BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

10 Blikar mun betri á Akureyri!

14.08.2023 image

Tíu Blikar létu ekki deigan síga gegn KA á Akureyri í gær. Þrátt fyrir að spila einum færri allan síðari hálfleikinn voru okkar pilta sterkari aðilinn í leiknum. En lukkan var ekki með okkur í liði að þessu sinni og urðum við að sætta okkur við 1:1 jafntefli.  Leiknum verður helst minnst fyrir að þjálfarnir Óskar og Halldór hvíldu sjö sterka leikmenn vegna mikil álags að undanförnu. En þeir strákar sem komu í staðin sýndu það og sönnuðu að þeir geta staðið sig vel í baráttu þeirra bestu.

Sófakartöflur austan tjalds og vestan voru hins vegar með böggum hildar vegna nettruflana á KA-svæðinu sem urðu þess valdandi að Stöð 2 gat ekki sýnt leikinn beint. Hefur umferð inn á textavarpið, urslit.net, textavarp Mbl og vefþjónustu Vísis sjaldan verið eins mikil. Segja gamlar konur að eldglæringar og ýmis önnur teikn hafi birst á himni alla leið frá Borgarfirði til Eyjafjarðarsveitar ytri. En þá að leiknum sjálfum. Færeyingurinn fjölkynngi, Klæmint Olsen, kom Blikaliðinu yfir með hörkuskalla eftir frábæra sendingu hins unga og efnilega Ágústar Orra Þorsteinssonar strax á 17. mínútu.

Glöddust þá allir réttlátir menn og rauk úr öllum rafmagnsleiðslum á milli Kópavogs og KA-svæðisins af gleði. En skömmu fyrir leikhlé dundi ógæfan yfir. Dómari leiksins var skyndilega lostinn mikilli blindu sem hugsanlega má rekja til mikillar heiðkvikju í hálfoftunum yfir Akureyri. Hann ákvað að reka Oliver Stefánsson af leikvelli en honum skrikaði fótur þegar einn hinna gulkæddu dúndraði í hliðina á honum. Þar að auki var dæmt víti á Blikaliðið. Gersamlega fráleitur dómur en því miður sá sá svartklæddi ekki að sér og heimapiltar jöfnuðu leikinn 1:1.

Áttu nú margir von á því að KA myndi innbyrða léttan sigur gegn tíu Blikum. En það varð ekki raunin. Á okkar pilta rann mikill berserksgangur, þeir grenjuðu sem hundar, bitu í skjaldarrendur og óðu eld brennanda berum fótum líkt og Haukarnir tveir í Vatnsdælasögu.

Við þessu áttu gulklæddir heimapiltar fá svör. Tíðindamaður blikar.is á Akureyri segir að barátta og ákefð Blika hafi skelft ungabörn í stúku og nokkrir eldri menn hafi þurft að yfirgefa leikinn vegna hjartsláttatruflana. En þrátt fyrir nokkur ágæt marktækifæri Blika og reyndar örfá marktækifæri KA-liðsins sættust liðin á skiptan hlut. Blikaliðið á mikið hrós skilið fyrir þennan leik. Það er ekki létt að fara á sterkan útivöll með gersamlega nýtt lið. Erfitt er að gera upp á milli leikmanna liðsins enda spilaði liðið sem einn maður. En þó verður að hrósa nýliðanum unga Ásgeiri Helga Orrasyni sem var að spila sinn fyrsta leik í byrjunarliði. Viktor Karl steig upp í síðari hálfleik og sýndi mikla leiðtogahæfileika að binda saman spilamennsku liðsins í erfiðri stöðu. Eyþór Aron Wöhler og Ágúst Eðvald Hlynsson hlupu gersamlega úr sér lungun og Anton Logi sýndi það og sannaði að hann er einn skemmtilegasti og liprasti miðjumaður deildarinnar. Í þessum leik spilaði Anton Logi hins vegar sem hafsent og skilaði þeirri stöðu frábærlega. Ágúst Orri vex með hverjum leik og svo má ekki gleyma Brynjari Atla Bragasyni markverði sem lék óaðfinnanlega í leiknum.

En ævintýri Blikaliðsins halda áfram næstu vikurnar. Á fimmtudaginn mætum við Bosníumönnunum í Evrópukeppninni á Kópavogsvelli og á mánudagsvöld koma Keflavíkingar í heimsókn á Kópavogsvöll. Knattspyrnuveisla framundan og vonandi láta stuðningmenn sig ekki vanta til að styðja við bakið á liðinu.

-AP

Til baka