BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Sigur á Víkingum í Fossvogslaugaslagnum

17.08.2020 image

Víkin. Óvíst er hvort það sé vísun í svæðið umhverfis Oslóarfjörð í Noregi eða einhverskonar stytting á Reykjavík, innan Kollafjarðar nánar tiltekið frá Laugarnesi í austri og að Örfirisey í vestri, en Víkin er það. Grænklæddir Kópavogsbúar gerðu sér ferð þangað til að etja kappi við næstelsta knattspyrnulið landsins; Víking Reykjavík. Nú eftir að ÍK færði sig upp í það hverfi sem Erpur Eyvindarson kallar Garðabæ hinn síðari, og er hér átt við póstnúmerið 203, ættu viðureignir Víkings og Breiðabliks að vera nágrannaslagir. Tíminn verður að leiða í ljós hvort að þessar viðureignir beri með sér „derby“ fíling en báðir leikir okkar í Víkinni í fyrra gáfu til um að hitinn milli þessara lið sé að færast í aukana. „Baráttan um Fossvog“ er mögulegt nafn á þessum leik en er líklega of líkt Stjörnuleikjunum sem hafa verið kallaðir „baráttan um Arnarneshæð“. „Fossvogslaugaslagurinn“ væri fínt nafn ef laugin sem hefur verið fyrirhuguð í Fossvogsdalnum í dágóðann tíma og á að vera rekin sameiginlega af Reykjavík og Kópavogi myndi einn daginn rísa. Annars finnst mér Víkingur, á þessari stundu, alls ekki leiðigjarnt félag. Þó þeir gerðu úti um vonir okkar Blika um fyrsta bikarmeistaratitil liðsins árið 1971 en við erum búin að þagga það kirfilega niður.

image

Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Þessi leikur átti sér stað í fyrstu umferð eftir seinni bylgju Covid-19 og því búið að herða sóttvarnaraðgerðir til muna og engir áhorfendur leyfðir í stúkunni. Víkingar eru upp til hópa löghlýðnir og fylgja tilskipunum yfirvalda, enda félag sem nánast einungis samanstendur af læknum, lögfræðingum og öðrum fjármagnseigendum. Þó dugði ekki málflutningsréttur fyrir Hæstarétti eða skurðhnífur gegn grænklæddu kyndilberunum úr Kópavogi.

Þrettán af átján leikmönnum Breiðabliks í þessum leik eru uppaldir hjá félaginu, þá níu í byrjunarliðinu og fjórir á bekknum. Damir og Thomas Mikkelsen tóku báðir út leikbann vegna uppsafnaðra gulra spjalda og Viktor Karl er enn frá vegna meiðsla. Atli Hrafn sem kom frá Víkingum fyrr í mánuðinum byrjaði á bekknum en hann átti eftir að koma við sögu í leiknum. Byrjunarlið Blika var á þessa vegu:

image

Brynjólfur Andersen leiddi framlínuna og KD20 stóð vaktina fyrir aftan Binna. Á vængjunum voru Davíð og Höggi capitano. Miðjan samanstóð af Gísla Eyjólfssyni, Alexander Helga og Andra Rafni. Í vörninni voru Oliver, Elfar Freyr og Róbert Orri. Anton Ari að sjálfsögðu í rammanum.

Leikurinn fór rólega af stað miðað hvað átti eftir að koma. Við Blikar réðum vel við pressu Víkinga og leystum glæsilega úr henni í fyrri hálfleik. Anton og vörnin var tiltölulega róleg á boltanum og úr sjónvarpinu á Rauða Ljóninu á Seltjarnarnesi leit þetta mjög vel út.

image

Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Fyrsta markið kom svo á sautjándu mínútu. Höskuldur prjónaði sig frá vinstri kantinum inn á miðjan völlinn, kom boltanum á Kristinn Steindórsson sem virtist í nokkuð þröngri stöðu en tók þó stórglæsilegt skot vel fyrir utan teiginn með hægri fæti í bláhornið, vinstra megin! Ingvar Jónsson markvöður Víkinga átti engin svör. Kiddi Steindórs, þvílíkt eðalmenni, sjö mörk á þessu tímabili. Sá er heitur, líklega jafn heitur og þurrgufa.

image

Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Skammt er stórra högga á milli. Víkingar voru ekki fyrr búnir að vera kýldir í magann af Kristni þegar að alvöru rothögg kom frá Brynjólfi. Hann rændi boltanum úr hjarta Víkingsvarnarinnar, sloppinn einn í gegn sem endaði með því að Ingvar Jónsson þurfti að kippa honum niður og vítaspyrna dæmd. Brynjólfur steig sjálfur á punktinn og skoraði af miklu öryggi.

Eftir að hafa komist tveimur mörkum yfir tókum við öll völd á vellinum. Brynjólfur hefði hæglega geta bætt tveimur mörkum við en Ingvar át hann í tvígang. Á þessum tíma áttum við að vera búnir að gera út um leikinn en í staðinn komust Víkingar aftur inn í hann með marki frá Óttari Magnúsi Karlssyni á 34. mínútu. Við misstum þá boltann klaufalega til Erlings Agnarssonar sem kom honum á Óttar er kláraði færið snyrtilega framhjá Antoni Ara. 2-1.

Víkingar settu í kjölfarið pressu að marki okkar Blika og komst áðurnefndur Erling í gott færi en kiksaði boltann sem betur fer en því miður fyrir Víkinga því við tók sýningastjórinn Gísli Eyjólfsson. Á 40. mínútu fékk Gísli boltann frá vinstri kantinum, tók þrjár, fjórar snertingar og hamraði boltanum af líklega þrjátíu metra færi í slánna og inn. Beint af Vallagerðisvelli. Þetta hlýtur að vera mark sumarsins. Stjórnendur goalshub.com þurfa a.m.k. ekki að hafa áhyggjur af lítilli traffík inn á síðuna næstu daga >>>>

Blikar fóru með 3-1 stöðu inn í hálfleik, sódavatnið rann ljúflega niður og hafði maður nokk litlar áhyggjur af stöðu mála. Adam var þó ekki lengi í paradís og allt það…

Víkingar komu ansi sterkir út í seinni hálfleik. Óttar Magnús ógnaði marki okkar stöðugt. Binni komst þó í fínt færi á 51. mínútu en klappaði boltanum of mikið, væri til í að sjá Brynjólf skjóta oftar úr þeim stöðum sem hann kemst í því hann er með alvöru skottækni (ég ætla samt ekki að segja honum til um hvernig eigi að spila knattspyrnu eins og hundleiðinlegur sófasérfræðingur)!

image

Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Stuttu síðar fengu Víkingar horn sem þeir skoruðu úr, Sölvi Geir stökk þá manna hæst og stangaði knöttinn í netið. Fossvogslaugaslagurinn varð orðinn aftur að leik, því miður. Víkingar voru ansi nálægt því að jafna eftir tæplega klukkutíma leik. Bjargaði þá Róbert Orri marki með glæsilegri blokkeringu inn í markteig eftir fast skot Nikolaj Hansen. Kópavogsmegin í Fossvogsdalnum mátti heyra hjartveiku Blikana innbyrða Nitroglycerin DAK því pressa Víkinga var ansi sterk.

image

Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Komst téður Nikolaj Hansen aftur í dauðafæri en Elfar Freyr, sá spænski, elti hann uppi og rennitæklaði boltann glæsilega út fyrir endalínu áður en Hansen gat skotið. Í milltíðinni hafði Kiddi Steindórs farið út af og inn kom Atli Hrafn í sínum fyrsta leik fyrir Kyndilberana (jújú ég er að reyna gefa félaginu gælunafnið „Kyndilberarnir“ þetta gæti þó misheppnast hrapallega, fer allt eftir því hvað Pétri Ómari og Brynjólfi Andersen finnst).

image

Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Í rauninni var það magnað að Víkingar skyldu ekki hafa jafnað metin frá 55. mín til 70. mín, en þá skoraði Brynjólfur Andersen mark sem gárungarnir segja að fjórði dómarinn hafi dæmt af vegna rangstöðu, sem var réttur dómur. Dómararnir tóku þó langan umhugsunarfrest Arnari Gunnlaugssyni, þjálfara Víkinga, til mikillar óhamingju sem tók Skagatrylling og rúmlega það fyrir að vera mættur inn á völlinn og sparka í allt sem fæti var næst, fyrir það fékk hann að líta rauða spjaldið. Eftir þetta atvik dró aðeins úr pressu Víkinga, mér og öðrum Kópavogsbúum til mikillar hamingju. Möguleg ástæða þess að Víkingar náðu ekki að troða inn jöfnunarmarki má vera sú að Viktor Örn var settur inn á fyrir Davíð Ingvarsson á 65. mínútu til þess að þétta raðirnar, góð ákvörðun.

image

Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Á 87. mínútu kom svo Kwame Quee inn á fyrir Alexander Helga en óheppnin elti Kwame uppi því hann virtist togna aftan í læri eftir fyrsta sprettinn sem hann tók. Agalegt að sjá. Vonandi er þetta ekki alvarlegt. Fossvogslaugaslagurinn er byrjaður að standa undir sínu og er nóg af vítum og rauðum spjöldum í viðureignum þessara liða. Á 90. mínútu fengum við víti og einn Víkingur fékk að líta rautt spjald. Róbert Orri átti þá glæsilega sendingu inn fyrir á Brynjólf sem náði ekki skoti því Atli Barkarson ríghélt í hann og fékk fyrir vikið brottvísun. Hjartaknúsarinn BWA steig sjálfur á punktinn og þrumaði boltanum í netið og innsiglaði þar með 4-2 sigur Breiðabliks í ekkert eðlilega skemmtilegum leik.

image

Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Leikurinn minnti á keppni milli bræðra, sá eldri mun sterkari og betri en gefur alltaf þeim minni smá séns til að gera keppnina spennandi þangað til að hann nennir ekki meir og klárar leikinn. Því við fengum svo sannarlega færin til að klára leikinn mun fyrr. Ég segi samt það sama og Hrafnkell Freyr „je suis Gísli Eyjólfsson“. Hver vill ekki vera hann eftir mark kvöldsins? Geggjaður!

image

Með þessum úrslitum jöfnum við KR og FH að stigum og sitjum því í 2-4 sæti með 17 stig og erum fimm stigum á eftir Val í fyrsta sæti. Treystum Skara, Dóra, Gulla og Óla að við munum saxa á forskot Valsmanna. Að lokum, mikið andskoti er þetta skemmtilegt lið sem við styðjum og deildin ekki síður mögnuð.

Freyr Snorrason.

image

Til baka