BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Sigur í fjölnota menningarhúsi Grafarvogs!

05.03.2021 image

Myndaveisla í boði Huldu Margrétar ljósmyndara

Gott gengi okkar manna hélt áfram eftir 3-1 sigur Blika gegn Fjölnismönnum í kvöld. Leikið var í hinu skemmtilega menningarsetri Grafarvogsbúa sem fékk heitið Egilshöll. Þar er hægt að fara í keilu, bíó, út að borða, ljósabekkjartíma, skauta, ræktina, spila fótbolta, fara í fimleika og svo mikið meira. Breiðabliksliðið mætti þó til þess að spila fótbolta og gerðu það prýðilega. Byrjunarliðið var á þessa vegu:

image

Við stjórnuðum leiknum frá A-Ö, Fjölnismenn höfðu verið dagana á undan að grafa skotgrafir í hið vafasama gervigras og lágu í þeim. Það var hægt að telja skiptin á fingrum annarrar handar sem Fjölnismenn spiluðu sig yfir á vallarhelming Blika. Oliver reið á vaðið eftir u.þ.b. hálftíma leik með þrumuskoti af 30 metrum sem virðist hafa flöktað allverulega þar sem markmaður Fjölnismanna bar sig heldur furðulega eftir að skotið reið af.

Staðan í hálfleik var því 1-0 og undirritaður sat pollslakur í stúku Egilshallarinnar og hafði litlar sem engar áhyggjur af þessum leik. Ég hafði meiri áhyggjur af frammistöðu minni á nýjasta vettvangi Blikar.is sem er meiri virkni á Instagram. Mæli eindregið með að elta okkur þar undir heitinu blikaris

View this post on Instagram

A post shared by Blikaris Stuðningsmannavefur (@blikaris)

Brynjólfur fór út af í hálfleik og inn á kom nýjasti fulltrúi Pizzabæjarins í Breiðabliksliðinu, Jason Daði Svanþórsson. Á 55. mínútu var darraðardans í teig Fjölnismanna eins og svo oft áður í leiknum, Atli Hrafn náði þá að koma sér í álitlega stöðu sem endaði með því að Grafarvogsbúinn reif hann niður. Víti dæmt. Höskuldur tók það og skoraði af miklu öryggi.

Guðjón Pétur og Alexander Helgi komu báðir inn á með stuttu millibili fyrir Kristinn Steindórsson og Viktor Karl. Á 73. mínútu tók svo Jason Daði til sín og skoraði frábært mark eftir skemmtilegt samspil við Atla Hrafn. Vel gert drengir! Staðan 3-0. Ég sagði ítrekað við stjörnublaðamann fótbolta.net, Arnar Laufdal, að leikurinn myndi enda 5-0. Allt kom fyrir ekki og fengum við fyrsta markið á okkur í fjórum leikjum Lengjubikarsins á 90. mínútu.

Lokatstaðan því 3-1 sigur Breiðabliks og hin fínasta menningarferð í Grafarvoginn staðreynd.

Freyr Snorrason.

Umfjallanir netmiðla.

Arnar Laufdal Arnarsson hjá Fótbolta.net tók þetta viðtal við Höskuld fyrirliða eftir leik. 

Til baka