Af lægðagangi!
06.02.2025
Nú þegar dag er tekið að lengja og jafnvel farið að hilla í vorið á milli élja er boltinn farinn að rúlla af alvöru, og kannski ekki seinna vænna, því eftir slétta 2 mánuði rúllar Besta deildin af stað á ný. Já, tíminn flýgur.
Blikar mættu Fram í 1. umferð Lengjubikarsins í Fífunni og var leikurinn færður í hús vegna veðurs. Talsverður fjöldi lagði leið sína á völlinn og sennilega heldur fleiri en hefðu nennt að norpa úti við frostmarkið.
Gestirnir hófu leikinn af miklum krafti og settu pressu á okkar menn, og sköpuðu sér tvö mjög góð færi áður en þeir náðu verðskuldaðri forystu eftir um hálftíma leik. Markið kom úr vítaspyrnu sem var réttilega dæmd á okkar menn eftir klafs í teignum. Okkar menn voru frekar þungir á sér og sendingar óvenju ónákvæmar, en það vantaði ekkert upp á baráttuna og dugnaðinn svo sem. En stundum var kappið meira en forsjáin og við vorum að flækjufótast of mikið með boltann, en það skal ekkert tekið að Frömurum, þeir voru grimmir. En Eyjólfur hresstist þegar leið á hálfleikinn og þó jöfnunarmarkið lægi sosum ekki í loftinu beinlínis kom það engu að síður skömu síðar og var af dýrari gerðinni. Þar var að verki Gabríel Snær Hallsson, kornungur leikmaður, með glæsilegu skoti af 18 metra færi. Klessa í fjærhornið, alveg út við stöng. Óverjandi.
Staðan í leikhléi því 1 - 1.
Síðari hálfleikur var ekki gamall þegar gestirnir náðu forystu á ný. Markið kom úr vægast sagt ódýrri aukaspyrnu sem dæmd var á Blika við vítateigsbogann (20 metrar, en úr þessari spyrnu skoraði Kennie Chopart glæsilegt mark, óverjandi fyrir Anton í markinu, en setjum spurningamerki við varnarvegginn til öryggis. Og aðeins 5 mínútum síðar tvöfölduðu Framarar forystuna þegar boltinn barst út á vinstri kantinn þar sem Framari fékk knöttinn og tók sprettinn, án þess varnarmenn okkar, sem reyndar voru víðs fjarri, næðu að hlaup´ann uppi og því fór sem fór. Blikar freistuð þess að minnka muninn og voru langtímum saman með knöttinn en gekk ýmist illa eða ekki að opna þétta og velskipulagða Framara. Blikar skiptu fjölda manns inná þegar á leið. Daniel kom inn fyrir Viktor Örn og Gunnleifur og Breki Freyr komu inn fyrir Kristinn Steindórsson og Andra Rafn. Skömmu síðar kom Alekss Kotlevs inn fyrir Höskuld og undir lok leiks komu svo tveir kornungir fyrir aðra kornunga, Orri Bjarkason og Egill Valur Karlsson komu inn fyrir Tuma Fannar og Dag Örn. Mörg ný nöfn til að læra til prófs í vor, eins og jafnan. En Blikum varð lítt ágengt upp við markið og gestirnir héldu fengnum hlut til enda. 1-3.
Þessi leikur fer í sögubækurnar af tölfræðilegum ástæðum eingöngu.
Mikill vorbragur á okkar mönnum og þó það vantaði marga sem léku lungann úr mótinu í fyrra, var þetta (samt) smá skellur. Frekar þunglamalegt lengst af og andstæðingurinn átti í fullu tré við okkar menn. Framara voru frískari í fótunum. Hver svo sem ástæðan er.
En það er alveg óþarfi að örvænta, liðið á mikið inni. En vilji menn taka eitthvað út úr þessum leik þá er það kannski það að önnur lið munu ekki taka ríkjandi meistara neinum vettlingatökum og munu reyna allt til að spilla fyrir. Spila grjótgarð þegar þess þarf og leggja lífið í sölurnar. Svo eru líka fínir leikmenn í öðrum liðum, þó okkar séu að sjálfsögðu lang flottastir. Svo eru að koma strákar inn hjá okkur sem verður spennandi að sjá hvort muni gera sig gildandi á næstu árum.
Semsagt krappar lægðir í kortunum sem þarf að varast, en bjart framundan.
Næsti leikur okkar manna er n.k. laugardag kl. 13:00 á Kópavogsvelli gegn Fylki.
Það verður áhugaverð viðureign og vonandi verður gott veður (úti).
OWK