Bara 300 kílómetrum frá Varsjá
22.07.2025


Á meðal minna kærustu vinnufélaga eru pólskar systur. Sú eldri er í verkeftirliti. Sú yngri byrjaði í skúringum og er núna að læra málmiðn. Hún tekur ekki sumarfrí að ráði með stráknum sínum nú í sumar af því hún þarf að eiga inni daga í vetur til að taka lokapróf á íslensku. Pólska fótboltaliðið Lech Poznań tók sér líka lítið sumarfrí í kvöld.
Það var ágætlega Evrópureynt lið sem við stilltum upp í Poznań í kvöld. Í þessu byrjunarliði voru samtals um 180 Evrópuleikir í bakpokanum. Það leit svona út:

Þó við Blikar eigum ekki langa sögu meðal íslenskra liða í Evrópukeppni er hún ein hin farsælasta. Þessi Poznan klúbbur á sér þó talsvert meiri árangur að baki og var bara í hitteðfyrra í áttaliðaúrslitum Sambandsdeildarinnar á móti Fiorentina. Það eru ekki margir uppaldir strákar hjá þeim heldur fagurlega fjölþjóðlegur söfnuður. Poznań tefldi meira að segja fram Breiðabliksstrák – honum Gísla Gottskálk – strax fyrir hálfleik.
Leikurinn var ekki roskinn þegar 24.560 velhvetjandi pólskir áhorfendur (alls 24.589 og kannski 27 Blikar) fengu svar síns liðs við hvatningarhrópum. Það var fagurlega samsett dagskrá af ítölskum alþýðusöngvum, einhver hverjir-eru-bestir-í-náranum líkur söngur, eitthvað eins og finnskur öskurkór að hita upp fyrir konsert og svo eitthvað sem virtist vera samræmt tugþúsunda manna ávarp forstöðumanns Vinnuskólans yfir sumarhópum í Hlíðargarði. Svo var þarna forsöngvari magnaður upp með Marshall aðstoð. Þó ekki eins og þeirri sem (fjár)magnaði Áburðarverksmiðjuna í Gufunesi enda Pólland í Varsjárbandalaginu á þeim tíma. Þarna virtust fremur vera nokkur fjöldi Marshall gítarmagnara til desibelaauka.
Semsagt: 1-0 á fjórðu mínútu. Eftir 22 mínútur höfðu þeir pólsku verið 70% með boltann og Anton Ari varði úr dauðafæri. Við vorum samt alveg að spila og Valgeir var hvass framávið eins og svo oft þegar hann nánast sótti víti á Poznań sem Höggi skilaði af öryggi í netið. 1-1 og von í brjóstum.

Þrátt fyrir nokkra Evrópureynslu í hópnum þá er sú ágæta borg Poznań bara 300 kílómetrum frá Varsjá og þá mega menn búast við að dæmt sé á sumt sem séð er í gegnum fingur sér með í 3.000 kílómetra fjarlægð frá borginni.
Að tíunda framhaldið lið fyrir lið er ekki á nokkurn Blika leggjandi. Birtum bara mynd.

Hér er svo önnur, en þarna unnu Blikar stærsta sigur íslensks félagsliðs í Meistaradeild Evrópukeppnanna, hingað til.

Seinni leikur Breiðabliks og hinn er eftir rúma viku, miðvikudaginn 30. júlí á Kópavogsvelli kl. 18:30. Rúmlega brekka framundan, meira svona slútandi helvítis hamar. Hvernig sem sá leikur fer tekur þó við meiri Evrópubolti með þéttum takti næstu vikurnar.
Í millitíðinni er deildarleikur og það í hverfinu hérna hjá mér, í röngum Vesturbæ. KR-ingarnir hans Óskars Hrafns ætla að færa sig úr póstnúmeri 104, þar sem þeir hafa spilað alla heimaleiki hingað til í sumar, og yfir á nýjan gerfigrasvöll, umluktan Kaplaskjólsvegi, Frostaskjóli og Meistaravöllum.
Það er á laugardag klukkan 17 og eins gott að við verðum búnir að taka smá Jóga nídra og hreinsa hugann áður en að því kemur.
Eiríkur Hjálmarsson