 2 Sport.
Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!
Síðasti leikur á heimavelli Stjörnunnar var árið 2019 því seinni leikur liðanna í fyrra, sem vera átti á Stjörnuvellinum í lokaumferðinni 30. nóvember 2020, en var felldur niður útaf svolitlu. En hér er frábær samantekt Heisa og BlikarTV frá viðureign liðanna í Garðabæ í júní 2019: