BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Pepsi MAX 2021: Keflavík - Breiðablik

23.07.2021 image

Á sunnudaginn ferðast Blikaliðið suður með sjó til að etja kappi við lið Keflavíkur 14. umferð Pepsi MAX deildar karla. Þetta er önnur keppnisferð okkar manna til Keflavíkur í sumar. Fyrri heimsóknin var í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarins. Jafnt var eftir venjulegan leiktíma og því framlengt. Þegar allt stefndi í 0:0 jafntefli skoruði Keflvíkingar mörk á 114' og 120'. Keflavíkurliðið sló þar með Blikaliðið út úr Mjólkurbikarkeppninni þetta árið. Okkar menn eiga því harma að hefna í leiknum á sunnudaginn. 

En gengi okkar gegn Keflvíkingum í deildinni á undanförnum árum hefur verið okkur í hag: 3 sigrar og 1 tap í síðustu fimm leikjum á HS Orku vellinum í Keflavík.

Blikaliðið á leik inni vegna frestaðs leiks við KA úr 7.umferð. Leiknum var frestað til 29. júlí en hefur nú aftur verið frestað vegna þátttöku Breiðabliks í Sambandsdeild UEFA 2021/2022. Síðari leikur okkar manna gegn Asutria Wien verður á Kóapvogsvelli 29. júlí.

Leikur okkar manna gegn KEF verður flautaður á kl.19:15 á sunnudagskvöld. 

Stöð 2 Sport sýnir beint frá leiknum.

Heil umferð verður spiluð um helgina. Á sunnudaginn eru fimm leikir á dagskrá. Umferðinni lýkur svo á mánudaginn með einum leik. 

Stöðutaflan fyrir leiki helgarinnar. Blikar eru í 3. sæti með 23 stig eftir 12 leiki - 4 stigum á eftir Valsmönnum sem hafa leikið einum leik meira og einu stigi á eftir Reykjavíkur Víkingum sem sömuleiðis hafa leikið einum leik meira:

image

Sagan

Knattspyrnulið Keflvíkinga er sá andstæðingur sem Breiðablik hefur oftast keppt við í opinberum mótum frá stofnun knattspyrnudeildar Breiðabliks árið 1957. Ári fyrr, eða 1956, tók ÍBK (Íþróttabandalag Keflavíkur) fyrst þátt í Íslandsmóti karla í fótbolta. ÍBK lék í 2. deild 1956 & 1957. Unnu sig upp í 1. deild 1958 & 1960 og svo aftur 1963 og óslitið til 1980. 

Það eru 50 ár síðan Breiblik lék fyrst í efstu deild. Árið 1971 voru Keflvíkingar með fyrnasterk lið og urðu Íslandsmeistarar það ár eftir úrslitaleik við ÍBV en lið ÍBV og ÍBK voru jöfn að stigum eftir 14 leiki (8-liða deild). Breiðabliksliðið (UBK) lenti í 7. sæti með 10 stig - einu stigi meira en ÍBA. Innbyrðis leikir ÍBK og UBK fóru vel fyrir verðandi Íslandsmeistara: Heimaliðið vann fyrri leikinn í Keflavík 4:1 og ÍBK vann seinni leikinn á Melavellinum 0:3.

Samkvæmt vef KSÍ eru innbyrðis leikir Breiðabliks og Keflavíkur 84 í opinberum mótsleikjum frá árinu 1962. Blikar leiða með 38 sigra gegn 30 sigrum Keflavíkurliðsins. Jafnteflin eru 16. Skoruð mörk eru 295 og skiptast þannig að Blikar hafa skorað 148 mörk gegn 151 marki Keflvíkinga.

Innbyrðis mótsleikir liðanna eru reyndar 125 frá fyrsta leik liðanna í gömlu B-deildinni 1957

Reynar er heildarfjöldi mótsleikja 125 leikir þegar leikjum sem ekki eru skráðir á vef KSÍ er bætt við. Um er að ræða 3 leiki í gömlu B-deildinni og 37 leiki í Litlu bikarkeppninni árin 1965 - 1995. Fyrsti opinberi leikur liðanna, er 8:0 tap Blika gegn Keflavík á Njarðvíkurvelli 23 júní 1957, en árið 1957 var fyrsta árið sem Breiðablik sendi lið til keppni í meistaraflokki karla. Síðari 2 leikirnir voru í gömlu B-deildinni árið 1962. Leikur 24. júní 1962 tapaðist 2:3. Leikurinn var heimaleikur Breiðabliks og spilaður á gamla Melavellinum sem þá var heimavöllur Breiðabliks þar til Vallargerðisvöllur í Kópavogi var vígður árið 1964. Hinn leikurinn 1962 fór fram í Keflavík og tapaðist 8:2. Og svo eru það 37 leikir í Litlu bikarkeppninni sem hófst árið 1961 fyrir tilstuðlan Alberts Guðmundsson. Mótið var hugsað sem æfingamót fyrir utanbæjarliðin Keflavík, Hafnarfjörð, Akranes og síðar Kópavog vegna Íslandsmóta. Leikin var tvöföld umferð.

image

1977 Litli Bikarinn á Vallargerðisvelli. Breiðablik - Keflavík 1-1. Á mynd: Ólafur Hákonarson, Magnús Steinþórsson og Einar Þórhallsson. Mynd: DV

Efsta deild

Innbyrðis viðureignir liðanna í efstu deild eru 57.

Fyrsti efstu deildar leikur liðanna var árið 1971 – sama ár og Breiðablik lék í fyrsta sinn í efstu deild. Í 57 leikjum liðanna í efstu deild hafa Keflvíkingar unnið 23 leiki, Breiðablik 21 og jafntefli er niðurstaðan í 13 viðureignum. Markatalan er 98:90 Keflvíkingum í hag.

En ef við færum okkur aðeins nær í tíma og lítum á tölfræðina, eins og hún er eftir að Blikar koma aftur upp í efstu deild árið 2006, þá er tölfræðin með Blikum. Í 23 efstu deildar leikjum liðanna frá 2006 til 2021 leiða Blikar með 12 sigrum gegn 5 sigrum Keflvíkinga. Jafnteflin eru 6. Liðin skora 84 mörk í þessum leikjum, Blikar 47 mörk gegn 37 mörkum Suðurnesjaliðsins.

Síðustu 5 deildaleikir liðanna í Keflavík:

Blikaliðið tekur nú þátt Evrópukeppni (Europa Conference League) og það kann að hafa áhrif en á alls ekki að gera það. Árið 2010 (Íslandsmeistaraárið) lékum við einmitt í Keflavík á milli Evrópuleikja (Motherwell) og unnum þar sigur 0-2 með mörkum kristins Steindórssonar og Alfreðs Finnbogasonar. Þjálfari Keflvíkinga þá var Willum Þór Þórsson sem síðan hefur lagt okkur Blikum til afburða knattspyrnumenn og sér ekki fyrir endann á þeirri framleiðslu. Er ekki tilvalið fyrir Kidda að endurtaka leikinn suður með sjó á sunnudaginn? 

Leikmannahópur Breiðabliks 2021

image

Stuðningsmaðurinn

Spábliki 14. umferðar er borinn og barnfæddur Kópavogsbúi og Breiðabliksmaður í húð og hár. Fæddur á Digranesveginum en ólst upp í Hrauntungunni. Við hliðina á Jóhannesi Jónassyni (Jóa á hjólinu) en menn verða ekki meiri Kópavogsbúar en það. Hann lék með Breiðabliki í yngri flokkum og varð Íslandsmeistari 2svar sinnum í 3ja flokki. Hann lék líka nokkra drengja- og unglingslandsleiki en byrjaði leikferilinn með meistaraflokki 1978. SpáBliki leiksins lék 178 leiki með mfl og skoraði 38 mörk af hægri vængnum en þurfti að hætta í knattspyrnu 26 ára vegna hnémeiðsla. Viðkomandi hefur mikið starfað fyrir félagið – sem þjálfari, dómari, stjórnarmaður og í ýmis konar stefnumótunarverkefnum – en hann er með sérmenntun frá Copenhagen Business School á því sviði.   Hann skrifar talsvert hér á blikar.is og það þekkja hann margir úr starfi Breiðabliks. Hann var sæmdur nafnbótinni „Gullbliki“ á síðasta ári af stjórn félagsins.  

Hákon Gunnarsson:  Hvernig fer leikurinn? 

Á pappírnum eiga Blikar að vinna í þessum óheyrilega mikilvæga leik.  En það áttum við líka að gera í bikarleiknum þar sem heimamenn slógu okkur út í 16 liða úrslitum í Keflavík. Nokkuð sem á ekki að gerast með þennan leikmannahóp sem við búum yfir.  
Ég er ekki alltof bjartsýnn fyrir þennan leik - en spái sigri okkar manna 1-2. Ég veit sjálfur hvað það er snúið að spila í Keflavík.  Völlurinn alls ekki nógu góður og iðulega ekkert sérstaklega mikið logn.  Ég þekki hversu erfitt er að ná úrslitum á þessum velli.
Við erum að taka þátt í Evrópukeppni og það kann að hafa áhrif.  Það á alls ekki að gera það. Lið sem getur leyft sér að stilla upp varamannabekk með Kristni Steindórssyni, Thomas Mikkelsen, Jason Daða Svanþórssyni, Finn Orra Magnússyni og Oliver Sigurjónssyni (eins og í síðasta leik) getur dreift álaginu. Þetta eru hálfatvinnumenn og eiga að klára dæmið á venjulegum degi. 

image

Hákon Gunnarsson í einum af sínum mörgum kvöldróðrum.

image

Mörkin úr fyrri leik liðanna á Kópavogsvelli í maí:

Til baka