BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

„Aldeilis fínt“

24.09.2020 image

„Norðanáttin er nöpur,“ orti Megas fyrir margt löngu og bætti við: „hún næðir um veröldina alla / innan jafnt sem utan / og ekkert sést til fjalla.“ Það má vissulega til sanns vegar færa að þannig hafi staðan verið þegar Blikar tóku á móti Stjörnunni í Smáranum fimmtudaginn 24. september – nema hvað skyggnið var gott í upphafi leiks. Eftir sólríkan dag var þó degi tekið að halla, kvöldsólin lágt á lofti og hausthljóð komið í vindinn og stutt í að færi að dimma þarna rétt austan megin við staðinn þar sem Kópavogsþing var haldið forðum (elstu ummerki um mannaferðir þar eru frá 9. öld).

Lið okkar manna var örlítið breytt frá óförunum gegn KR á dögunum, Höskuldur á bekknum, sem og Viktor Örn. Í þeirra stað voru mættir Damir og Oliver. Að öðru leyti var liðið þannig skipað:

image

„Verið þolinmóðir!“

„Spilið þið nú fótbolta,“ heyrði ég sagt fyrir aftan mig. Þar sátu tvær gamlar Blika-kempur og voru sammála um að það mætti alveg spyrna langt í útsparki annað slagið. Það þyrfti ekki alltaf að skapa þessa stórhættu við eigið mark. Og litlu síðar bætti sami kappi við: „Strákar, þetta er ekki fótbolti,“ eftir að Blikar höfðu nokkrum sinnum á fyrstu mínútunum reynt að senda stungubolta inn fyrir varnarmúr Stjörnumanna. Já, múr er rétta orðið því að í öftustu línu voru fjórir fílefldir og þar rétt fyrir framan fimm engu rýrari. Einn hékk síðan við miðlínuna og vonaði það besta. Það var eins og gestirnir væru komnir til að hanga á stiginu sem þeim var gefið í vöggugjöf í upphafi leiks.

„Verið þolinmóðir!“ hrópaði Óskar Hrafn til sinna manna eftir 11 mínútur. Litlu síðar urðu Stjörnumönnum á mistök, sendu knöttinn beint í fæturna á Mikkelsen fyrir utan eigin vítateig en hann skaut heldur laust á markið. Aftur þrumaði hann að marki á 21. mínútu en nú framhjá.

Gegn gangi leiksins

Þetta var svolítið eins og að horfa á handboltaleik – nema hvað það var bara annað liðið í sókn. Mér datt í hug að benda Blikum á að taka Kaíró hægri, júgga, eða hvað þessi kerfi nú öll heita sem maður heyrir Guðmund Guðmundsson segja landsliðinu að taka á stórmótum en sat á mér. Mikkelsen skallaði að marki, Brynjólfur skaut yfir og svo var varið frá honum. Leikurinn var sem sagt í höndum okkar manna og lítið að frétta hjá gestunum.

Nema hvað, eins og oft er sagt þegar kemur að vendipunkti í góðri sögu. Allt í einu var hvítklæddur maður einn á auðum sjó, mitt á milli vítateigs og miðju á okkar vallarhelmingi og þrumaði boltanum í markið.

Oft hefur manni fundist lið skora þvert gegn gangi leiks. Sjaldan eins og núna. Ég fann að síminn titraði í vasanum og sá að góður vinur minn í Garðabæ, sem hafði lýst miklum áhyggjum af sínum mönnum í símtali í hádeginu, var með kurteisleg skilaboð: „Skrifaðir þú þetta ekki örugglega niður??“

Mörkin úr leiknum:

„Lifnað yfir þér núna“

Ég ákvað að svara þessu ekki, enda störfum hlaðinn sem tíðindamaður hins virta miðils blikar.is. Það var líka ýmislegt á seyði inni á vellinum sem krafðist fullrar athygli. Gísli missti boltann en hljóp sem hamrammur á eftir Stjörnumanninum, tók knöttinn aftur af honum, rak hann listilega þvert yfir völlinn að hliðarlínu hinum megin, til baka í áttina að teignum, skaut í varnarmann, fékk boltann, skaut aftur en nú varði Haraldur Stjörnumarkmaður, Mikkelsen náði frákastinu en sendi boltann hátt yfir úr opnu færi.

Okkar menn voru með öðrum orðum ekki sáttir við að hafa lent undir. Þeim hljóp kapp í kinn. Þeir gyrtu sig í brók. Og þá gerðist það. Andri Rafn fór upp hægra megin, sendi fyrir, boltinn barst til Viktors Karls sem skoraði af öryggi. Ég gaf mér þá loks tíma til að svara SMS-i Garðbæingsins: Jú, ég hefði punktað hjá mér mark gestanna. Það stóð ekki á svari handan Arnarneshæðarinnar: „Lifnað yfir þér núna.“

image

Viktor Karl að spila 50. mótsleikinn með Breiðabliki. Hann skorað fyrra mark Blika og var auk þess valinn Bliki leiksins.

„Nauðvörn“

Aftur var ég of önnum kafinn til að svara, því að nú var Andri Rafn sparkaður fólskulega niður úti á velli og lá óvígur eftir um stund. Kempurnar fyrir aftan mig og ungliðahreyfingin til hliðar voru sammála um að brotið hefði verskuldað rautt spjald en dómarinn lét gult nægja.

Upp úr því heyrðist í öðrum öldungnum: „Það er bara nauðvörn hjá þeim,“ og átti við gestina. Skömmu síðar skaut Viktor Karl aftur á markið en það var varið.

Í hálfleik var bjart yfir mönnum. Það voru allir á því að sigurinn væri vís, Stjarnan sýndi lítið og okkar menn yfirspiluðu þá. Þetta gæti ekki farið illa.

„Ekkert helv víti.“

Höskuldur kom inn á í stað Andra Rafns í hléinu. Og nú réðu okkar menn lögum og lofum. Oliver átti þrumuskot að marki strax á upphafsmínútunni. Litlu síðar heyrðist annar gamli þulurinn segja: „Liðið sem skorar næsta mark vinnur leikinn.“ Eftir nokkrar mínútur sagði félagi hans bjartsýnn: „Það er bara eitt lið á vellinum.“ Hinn svaraði að bragði: „Svo fáum við á okkur mark.“

En áfram héldu okkar menn. Oliver átti annað hörkuskot en það var varið í horn. Mótlætið var eitthvað farið að fara í Garðbæingana eins og sást glöggt þegar Mikkelsen var bókstaflega hent í gervigrasið úti við hornfána en virtist ekki bera varanlegan skaða af. Davíð átti skot að marki. Stjarnan komst varla í boltann.

Nema hvað.

Brynjólfur fékk sendingu við vítateiginn, sneri sér ógnarhratt og lagði einbeittur af stað í átt að marki. Í sömu svifum var hann sparkaður niður og dómarinn benti réttilega á punktinn. Aftur titraði síminn í vasanum: „Þetta var ekkert helv víti.“ Þó er Garðbæingurinn almennt orðvar maður. Mikkelsen brást ekki bogalistin og boltinn söng í netinu.

Skipt yfir í handboltavörn

Áfram réðu okkar menn lögum og lofum og héldu Stjörnumönnum föstum í sínum skotgröfum. Fjórir í aftari röð. Fimm í fremri. Einn í sníkjunni. Að vísu hef ég punktað hjá mér þau stórtíðindi á 67. mínútu að Stjarnan hafi farið yfir miðju. Það varaði ekki lengi því að þremur mínútum síðar var Mikkelsen tekinn fangbrögðum við teig andstæðinganna eins og Stjarnan hefði bókstaflega skipt yfir í handboltavörn. Vissulega var dæmd aukaspyrna en ekkert spjald gefið. Kannski hefði verið sanngjarnt að reka manninn út af í tvær mínútur. Litlu síðar hef ég nóterað hjá mér: Damir með stórleik í vörninni! (Svona á að bregðast við því að vera settur á bekkinn).

Tíminn leið. Það skapaðist lítil hætta við mark okkar manna og á 80. mínútu heyrði ég fyrir aftan mig: „Alveg grenjandi sókn.“ Í því átti Höskuldur stórhættulega fyrirgjöf og mátti engu muna að Stjörnumaður skoraði glæsilegt sjálfsmark en boltinn fór rétt yfir. Upp úr horninu átti einn okkar manna skemmtilega bakfallsspyrnu en naumlega yfir.

„Betra liðið vann“

Á 85. mínútu kom Alexander inn á fyrir Viktor sem hafði verið eins og stökkmús á sterum á miðjunni – algjörlega óþreytandi. Stjarnan reyndi af veikum mætti að jafna en skapaði sér engin færi. Okkar menn voru alltaf hættulegir og hefði verið við hæfi að Elfar Freyr kórónaði góðan leik sinn með því að komast einn inn fyrir vörn gestanna í skyndisókn á lokasekúndunum en var dæmdur rangstæður.

Þegar lokaflautið gall gerðist tvennt. Önnur af gömlu Blika-kempunum sagði: „Þetta var aldeilis fínt“ og síminn titraði í vasanum: „Ósáttur ... en betra liðið vann.“

Gálgaklettur

Ég held að þetta dragi nokkurn veginn saman niðurstöðu kvöldsins. Og þó að norðanáttin væri enn býsna nöpur yljuðu Blikar okkur í stúkunni með leik sínum svo enginn fór kaldur og hrakinn heim. Nema kannski Silfurskeiðin.

Í Garðabæ eru ýmsir sögustaðir, flestir reyndar í vesturhluta bæjarins. Þeirra merkastur er líklega Gálgaklettur sem Gálgahraun dregur nafn sitt af. Frægð sína á kletturinn að þakka Kópavogi. Þetta er hár, klofinn hraundrangur þar sem sakamenn voru hengdir og dysjaðir eftir að hafa verið dæmdir á þinginu hinum megin við Arnarneshæðina en það var eins og fyrr segir haldið rétt vestan við Kópavogsvöll. (Síðast var maður hengdur þarna árið 2018 – að vísu í glæpasögunni Gatinu eftir Yrsu Sigurðardóttur.) En það er kannski við hæfi að Kópavogspiltar hafi kveðið upp dóm yfir Garðbæingum norðan megin við hæðina – þó að refsingin verði kannski ekki jafn afdrifarík og forðum daga.

image

Næsti leikur Blika er við Val á Hlíðarenda á sunnudaginn. Eftir frammistöðu okkar manna á móti Stjörnunni er full ástæða til bjartsýni um hagstæð úrslit.

PMÓ

Netmiðlar

Til baka