BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Partý í stúkunni

11.09.2021 image

Þegar Breiðablik trónir á toppnum í deildinni með þrjá leiki eftir og spilað er á móti ríkjandi Íslandsmeisturum í toppbaráttunni á laugardagskvöldi klukkan tuttugu þá eru fyrirpartý um allan bæ. Og fólk mætti vel stemmt til leiks. Kópacabana, sem hefur mátt glíma við kóvidhindranir misserum saman, mættu með fleiri á skýrslu en stelpurnar sem negldu sig inn í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í vikunni og sungu og trölluðu frá því löngu fyrir leik. Upphitun Stöðvar2 Sport hófst 40 mínútum fyrir leik sem sýndi vel hversu mikið var undir.
Það var ekkert óvænt í byrjunarliðinu. Okkar vönustu menn stilltu sér upp, klárir í slaginn.
 

image

Tókum þá á taugum
Það tók 23 sekúndur sléttar að ógna marki Valsara. Þá munaði skónúmeri að Árni næði að koma fyrirgjöf Höskuldar í netið. Aftur jókst taugaveiklun Valsara á 5. mínútu þegar horn frá Höska fór af fingurgómum Hannesar ofan á slána og datt óvænt fyrir tærnar á Jasoni sem náði ekki að stýra tuðrunni úr þröngu færinu í netið. Mínútu síðar kom fyrirgjöf frá Kidda sem munaði aðeins meiru en skónúmeri að einhver næði í hann. Hlaupararnir inn í teiginn hefðu þurft að vera á skíðum til að ná þessari.

Allan fyrri hálfleikinn spiluðum við af meiri yfirvegun, meiri ákefð, meiri ásetningi og meiri dugnaði en Valsarar. Það var ekki fyrr en eftir meira en korter að Valsmenn héldu boltanum lengur en í 12 sekúndur.

Rauk af honum

Síðla fyrri hálfleiks var sá dugmikli fyrirliði Valsara, Haukur Páll, lagstur í völlinn af óljósum ástæðum. Það rauk úr honum, það stóð hreinlega gufan upp af honum þar sem hann lá. Það minnti mig á Gísla sögu Súrssonar, þar sem hin dugmikla Bóthildur reri báti svo skarpt að hún var „allsveitt af mæði og rauk af henni.“ Í sama innslagi sögunnar hafði Gísli Súrsson þóst vera Ingjaldsfíflið og menn Barkar digra föttuðu það seint um síðir. Það var kannski eins með dugnaðinn og hreyfinguna á okkar mönnum í fyrri hálfleiknum að Haukur Páll og félagar, sem alltaf voru með Blika í andlitinu um allan völl, hafi hugsað líkt og Börkur digri að deildust nú Blikar víðara en þeir hugðu.

Hvað um það þá spenntust taugar Valsara enn frekar þegar Kristinn smellti honum í netið á 43. mínútu eftir flott spil en var naumlega (og trúlega réttilega) dæmdur rangstæður.
 

Ábót í hálfleik

Grænklæddir komu öðru vísi stemmdir út í seinni hálfleikinn en þeir hófu þann fyrri. Minni hreyfing var á mönnum fyrstu mínúturnar og þeir gerðu fleiri mistök. Einbeitingin var hreinlega minni en kannski aðeins afslappaðri afstaða gagnavart leiknum. 

Fum var svolítið hjá báðum liðum í upphafi seinni hálfleiksins og mistök á báða bóga. Þau skópu okkur færi strax á 3. mínútu hans en á 51. mínútu sýndu Valsmenn að þeir kunna að spila fótbolta. Pedersen (ekkert skyldur Bíó-Pedersen sem Pedersen svítan í Gamla bíói er kennd við held ég) vann boltann af Viktori og Valsmenn fengu í framhaldinu skotfæri eins og á skotbakka í Tívolíi. Þetta voru samt bara hálffæri og Anton Ari með allt undir stjórn. 

Eftir þetta var eins og Kópacabana drifi sig úr hálfleiksölinu og mannskapurinn allur tók við sér. Hér varð ekki aftur snúið.
 

Fyrsta markið skipti miklu

Eftir þétta pressu stakk Gísli sér inn á teiginn með boltann á 60 .mínútu og varnarpat á Valsmönnum skilaði okkur réttilega dæmdu víti. Það var náttúrulega Messi-baninn Hannes (sem við höfum réttilega þakkað síðustu daga framúrskarandi framlag hans í þágu landsliðsins) sem stóð á móti Árna í vítinu. Árni var svo ískaldur á punktinum að það þurfti ekki klaka í drykkinn. Bláhornið. Hannes mjakaði sér ekki.

Þegar þarna var komið sögu voru Valsmenn orðnir talsvert þreyttari en okkar menn, þrátt fyrir skiptingar þeirra megin. Pressan hélt áfram. Grænklæddir voru lausari, svæðin stærri og það skilaði hrikalega snotru marki á 72. mínútu. Kiddi fær erfiðan bolta, tekur hann niður, gefur hann á Jason sem mismunar sér upp að endalínunni, er kaldur, með hausinn í lagi og færir Kidda hann aftur í svæði rétt utan markteigsins þaðan sem tuðrunni er þrykkt í netið. 2-0.
 

Blikar með öll völd

Höskuldarviðvörun. 76. mínúta. Negla úr aukaspyrnu svolítið utan teigs í fjærhornið og Hannes sýndi af hverju hann var landsliðsmarkmaður þangað til fyrir þremur dögum. Valsmenn grýta svo fleiri ferskum fótum inn á. Tvöföld skipting til viðbótar annarri tvöfaldri fyrr í leiknum en áframhaldandi yfirvegun, dugnaður og einbeiting okkar manna skilaði þriðja markinu. Stunga fram úr vörninni. Árni í rangstöðunni en Jason fær boltann, tekur netta snertingu og bíður ofurkúl þar til Árni er ekki lengur rangstæður, rennir þá á hann og nú botnfraus drykkurinn yfir kúlinu í Árna. Renndi honum með vinstri framhjá Hannesi. 3-0 og málið dautt! Vel dæmt. Betur skorað. Glasið frostsprakk.
 

Faðmað, umvafið, elskað 

Þess er auðvitað beðið í ofvæni að Óskar Hrafn þjálfari brosi í sjónvarpsviðtali eftir leik. Það gerðist ekki í kvöld og veðmálastuðullinn hækkar bara. Það er samt einhver yfirveguð fegurð í skilaboðunum frá honum. Hann einbeitir sér að frammistöðunni frekar en úrslitunum. Það er nefnilega hægt að standa sig svakalega vel án þess að úrslitin séu í samræmi við það. Bestu skilaboðin frá Óskari voru samt þegar forystupressan í deildinni var að taka suma stuðningsmenn á taugum (og maður veit ekkert um leikmennina). Þá sagði hann: „Ég hef enga reynslu af því að vera í toppsætinu með Breiðablik. Það er alltaf þessi stöðuga pressa og ég held að það sé mikilvægt að faðma hana, umvefja og elska hana. Passa að láta hana ekki fara að stjórna sér.“

Þetta fannst mér skila sér í kvöld. Það var alveg augljóst hvar taugaveiklunin átti heima. Lögheimilið var frekar á Hlíðarenda en í Smáranum.
 

Sá stóri?
 

image

Sumir lesendur blikar.is kunna að kannast við ártalið á húfunni góðu. Ég faðma, umvef og elska þessa húfu en leturgerðin er fengin frá þeim glimrandi fótboltapoddköstum „Svona var sumarið.“

Fréttamaður Stöðvar2 Sport tók mann leiksins, Árna Vill, tali eftir leik.
     Fréttamaður: Hvað þarf til að vinna þann stóra?
     Árni: Vinna okkar leiki!

Næsta partý í stúku verður teboð með grænum gúrkusamlokum í Kaplakrika á sunnudaginn eftir rúma viku, 19. september, klukkan tvö eftir hádegi.

Eiríkur Hjálmarsson

image

Myndaveisla í boði HVH og BlikarTV

Til baka