BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Það er partý í stúkunni!

16.05.2022 image

Það er partý í stúkunni!

Kópavogsbúum gekk alveg prýðilega að mynda meirihluta í kvöld. Líklega var meirihluti áhorfenda á Víkingsvellinum á bandi okkar fólks. Það veitti ekkert af. Nú voru það tvöföldu meistararnir frá fyrra sumri sem tóku á móti okkur grænklæddum og vissu það alveg að þetta var tækifæri þeirra til yfirlýsingar um að ætla að vera í toppbaráttunni. Breiðablik er liðið til að vinna þessa dagana og Arnar Víkingsþjálfari var bara glaðbeittur með yfirlýsingu um leikinn að það væri betra að vera veiðimaðurinn en bráðin. Gamall kollegi meðal stuðningsmanna Víkings var nú ekki á sama máli og spáði leiknum 1-3, en svona stillti Óskar Breiðabliksbráðinni upp fyrir Víkingana; óbreytt byrjunarlið, Viktor Karl enn óleikfær og markaskorarinn Dagur Dan byrjaði.

image

Fast spilað

Það veitti ekkert af stuðningnum í stúkunni í baráttu fyrri hálfleiksins. Það var spilað fast en dómarinn dæmdi ekkert mjög mikið og það reyndi talsvert á geðprýði miðjumannanna – Olivers, Gísla og Dags – þegar eilíflega var tosað í peysur gripið í handleggi eða tekin danstök þegar okkar menn voru að smeygja sér framhjá Víkingunum. Einbeiting þeirra bilaði ekki baun og það var alveg gegn þeirri línu sem dómarinn hafði tekið í leiknum þegar hann tók upp á því að dæma brot á Oliver þegar hann hirti tuðruna af Kristali Mána, lagði hann fyrir sig utarlega í teignum og smellti honum í hornið.

image

Mynd: Hafliði Breiðfjörð - Fótbolti.net

Pífffttt, gall í flautu dómarans, öllum að óvörum og þess vegna var gengið markalaust til hálfleiks þótt okkar menn hafi verið ívið betri og ég man hreinlega ekki til þess að hafa ekki nagað framan af eins og hálfri nögl í einum hálfleik. Nú snerti ég þær ekki.

Okkar menn spiluðu ýmist út úr vörninni eða sendu langt en það var stundum eins og það væri ekki allt liðið að spila sömu taktíkina, eða að minnsta kosti ekki í nákvæmlega sama taktinum. Færin létu á sér standa.

Spámaður utan föðurlandsins

Í hálfleiknum gaus aftur upp reykjarsvælan af grilli heimamanna en blíður austanblástur veitti honum akkúrat nægilega mikið skjól til að leggjast yfir mannskapinn í stúkunni. Það var þá notalegt að rölta yfir að landamærum Reykjavíkur og Kópavogs og njóta volgrar kvöldgolunnar og þurrka svitann sem safnast hafði á skallann undir sólvarnarhattinum. Einn félaginn sem líka var að kæla sig í Kópavogsblænum var alveg viss um að „við tækjum þetta í seinni.“ Við frekara spjall kom í ljós að hann hafði tapað þremur Júróvisjónveðmálum á laugardagskvöldið og hreinlega þorði ekki að spyrja hann hvernig hann hefði spáð fyrir um kosningaúrslitin. Fyrir nákvæmlega ári höfðum við nefnilega tapað á þessum sama velli, 3-0!

Mark og svo bara fleiri mörk

Það var bara mínúta liðin af seinni hálfleiknum þegar okkar menn urðu sennilegri og í framhaldinu komu hálffæri þangað til Oliver smellti stungu á Jason sem vippaði yfir markmanninn, rétt framhjá en Ísak hirðir boltann af endalínunni, leggur hann fyrir sig og neglir í netið. Ísak veður að okkur stuðningsmönnunum í stúkunni, sækir sér kraft og gefur orku á móti

Þetta var heimamönnum greinilegt áfall því eftir þetta voru völdin á vellinum Breiðabliks. Áfram spilað þétt og fast og um tíma sýndist mér Davíð haltra í þónokkrar mínútur. Hann ákvað þó að hann skyldi eigi haltur ganga meðan báðir fætur væru jafnlangir. Breiðabliksvörnin var hreinlega miklu betri en Víkingsvörnin í leiknum. Það sýndi sig í mistökunum sem skópu annað mark okkar manna. Anton Ari sparkar langt, haffsent heimamanna skallar yfir markmanninn sinn, sem er í úthlaupi á leið að hreinsa, og hinn síhlaupandi Jason leggur boltann í tómt markið. 0-2.

Enn breikkaði brosið betri megin í stúkunni þótt mörkin hefðu vissulega glatt hjartað meira en augað. Þriðja markið bætti þar heldur betur úr. Reitabolti við vítateigshorn, 13 sendingar milli Blika, boltinn loks á Kidda Steindórs sem smeygir honum með innanfótarsnúningi upp í goluna ofan úr Mjódd og rétt undir slána í fjærhorninu. Þvílíkur fótbolti!

Skarpir hausar

Þótt mörkin yrðu ekki fleiri tókst Víkingum enn að bæta við mistökum en þeirra heitasti maður það sem af er tímabili ákvað að gefa Davíð olnbogaskot undir lokin og þiggja ókeypis far í sturtu að launum. Það var eiginlega táknrænt fyrir leikinn. Hausinn var betur skrúfaður á okkar menn en mannskapinn hinum megin við Fossvogsdalinn og stórsigur frábærrar liðsheildar var í höfn.

Staðan í deildinni er fögur, íðilfögur. Að byrja Bestu deildina með sex sigrum í röð er mikið afrek sem væntanlega ekkert Breiðablikslið hefur gert áður. Þetta er góður staður að vera á, sérstaklega þegar liðsheildin er þannig að það er ekki veikan blett á henni að finna. Samhugur og einbeiting einkennir liðið sem á skilið alla þá áhorfendur sem hafa mætt í Smárann og elt þá á útileiki. Þó fleiri væru því það er ekkert að því að hafa partýið í stúkunni mjög fjölmennt.

Takk fyrir kvöldið strákar!

Eiríkur Hjálmarsson

Umfjallanir annarra netmiðla. 

Hulda Margrét ljósmyndari - Myndaveisla

Mörk og atvik úr leiknum í boði BlikarTV:

Til baka