BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Pepsi MAX 2021: Breiðablik - Stjarnan

18.05.2021 image

Áfram rúllar Pepsi MAX deildin 2021. Fimmta umferð Pepsi MAX karla 2021 fer fram á föstudagskvöld og lýkur á laugardag með einum leik. Á föstudagskvöld fáum við nágranna okkar úr Garðabæ í heimsókn á Kópavogsvöll. Flautað verður til leiks kl.19:15! Leikurinn verður sýndur í beinni á Stöð 2 Sport.

Sjónvarpslekir umferðarinnar eru tveir: Breiðablik – Stjarnan kl.19:15 á föstudagskvöld og FH – KR á laugardaginn kl.16:00,

Svona lítur stöðutaflan út eftir 4 umferðir:

image

Sagan

Síðast mættust liðin í mótsleik í 10. umferð Pepsi MAX deildarinnar á Kópavogsvelli 24. september 2020. Þá voru liðin að spila fyrri innbyrðis leikinn í Pepsi MAX 2020 í lok september - seinni leikurinn átti að fara fram á Samsung vellinum í Garðabæ í lok október en Íslandsmótið 2020 var blásið af fyrir þann tíma.

Nágrannaslagir Breiðabliks og Stjörnunnar eru nánast alltaf uppskrift að frábærri skemmtun fyrir áhorfendur. Oft er mikið undir í leikjunum umfram þá augljósu staðreynd að leikir liðanna er auðvitað slagur tveggja nágrannabæjarfélaga þar sem “heilbrigður” rígur hefur ríkt milli meistaraflokka Breiðabliks og Stjörnunnar eins langt aftur og heldri menn muna.

Tölfræði

Innbyrðis mótsleikir Breiðabliks og Stjörnunnar eru 60. Blikar hafa unnið 26 leiki, Stjarnan 23 leiki og 11 sinnum er jafntefli niðurstaðan. Meira>  Leikirnir 60 dreifast á sex keppnir: A-deild 31 leikur, B-deild 12 leikir, Bikarkeppni KSÍ 3 leikir, Litli bikarinn 6 leikir, Lengjubikarinn 3 leikirog 5 leikir í .Net.mótinu.

Allra fyrsti mótsleikur Breiðabliks og Stjörnunnar var í ágúst 1970. Leikurinn var í 1. umferð Bikarkeppni KSÍ 1970. Meira>

Efsta deild frá upphafi

Í 31 efstu deildar leikjum liðanna hafa Blikar yfirhöndina með 15 sigra gegn 9 sigrum Stjörnunnar. Jafnteflin eru 7. Leikurinn á Kópavogsvelli á föstudagskvöld verður 32. efstu deildar viðureign liðanna frá upphafi. Liðin léku fyrst innbyrðis í efstu deild árið 1991.

Efsta deild frá 2009

Í 24 viðureignum liðanna frá endurkomu Stjörnunnar í efstu deild árið 2009 hefur Breiðablik unnið 12 leiki, Stjarnan hefur unnið 6 leiki og 6 sinnum er jafntefli niðurstaðan. Blikar hafa skorað 42 mörk gegn 29 mörkum Stjörnumanna. Samtals 71 mörk eða liðlega 3 mörk að meðaltali í leik.

Síðustu 5 á Kópavogsvelli

Leikmenn

Aðeins einn leikmaður í núverandi leikmannahópum liðanna hefur leikið með báðum liðum. Sölvi Snær Guðbjargarson lék með lék með Garðabæjarliðinu árið 2018 – 2021 en söðlaði um og krotaði undir samning við Breiðabliksliðið á lokadegi félagaskiptagluggans í síðustu viku. Nánar>

Leikmannahópur Blika 2021:

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki 5. umferðar er fæddur og uppalinn í Kópavogi, í næsta húsi við jafnaldra sinn og bekkjarbróður, Pétur Guðmundson varðstjóra og dómara í Pepsi deild karla. Hann hefur setið í stjórn Knattspyrnudeildar Breiðabliks síðan 2017. SpáBlikinn á 4 börn og hafa þrjú af þeim æft með Breiðabliki, en eitt með HK! Blikinn var (er) býsna pólitískur og sat í bæjarstjórn Kópavogs 1998 til 2010. Hann starfar nú sem framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins og reynir að tryggja að farið sé eftir reglum á vinnumarkaði.

Flosi Eiríksson: Hvernig fer leikurinn?

Ég á engar sérstakar beinar tengingar við Stjörnuna, en við sem erum alin upp hér í Kópavoginum og máttum lengi hlusta á oft á sömu brandara Garðbæinga um gatnakerfið hér í bænum, en eins og allir vita þarf bara góða náttúrugreind til að rata í Kópavoginum. Á þeim tíma sem ég sat í bæjarstjórn keppti ég nokkrum sinnum með ,,frábærum“ árangi í golfkeppni bæjarstjórnarmanna þessara tveggja nágrannahreppa. Þar fannst mér nú gefast best að slá fast og ákveðið!

Við Blikar erum í smá brekku núna, en ég veit að okkar strákar vilja sýna sitt rétta eðli og spila þann fótbolta sem hefur glatt okkur stuðningsmenn á undirbúningstímabilinu. Leikurinn við Stjörnuna er tækifærið til að ná okkur aftur á strik og ég spái því að leikurinn fari 3 - 1 fyrir Breiðabliki.

Við stuðningsmenn þurfum að láta vel í okkur heyra á vellinum til að hvetja okkar menn og stinga eins og einum Kópavogssokk upp í vin minn Þorkell Mána og hans eilífa tuð um skort á stuði á Kópavogsvelli. Ég held að það verði gaman á Kópavogsvelli á föstudaginn, þar sem okkar piltar ganga fast og ákveðið til leiks og minna okkur á af hverju þetta er skemmtilegasta íþrótt í heimi.

image

Flosi Eiríksson

Dagskrá

Nýjar reglur þýða að Kópavogsvöllur getur tekið á móti 600 áhorfendum á föstudagskvöld - 450 í aðalstúkuna og 150 í gömlu stúkuna.

Miðasala á Tix.is Miðaverð er sem hér segir: Fullorðnir 2.000kr, Börn fædd 2005-2014 500kr, börn fædd 2015 og yngri frítt.
 

image

Blikaborgararnir verða á sínum stað í sjoppunni.

Við minnum á að það er grímuskylda á þessum viðburði.

Leikurinn hefst kl.19:15 og er sýndur í beinni á Stöð 2 Sport.

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Mörkin úr leik Breiðabliks og Stjörnunnar í Pepsi Max-deild karla í september 2020.

Til baka