BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Baráttusigur í Boganum

06.03.2022 image

Blikar unnu 1:2 sigur á Þórsurum í Lengjubikarnum á Akureyri í dag. Blikar hafa oft spilað betur en sem betur fer dugði það samt til sigurs. Þar með stefnir í hörkuúrslitaleik gegn Stjörnunni á fimmtudaginn á Stjörnuvellinum. Þar höfum við tækifæri til að hefna fyrir tapið í úrslitum á Fotbolta.net mótinu fyrr á þessu ári.

Byrjunarliðið og bekkur:

image

Fyrri hálfleikur einkenndist af stöðubaráttu en við máttum alveg þakka fyrir að vera yfir í leikhléi. Þrátt fyrir að hafa verið meira með boltann þá náðum við ekki mikið að ógna marki norðanmanna.  Mark okkar setti Sölvi Snær Guðbjargarson á 34. mínútu eftir klafs í vörn heimapilta. Sölvi Snær skoraði þar með í öðrum leik sínum í röð og eru það góðar fréttir.

Heimamenn byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti en smám saman komust við meira inn í leikinn. Eftir ágæta sókn upp vinsti kantinn átti Sölvi Snær góða sendingu fyrir markið. Tilvonandi atvinnumaður, Ásgeir Galdur sem hafði komið inn á sem varamaður eftir leikhlé, rétt missti af knettinum. Þórsarar ákváðu hins vegar að bæta honum það upp og lögðu knöttinn snyrtilega fyrir þennan kraftmikla unga framherja. Ásgeir sagði að sjálfsögðu ekki nei og smellti tuðrunni í netið af miklu öryggi. Heimapiltar gáfust hins vegar ekki upp og snéru á okkar drengi. Fljótlega skoruðu Þórsarar og áttu í raun meira í leiknum það sem eftir lifði leiks. En fleiri urðu mörkin ekki og við því í fínni stöðu fyrir Stjörnuleikinn á fimmtudaginn.

Við verðum hins vegar að vera beittari gegn bláklæddum Garðbæingum en í þessum leik. Ferðalagið norður gekk ekki samkvæmt áætlun. Flugvél Icelandair sem átti að fara frá Reykjavík klukkan 12:40 fór ekki í loftið fyrr en klukkan 14:37. Fresta þurfi leiknum um 30 mín vegna þessa. Einnig vantaði sterka pósta í Blikaliðiðið, eins og Kidda Steindórs, Viktor Karl og Gísla Eyjólfs, en það breytir því ekki að við getum gert betur.

Ekki á hverjum degi sem barátta okkar manna er skilar fimm gulum spjöldum. Ef við túlkum þetta jákvætt má segja að baráttuandinn hafi verði upp á tíu og jafnvel rúmlega það. En munum að kapp er oft best með forsjá.

Við tökum þessi þrjú stig með fegins hendi og það er jákvætt að landa sigri í leikjum sem við eigum í strögli með að vinna.

Það verður gaman að sjá Stjörnuleikinn og við erum þess fullviss að þá munum við sjá Blikaspilamennsku af bestu gerð.

-AP

Til baka