Niður á jörðina – og svo upp aftur
02.05.2021
Það er ekki á hverju ári að dómbært fólk spáir Breiðabliki Íslandsmeistaratitli karla. Sú er raunin árið 2021 og hafi það híft einhverja stuðningsmenn upp til skýjanna tók það um það bil 15 mínútur að fá fast land undir fætur. Þá var KR komið 0-2 yfir á Kópavogsvelli í fyrsta leik þessara liða í Pepsi Max-deildinni 2021. Kannski tók það bara fimm mínútur því KR-ingar fengu horn eða ógnvænlega aukaspyrnu á einnar mínútu fresti frá því flautað var til leiks . Leikurinn varð síðan nánast endurtekning á leik sömu liða í september í fyrra. Leikur Bill Murray í Groundhog Day var betri en Blika í kvöld. Liðin sem stillt var upp voru líka ótrúlega svipuð þeim sem mættust á síðasta tímabili en byrjunarliðið var svona:
Það eru óvenjulega margar tengingar á milli liðanna um þessar mundir. Þjálfarinn okkar, hann Óskar Hrafn, er uppalinn KR-ingur, sonur fornfrægs Blika, og Halldór aðstoðarþjálfari er af sebrakyni. Hinir kjarnagrænu Arnór Sveinn og Kiddi Jóns spila með KR og þar er líka Atli Sigurjónsson sem tók sig svo prýðilega út í grænni treyju um hríð. Finnur Orri er svo kominn aftur í iðjagræna átthagana eftir að hafa leyft sauðalitafélaginu að njóta krafta sinna um hríð.
RÚV var með skemmtilegan vinkil á þá staðreynd að okkar menn bræðurnir Finnur Orri og Viktor Örn spiluðu saman í fyrsta sinn í efstu deild. Nánar hér.
Ég ætla ekkert að rekja atvik þessa leiks. Það er hægt að lesa um þau á fjölda vefmiðla > Umfjallanir annarra netmiðla.
Myndaveisla í boði HVH hjá BlikarTV
Toppstykkið var ekki rétt stillt, sagði Óskar Hrafn við Stöð 2 eftir leik og tók sökina á sig af mannsbrag. Þarna voru samt einar ellefu heddpakkningar sem þarf að þétta áður en við mætum Leikni í næstu umferð. Breiðhyltingarnir voru fjári frískir í sínum fyrsta leik og munu ekkert frekar en KR-ingarnir í kvöld gefa okkur tíma til að klappa boltanum nokkrum sinnum áður en sókn er sett í gang eða pæla í því andartak hvort rétt sé að keyra til baka.
Fyrir utan Arnór Svein og Kidda Jóns þá stóðu nokkrir Blikar sig prýðilega í kvöld. BlikarTV var þannig alveg til fyrirmyndar með upphitun fyrir leik og nú þegar fáir komast á völlinn er mikilvægt að hafa gengi á borð við Copacabana á pöllunum. Takk fyrir það!
Einn deildarleikur búinn og 21 leikur eftir. Það má gera eitthvað með það 😊
Eiríkur Hjálmarsson