BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Baráttusigur gegn Val

26.05.2023 image

Blikar mættu Valsmönnum í kvöld í 13.umferð Bestu deildarinnar. Þessi leikur færður til í tímavíddinni vegna komandi leikja i Evrópukeppni. Þokkalegt veður í stúkunni en niðri á vellinum blés hann allhressilega af suðvestri, alskýjað þurrt og hiti um 7°C. Eftir skítviðrið undanfarið voru þessar 7 gráður langleiðin í að vera notalegar. Uppgefin áhorfendatala 1132 sem minnir á að í maí það ár var Sigmundur konungur af Búrgundalandi tekinn af lífi í Orléans, Guðmar bróðir hans settist í hásætið. Sannaðist þar hið fornkveðna að þegar til kastanna kemur er enginn annars bróðir í leik. Stemningin var bara all góð hjá heimamönnum sem er framför, en heldur dauflegt lengst af í norðurendanum hjá gestunum, eins og í Dritvík forðum daga og skáldið kvað um.

Liðsskipan okkar manna í kvöld var sem hér segir;

image

Okkar menn byrjuðu með látum og eftir rúmar 20 sekúndur lá boltinn í markinu hjá gestunum eftir gott spil. Viktor Karl batt endahnútinn og boltinn í samskeytin fjær, óverjandi fyrir markvörð gestanna en því miður var Viktor dæmdur rangstæður og markið því ekki gilt. Þetta var sennilega réttur dómur. Stuttu síðar náðu Blikar aftur góðu spili og aftur skaut Viktor Karl, en nú hitti hann ekki markið. Næstu mínúturnar hljóp smám saman talsverð harka og pirringur í leikmenn verður að segjast og skrifast á reikning dómarans sem óumbeðinn tók að sér aðalhlutverkið í leiknum og flautaði ótt og títt í flautuna af minnsta tilefni, og lítið samræmi hjá honum. Bitnaði svo sem jafnt á liðunum en þetta varð til þess að leikurinn komst aldrei almennilega í gang og hvorugt lið fann almennilegan takt. Leikurinn því alveg harðlokaður á löngum köflum og færin teljandi á fingrum annarar handar. Valsmenn fengu sitt besta og eina færi í lok hálfleiksins en Anton Ari sá við þeim og bjargaði vel. Í annað sinn voru gestirnir næstum búnir að gera sér mat úr slakri sendingu frá Antoni, en bara næstum því. Blikar komust nokkrum sinnum í góðar stöður en sendingar voru slakar og ómarkvissar á síðasta þriðjungi og því urðu færin ekki mörg. Sennilega munaði minnstu þegar okkar gamli félagi Elfar Freyr komst á síðustu stundu fyrir skot Höskuldar úr miðjum vítateignum. Þar munaði litlu. Staðan því markalaus í hálfleik.

Hálfleikskaffið með allra besta móti og margt skrafað um leikinn. Dómgæslan ekki góð eins og fyrr sagði en við máttum líka gera betur. Okkar menn ekki alveg í gírnum en vörnin þétt og góð barátta um allan völl. Vantaði aðeins meiri yfirvegun og gæði í sóknarleikinn. Leikurinn að byrja, koma kaffimálinu í rétta tunnu, þakka fyrir sig og drífa sig í sætið.

Gestirnir byrjuðu með boltann en það voru okkar menn sem létu nú til sín taka. Andri Yeoman kom boltanum á Höskuld af harðfylgi eftir að hafa verið togaður niður og Höskuldur sendi hann án frekari vafninga til hægri á Jason sem sendi baneitraðan bolta fyrir markið á milli varnarmanna og markvarðar, hvar einn leikmaður gestanna renndi sér á boltann sem hrökk fyrir fætur Stefáns Inga sem lagði hann með hægri vinstri í stöng og inn. 1-0 fyrir Blika og þakið bókstaflega rifnaði af stúkunni, næstum því.

Blikar fögnuðu ógurlega en Valsmenn alveg slegnir útaf laginu. Næstu mínútur var leikurinn í jafnvægi en okkar menn heldur með undirtökin. Gestirnir settu tvo framherja inná og skömmu síðar kom Alexander Helgi inn fyrir Arnór. Arnór geysiöflugur í kvöld eins og vörnin öll. Blikar náðu nú nokkrum upphlaupum þar sem ,,aðeins“ vantaði herslumun til að klára með marki og loka leiknum en það hafðist ekki. Enn skiptu Blikar og nú kom Ágúst Eðvald inn fyrir Jason og áfram hélt þetta án þess að liðin næðu að skapa sér afgerandi færi. Enn sama ruglið í dómgæslunni og minnstu munaði að höfuðið væri sparkað af Ágústi en  ekkert dæmt! Stefán Ingi lenti illa á bakinu eftir loftbardaga og þurfti að lokum að yfirgefa völlinn og Klæmint kom í hans stað. Hann var hinsvegar kominn með gult spjald eftir mínútu fyrir næsta litlar sakir. Stórfurðulegt. Skömmu síðar vildu Blikar fá víti þegar brotið var á Viktori Karli en dómarinn lét það óátalið. Í sjónvarpi sést að varnarmaður steig beint oná rist Viktori og því var þetta ekkert annað en víti. Nú kom Patrick Pedersen inná fyrir gestina og hafi maður verið orðinn taugaveiklaður þá skánaði það lítið þegar þessi markamaskína kom inná. Svo oft hefur hann gert okkur skráveifu í gegnum tíðina. Uppbótartíminn var 7 mínútur uppgefinn og hann var æsispennandi. Damir næstum búin að skora í eigið mark en bjargaði sjálfur á síðustu stundu. Patrick næstum búinn að koma tánni boltann á markteig en Anton var sjónarmun á undan og handsamaði boltann. Og þrátt fyrir ákafar tilraunir gestanna til að brjóta okkar menn á bak aftur síðustu mínúturnar þá náðu þeir ekki að skapa sér nein færi að ráði og Blikar hirtu því stigin 3, verðskuldað.

Þetta var skrýtinn leikur að mörgu leyti, lítið um færi og fátt sem gladdi augað þannig séð, enda sífellt verið að flauta og stoppa leikinn. Það gerir hins vegar sigurinn ekkert síðri, þvert á móti. Þetta var erfiður leikur og okkar menn börðust vel, gáfu ekki tommu og voru greinileg tilbúnir í slaginn. Og þeir náðu þessu eina marki sem dugði. Það var aðalatriðið. Og svo er alltaf gott að halda hreinu, alveg dásamlegt reyndar. Blikar hafa nú unnið síðustu 6 leiki í deildinni og sjö leiki alls og eru komnir með 21 stig.

Næsti leikur er strax á mánudaginn í Keflavík gegn heimamönnum. Þann leik verðum við að vinna til að missa ekki efsta liðið of langt frá okkur. Þannig er það nú bara. Kelfvíkingar eru sýnd veiði en við höfum oftar en ekki komist í hann krappan þar undanfarin ár.

Fjölmennum til Keflavíkur og styðjum strákana á mánudaginn!

Áfram Breiðablik !
OWK

image

Til baka