BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Pepsi MAX 2021: Breiðablik - KR

28.04.2021 image

Fyrsta umferð Pepsi MAX karla 2021 verður leikin um helgina. Á sunnudag fá Blikar röndótta KR-inga í heimsókn á Kópavogsvöll. Leikurinn verður í þráð beinni á Stöð 2 Sport.

Svona lítur taflan út fyrir þessa fyrstu umferð í Pepsi Max 2021 - Blikar á toppnum 😊

image

Sagan - efsta deild

Innbyrðis leikir Blika og KR í efstu deild frá upphafi eru 68. KR-ingar hafa vinninginn með 32 sigra gegn 15. Jafnteflin eru 21.

image

Fróðleiksmoli: Allra fyrsti leikur Blika og KR í efstu deild var á Melavellinum árið 1971, sem var jafnframt fyrsta ár Blika í efstu deild. Leikið var á gamla Melavellinum sem var heimavöllur Breiðabliks í efstu deild frá 1971 þar til að Kópavogsvöllur var vígður 7. júní 1975 Okkar menn gerðu sér lítið fyrir og unnu leikinn með marki frá Haraldi Erlendssyni.

23.06 18:00
1971
Breiðablik
KR
1:0
4
1
A-deild | 4. umferð
Melavöllur | #

Síðustu 5 á Kópavogsvelli

Blikum hefur gengið frekar brösulega með Vesturbæjarliðið á Kópavogsvelli undanfarið:

Leikmenn & þjálfarar

Finnur Orri Margeirsson, þriðji leikjahæsti núverandi leikmanna Blika, lék 103 leiki með KR-liðinu á árunum 2016-2020 en hann gekk til liðs við KR eftir að hafa spilað í Noregi árið 2015.

Nokkrir uppaldir Blikar leika núna með Vesturbæjarliðinu. Kristinn Jónsson gekk til liðs við KR eftir keppnistímabilið 2017. Arnór Sveinn Aðalsteinsson söðlaði um árið 2016. Og fyrrverandi leikmaður Blika, Akureyringurinn Atli Sigurjónsson, leikur nú aftur með KR en hann lék 49 mótsleiki með Breiðabliki á árunum 2015 til 2017.

Þjálfarateymi Breiðabliks er með sterka tengingu við KR. Báðir sem leikmenn og þjálfarar.

image

Halldór Árnason aðstoðarþjálfari og Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari

Leikmannahópur Breiðabliks 2021

image

Tilkynning frá knattspyrnudeild Breiðabliks:

"Nú er komið að því að boltinn fari aftur að rúlla. Það er ljóst að miklar takmarkanir verða á áhorfendafjölda á fyrstu leikjum sumarsins og  ljóst að færri komast að en vilja. Það að hafa aðeins tvö sóttvarnarhólf með samtals 200 áhorfendum á Kópavogsvelli dugar skammt fyrir okkar stóra og trausta hóp stuðningsfólks.

Knattspyrnudeild Breiðabliks hefur ákveðið að þeim miðum sem eru í boði á fyrstu leiki meistaraflokka karla og kvenna verði úthlutað á eftirfarandi hátt og fara því engir miðar í almenna sölu:

·         Blikaklúbbsmeðlimir og Kópacabana fá í kringum 70% af miðum sem er í boði

·         Aðalstyrktaraðilar knattspyrnudeildar í kringum 25%

·         Gestaliðið skv. samkomulagi ÍTF milli félaganna í efstu deild 5%

Knattspyrnudeild Breiðabliks hvetur yngri iðkendur félagsins til þess að koma saman í minni hópum (innan þeirra samkomutakmarka sem gilda) og horfa á leikinn í sjónvarpi saman en leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Okkur þykir miður að öllu okkar frábæra stuðningsfólki standi það ekki til boða að mæta á völlinn en þetta er staðan í þjóðfélaginu í dag.

Með baráttu- og blikakveðjum
Knattspyrnudeild Breiðabliks"

Dagskrá

Hamborgarar á grillinu og meðlæti í sjoppunni. Njótið vel!

Leikurinn er í beinni á Stöð 2 Sport.

Leikurinn verður flautaður á k.19:15!

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBlikinn verður fastur þáttur hér á síðunni fyrir alla leiki meistaraflokks karla í sumar. Fyrsti leikurinn er heimaleikur á móti KR og fyrsti SpáBlikinn er uppalinn í Vesturbænum í Kópavogi, í grænni treyju á Vallargerðisvelli, en „lenti í því“ að kvænast inn í KR-fjölskyldu og ól upp KR-inga í allt öðrum Vesturbæ.

Eiríkur Hjálmarsson: Hvernig fer leikurinn?

„Vandi er um slíkt að spá en eitt er víst að alltaf verður, ákaflega gaman þá. –Leikdagar Breiðabliks og KR eru litlu jólin á heimilinu. Sum eru heppin með gjafir, önnur minna heppin. Í áhættuvarnarskyni spái ég oft hinu liðinu sigri. Þá monta ég mig annað hvort af því eftir á mitt lið hafi unnið eða af því að vera snjall spámaður. Nú ætla ég hins vegar að taka þetta tvöfalt og spái 3-2 fyrir Breiðablik.“

image

Á myndinni er SpáBliki fyrstu umferðar með bróðursyni sínum fyrir heimaleik í júní 2012 sem Breiðablik vann 2-1.

Blikar TV

Krissi Aðalsteins og Óskar Hrafn áttu gott og ítarlegt spjall um komandi tímabil hjá karlaliði Breiðabliks í fótbolta. Vegna smávægilegs vesens á hljóðinu þá klipptum við viðtalið til og úr varð rúmlega 40 mínútna veisla sem engin knattspyrnu áhugamaður má láta framhjá sér fara.

Næsta útsending BlikaTV er á sunnudag fyrir leikinn gegn KR en þá verðum við í beinni útsendingu frá klukkan 18:45, eða hálftíma fyrir leik og þá munu Kristján og Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari kvenna og fyrrum þjálfari kvennaliðs Breiðabliks hita upp fyrir leikinn, greina bæði lið, ásamt því sem Óskar Hrafn og Rúnar Kristinsson kíkja í viðtöl fyrir leik.

Til baka