BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Ágúst sá um Keflavík

21.08.2023 image

Það voru frábærar aðstæður til að spila fótbolta á Kópavogsvellinum sunnudaginn 20. ágúst þegar Breiðablik tók á móti Keflavík í 19 umferð Bestu deildarinnar 2023.  Hitamælirinn sýndi 19 gráður og örlítill andvari úr norðri. Völlurinn vel vökvaður og áhorfendur voru vel stemmdir þó þeir hafi verið stundum fleiri þetta árið.

Breiðablik vann góðan sigur á HSK Zrinskij Mostar á þriðjudaginn í síðari leik liðanna í Evrópukeppninni og frammistaðan var góð  – þó markamunurinn hafi verið of mikill úr fyrri leiknum til að eiga raunhæfan möguleika á að vinna einvígið. Í vændum er afar mikilvægt einvígi í umspilsleik strax á fimmtudaginn í N-Makedónu gegn meisturum FC Struga í næstu viku. Nánar um það síðar.

Breiðablik gerði jafntefli í sínum síðasta leik í Bestu deildinni gegn KA fyrir viku síðan – þó Blikar væru einum færri allan síðari hálfleikinn. Fín frammistaða og gaf vonir um góð úrslit í þessum leik. Keflavík situr á botni deildarinnar og hefur ekki unnið leik þar frá því í fyrstu umferð, en gert mörg jafntefli, nokkur þeirra gegn sterkustu liðum deildarinnar. Þar á meðal er leikur í Keflavík gegn Breiðablik fyrr í sumar þar sem okkur tókst ekki að knýja fram sigur. 

Óhræddur við að gera breytingar

Óskar þjálfari gerði 5 breytingar frá byrjunarliðinu gegn KA.  Höskuldur fyrirliði var ekki í hópnum enda þurfa menn eðlilega hvíld í þessu álagi sem nú er.  Gísli var fyrirliði í stað hans. Ándri Yeoman var veikur og ekki í hóp – og var það skarð fyrir skildi. Eyþór Wöhler var í leikbanni og Arnór Aðalsteinsson er enn meiddur.  Anton Logi og Kristinn Steindórsson voru báðir hvíldir í álaginu sem nú er. Anton Ari var kominn aftur í markið – og í vörninni var hinn 17 ára gamli  Ásgeir Helgi Orrason í byrjunarliðinu líkt og gegn KA þar sem hann stóð sig firnavel.  Með honum í vörninni voru Damir, Viktor Örn og Davíð. Á miðjunni var Viktor Karl, Gísli Eyjólfsson og Ágúst Orri. Á vængjunum voru Jason og Ágúst Eðvald en Klæmint fremstur. Mörg kunnugleg nöfn fjarri en sterk uppstilling samt sem áður.

Leikurinn byrjaði eins og kannski var við að búast. Blikarnir réðu spilinu og færin létu ekki á sér standa.  Á fyrstu 10 mínútunum áttum við færi sem hefðu getað skilað marki.  Fyrst Jason eftir einleik og síðan Gísli eftir undirbúning hjá Ágústi Eðvald. Markið virtist liggja í loftinu – en samt var pirrandi hvað Keflavík gat skapað sér færi nánast upp úr engu og færið sem þeir fengu á 19 mínútu hefði hæglega getað endað sem mark. Sem betur fer fór boltinn yfir. Það er ekki gott fyrir fólk eins og mig sem kominn er yfir miðjan aldur að ganga í gegnum svona stress. 

Það dró til tíðinda á 30 mínútu. Ásgeir Helgi, sem var að leika sinn fyrsta leik í byrjunarliði í á heimavelli, átti frábæra sendingu á Ágúst Eðvald og skot hans endaði í marki Keflvíkinga

Þarna leið manni eins og nú myndi hné fylgja kviði – en því miður var öðru nær.  Keflvíkingar fengu innkast nánast í næstu sókn og því miður voru okkar menn ekki á verði. Andvaraleysið skilaði þeim jöfnunarmarki og vonbrigðin talsverð. Eftir markið náði Blikaliðið sér alls ekki á strik og kæruleysi á miðjunni skóp Keflavík algert dauðafæri úr skyndisókn á 38 mínútu sem hefði vel getað enda í markinu hjá Anton. Fyrri hálfleikur fjaraði út.

Stemningin í hléinu var ekki nógu góð. Menn höfðu uppi ýmsar gáfulegar skýringar – en almennt sammála um að það þyrfti að hrista upp í skipulaginu og klára færin. Sessunautur minn, Omran Kaso Sýrlendingur sem er búsettur í Kópavogi sagði: „Ég veit að Breiðablik vinnur þennan leik“. Omran var á sínum fyrsta leik með Breiðablik og fannst þetta frábær skemmtun. 

Óskar gerði eina breytingu í hálfleik. Oliver Sigurjónsson kom inn á fyrir Ágúst Orra. Þetta virkaði afar vel og það var allt annað Blikalið sem kom inn á í síðari hálfleik. Til að gera langa sögu stutta þá tóku Blikar öll völd á vellinum. Oliver kom með mjög ákveðna kjölfestu á miðjunni og spilaði eins og hann gerir best.  Aðrir voru miklu hreyfanlegri og liðið fór að spila eins og maður þekkir það. Það var virkilega gaman að sjá stutta spilið og Jason fór á kostum á hægri vængnum.  Breiðablik átti nokkrar skottilraunir eftir gott spil. Gísli í tvígang, Ágúst Eðvald og Jason Daði áttu allir góð færi en markvörður Keflvíkinga varði oft og tíðum stórkostlega og hélt þeim algerlega á floti. Damir átti hörkuskot yfir slána úr óbeinni aukaspyrnu og Davíð átti bylmingsskot sem var varið.

Eitthvað hlaut undan að láta – og það gerðist á 65. mínútu. Mjög vel útfærð sókn þar sem margir Blikar komu að. Það endar á því að Gísli er kominn í skotfæri – en varnarmaður Keflavíkurliðsins nær að koma boltanum frá til vinstri. Þar er Ágúst Eðvald mættur og afgreiddi hann í netið hjá Keflavík á listilegan hátt. Frábærlega gert.

Þarna voru 25 mínútur eftir af leiknum – en sóknarþungi Blika minnkaði aðeins við markið. Keflavík náði ekki að skapa sér nein alvöru færi.  Óskar gerði nokkrar skiptingar á síðustu 20 mínútum. Dagur Ingi Fjeldsted (fæddur 2005)  kom inn á fyrir Jason Daða (kærkomin hvíld fyrir komandi leiki). Nýi maðurinn Kristófer Ingi kom inn fyrir Klæmint  og tvöfaldi markaskorarinn fékk heiðursskiptingu en inn á fyrir hann kom Atli Þór Gunnarsson (fæddur 2006). Sigrinum var því siglt í höfn – og verður hann að teljast sanngjarn. 

Omran sessunautur brosti breitt þegar Sigurður Hjörtur, ágætur dómari leiksins flautaði leikinn af. „Hvað sagði ég ekki?“  

Þetta var afar nauðsynlegur sigur hjá Breiðablik. Við höfðum leikið 3 leiki í deildinni án sigurs og því var hann kærkominn. Liðið sýndi takta sem átti að skila stærri sigri en við þiggjum stigin 3 með þökkum. Allt liðið spilaði mjög vel. Gísli var mjög áberandi á miðjunni með Viktori Karli og þá var Jason gríðarlega öflugur á hægri kantinum. Áður er minnst á Ásgeir Helga Orrason. Það var ekki að sjá að drengurinn væri fæddur árið 2005 – aðeins 18 ára á þessu ári. Hann geislar af sjálfstrausti og tekur frumkvæði eins og rútíneraður leikmaður til margra ára. Hann er framtíðarmaður í vörn Breiðabliks. Maður leiksins var hinsvegar markaskorarinn Ágúst Eðvald Hlynsson. Enginn efast um leikni hans, hlaupagetu, tækni og dugnað – en hefur kannski vantað markaskorun. Kappinn sýndi svo sannarlega að hann kann að skora – og þau verða fleiri fyrir Breiðablik.

Mun Breiðablik skrifa knattspyrnusöguna? 

Segja má að á nú fari í hönd stærsta vika í sögu Breiðabliks sem knattspyrnufélag. Á fimmtudaginn gengur liðið til leiks í umspilsleik um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildar UEFA.  Þá leikum við gegn FC Struga, meisturunum frá N-Makedóníu  á útivelli. Viku síðar eða 31 ágúst verður síðari leikurinn gegn Struga á Kópavogsvelli.  Milli þessara leikja mætir svo Breiðablik Víkingi á heimavelli þeirra í Víkinni. Það verður barist um stoltið – en eftir sigur Víkings á Val í 20 umferðinni er flest sem bendir til að félagið eigi Íslandsmeistartitilinn vísan.

Aldrei í sögunni hefur íslenskt lið átt jafn raunhæfa möguleika á að komast í riðlakeppni í karlaflokki á vegum UEFA og nú. N-Makedónska deildin er samkvæmt mælingum UEFA lægra skráð en Besta deildin – þannig að Breiðablik getur skrifað söguna ef allt gengur upp. Þetta er í raun mun stærri viðburður en margur heldur og í raun tímamót í íslenskri knattspyrnu ef þetta myndi takast. Möguleikar Breiðabliks eru enn meiri en ella þar sem öflugum aðilum innan Breiðabliks tókst að fá undanþágu frá reglum UEFA og færi leyfi til að leika heimaleiki á Kópavogsvelli. Kópavogsvöllur uppfyllir alls ekki skilyrði knattspyrnusambands Evrópu (UEFA) til að leika á þessum kvarða sem umspilsleikur fyrir riðlakeppni er. Það eitt og sér er umhugsunarefni og tilefni til að velta vöngum yfir í hvers konar hörmungum Íslendingar eru í þegar kemur að uppbyggingu knattspyrnuleikvanga. Um það verður fjallað nánar síðar. 

Strákarnir eiga mjög erfiðan leik fyrir höndum í Ohrid í Makedóníu á fimmtudaginn. Margir verða límdir við skjáinn. Við Omran ætlum að horfa á hann saman og fá okkur tyrkneskt kaffi. 

Blikar.is senda strákunum og Óskari hlýjar stuðningskveðjur – og óskum þeim góðrar ferðar á Balkanskagann.  

HG 

Til baka