BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deildin 2022: Breiðablik - FH

27.04.2022 image

Grafík: Halldór Halldórsson

Í pistli dagsins ...

Annar heimaleikur okkar manna í Bestu karla 2022 > Fáum FH-inga í heimsók > Miðasala á Stubbur > Sagan: 116 leikir >  Gamli leikurinn: Breiðablik - FH 2007 > Blikahópurinn 2022  > Deddi litli markmaður er SpáBliki 3. umferðar > BlikaLjósið > Dagskráin > Kópacabana sveitin mætir  > Hleragrill í anda Tailgate í USA > Gefðu kost á þér í liðið!

Breiðablik - FH

Næsti leikur okkar manna í Bestu 2022 er gegn FH.

Flautað verður til leiks á Kópavogsvelli kl.19:15!

Miðasala á Stubbur app: Stubbur

Leikurinn verður sýndir á Stöð 2 Sport 4 fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Staða liða eftir 2 umferiðir - aftur ræður stafróið röðun tveggja efstu liða 😊

image

Sagan

Innbyrðis leikir Breiðabliks og FH í öllum mótum eru 116 leikir. FH-ingar leiða þar með 52 sigra gegn 42. Jafnteflin eru 22.

Deildaleikir (A+B deild) eru 68. Blikar leiða þar með 30 sigra gegn 25. Jafnteflin eru 13.

Innbyrðis leikir liðanna í efstu deild eru 54. Staðan þar er nánast jöfn. Blikar leiða með 22 sigra gegn 21 og jafnteflin eru 11. 

Síðustu 5 leikir á Kópavogsvelli: 

Gamli leikurinn

Það var alls ekki auðvelt að velja Gamla leikinn að þessu sinni. Af nógu er að taka og valkvíðinn alveg að fara með tíðindamann síðunnar sem brá þá á það ráð spyrja sér reyndari, og töluvert eldri mann, ráða. Sá er stærðfræðimenntaður með mikla reynslu. Hann misskildi spurningna eitthvað og svaraði gallharður „Breiðablik vinnur“, Breiðablik vinnur 4:1“. Aðspurður hvort 4:1 úrslit beggja meistarflokka í fyrstu umferð Bestu 2022 séu að lita svarið „Nei, en það hjálpar – 4:1 er málið!“. Svo var hann rokinn í golf.

En hann hafði rétt fyrir sér með 4:1 úrslit því þegar gluggað er í söguna kemur í ljós að í alls 12 innbyrðis leikjum liðanna í efstu deild skorar sigurliðið 4 mörk.

Blikar leiða þetta tölfræði með 8 sigra gegn 4 sigrum FH – þar af eru 3 heimasigrar Blika 4:1 sigrar.

Leikir sem 4 mörk tryggja sigur 1978 - 2021:

1978     0:4 FH

1980     4:0 Blikar

1994     3:4 FH

1995     2:4 Blikar

2007     4:3 Blikar

2008     4:1 Blikar

2011     4:1 FH

2014     2:4 FH

2018     4:1 Blikar

2019     2:4 Blikar

2019     4:1 Blikar

2021     4:0 Blikar

Önnur athyglisverð pæling er að Ólafur H. Kristjánsson, núverandi yfirmaður knattspyrnumála hjá Breiðabliki, er þjálfari í 7 af þessum 12 leikjum liðanna: 4 sinnum hjá FH og 3 sinnum hjá Blikum.

En að þessu sögðu er það 4:3 heimasigur Blika árið 2007 sem varð fyrir vali sem Gamli leikurinn. Þetta var ótrúlegur leikur. Maggi Palli með 2 mörk. Casper markvörður og Tryggvi Guðmunds með senu. Blikar komast í 4:1 en FH nær að klóra í bakkann og skorar 2 mörk undir lokin. Óli Jó þjálfari FH þá og nú. Og Óli Kristjáns aftur í starfi hjá Breiðabliki en nú sem yfirmaður knattspyrnumála.

16.09 15:59
2007
Breiðablik
FH
4:3
1
2
A-deild | 16. umferð
Kópavogsvöllur | #

Og það eru önnur nöfn þarna 2007 sem eru enn að spila, þjálfa eða vinna í kringum fótboltann: Arnar Grétarsson nú þjálfari KA, spilaði allan leikinn, Arnar Bergmann Gunnlaugsson þjálfari Vík R, kom inná leiknum og skoraði 1 marka FH, Arnór Sveinn Aðalsteinsson, spilaði allan leikinn og er enn að en nú með KR, Guðmundur Kristjánsson, spilaði allan leikinn og er enn að en nú með FH, Kristinn Steindórsson, kom inn á hjá Blikum í leiknum, Finnur Orri Margeirsson, var ónotaður varamaður Blika í leiknum, Kristinn Jónsson, ónotaður varamaður, Guðmann Þórisson, spilaði allan leikinn og Kristján Óli Sigurðsson, kom inn á í leiknum.

En sjón er sögu ríkari (klippur&mörk):

Blikahópurinn 2022

Leikmannahópur Breiðabliks keppnistímabilið 2022 (sjá/smella á mynd).

Í liði gestanna eru þrír fyrrverandi leikmenn Blika. Finnur Orri Margeirsson söðlaði um fyrr á þessu ári og gekk til liðs við FH. Sama gerði Ólafur Guðmundsson í júlí glugganum 2021. Guðmundur Kristjánsson lék síðast með Breiðabliki árið 2012 en fór svo til Start í Noregi og var þar í nokkur ár. Hann fór svo til FH þegar hann snéri heim árið 2018.

Í okkar liði er það Kristinn Steindórsson sem á leiki með FH liðinu. Og Davíð Ingvarsson spilaði með yngri flokkum FH frá 2011 til 2014. 

Óskar Hrafn Þorvaldsson er aðalþjálfari meistaraflokks karla. Óskar hefur stýrt liðinu frá árinu 2019. Halldór Árnason er aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla frá 2019. Ólafur Pétursson er markmannsþjálfari liðsins. Ólafur hefur starfað sem markmannsþjálfari hjá Breiðabliki frá árinu 2005. Aron Már Björnsson er styrktarþjálfari liðsins síðan 2016. Aron er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Í sjúkraþjálfarateyminu eru þær Særún Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Og Marinó Önundarson og Alex Tristan Gunnþórsson eru liðsstjórar meistaraflokks karla

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki 3.umferðar er ekki Kópavogsbúi, fæddur í Reykjavík, alinn upp í námunda við Borgarholtið og hefur verið Bliki frá fyrsta degi. Hann er ennþá Bliki í húð og hár en hefur aldrei viljað vera kenndur við Kópavog. Hann var lengi vel kallaður Deddi litli markmaður. Hann leit alltaf á íþróttir sem félagsskap og leik þar sem lausnin var fólgin í að ná markmiðum í gegnum samstöðu. Leikurinn var í hans huga samvinna. Deddi litli hafði aldrei keppnisskap eða inngróinn sigurvilja. Markmaðurinn var hlekkur í keðju og keðjan var jafn sterk og veikasti hlekkurinn. Deddi litli fann að með stuðningi, hvatningu og hrósi mátti styrkja alla hlekki. Deddi litli var bara góður í marki og hann leit á sitt framlag sem hluta af samvinnunni – leið til að styrkja heildina.

Hann hefur einnig verið kallaður Hreinsmögur, Skerjafjarðarskáldið og svo er hann skáldið og heimspekingurinn Kristján Hreinsson, sem býr í Mílanó og fylgist þaðan með sínum mönnum.

Kristján Hreinsson – Hvernig fer leikurinn?

Deddi litli markmaður ætlaði aldrei að verða fótboltakappi, hann átti enga drauma um atvinnumennsku í íþróttinni. Deddi litli ætlaði alltaf að verða skáld. Fótboltinn var bara leið til að eignast vini og fá klapp á bakið. Skemmtunin við að horfa á fótbolta fólst ekki í leiknum sjálfum, heldur var það samveran sem skipti máli. Deddi litli skildi aldrei rembinginn og þjóðarstoltið sem fyllti menn á landsleikjum. Hann lærði aldrei þá íþrótt að vera íslensk þjóðremba.

Á Vallargerðisvelli var oft glatt á hjalla. Deddi litli sá hvorki ástæðu til að fagna sigri né heldur að grenja yfir tapi. Það sem taldi mest var samhugurinn. Í samheldninni birtust hetjur sem voru píparar, múrarar, rafvirkjar, háskólanemar eða eitthvað annað. Þessir menn áttu það sameiginlegt að hver og einn átti glæsilega konu, flestir áttu þeir börn, sumir reyktu og sumir drukku brennivín. Allir klæddust þeir grænni treyju og þeir hlupu um stórgrýttan malarvöllinn á eftir bolta.

Eftir tap eða sigur fóru þeir að vinna í Málningu, í Ora, í blikksmiðjunni, óku leigubíl eða gerðu eitthvað annað. Þessir menn voru hetjur – fyrst og fremst vegna þess að þeir voru venjulegt fólk sem naut þess að vera til. Þeir voru fyrirmyndir því í samheldni þeirra birtist lífsviljinn sem Deddi skynjaði og mennskan sem hann ætlaði að varðveita.

Skemmtilegast hefur alltaf verið að sigra í leikjum gegn KR, Val, Skagamönnum og svo FH. Hér er ekki ætlunin að rifja upp ósigra. Enda gleymast þeir einsog slæmir dagar. Sigrarnir telja, það eru þeir sem gefa stig. Bjartsýni er allt sem þarf og það er aldrei ástæða til neins annars en hreinnar bjartsýni þegar Blikar eru á ferð. Leikurinn fer 3 – 1 fyrir Blika. Engu að síður spái ég jöfnum og spennandi leik. Reyndar spái ég Blikum ávallt sigri, ef út í það er farið og margur getur því haldið að ekkert sé að marka spádóma mína. En mark er á þeim takandi því ég er oftar en ekki sannspár.

Blikar hafa byrjað af krafti, þeir eru með magnað lið þar sem sóknin er sett á oddinn, þeir munu fara á toppinn í ár. FH átti í mesta basli með lélegt lið Fram. Sanngjörn útslit eru líklega alltaf teygjanleg pæling. Engu að síður eru sanngjörn úrslit þessa leiks 3 – 1 fyrir Blika.

image

Kristján Hreinsson er SpáBliki 3.umferðar

BlikaLjósið

"BlikaLjós leiksins" Umsjón: Aron Páll Gylfason.

Anton Ari var eins og köttur í markinu gegn KR í Frostaskjólinu!

Mun hann halda áfram frábæru gengi gegn þeim hvítu á heimavelli í Kópavoginum?

FH-ingar verða án Kristins Freys en mun þeim takast að koma boltanum framhjá markverðinum knáa á sunnudaginn þegar Blikar mæta FH í Kópavoginum?

Við munum fylgjast grannt með Antoni á milli stanganna og vonum að hann haldi áfram frábæru gengi.

image

Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson

Dagskrá

Græna stofan opin, börger á grilli, rjúkandi kaffi og góðmeti í sjoppunni. 

Sparkvellir verða á sínum stað fyrir krakkana.

Hoppukastalar milli kl.17-19.

Hleragrill! (Tailgate í anda USA). Skráning hér. 

Miðasala á Stubbur app: Stubbur

Flautað verður til leiks kl.19:15!

Leikurinn verður sýndir á Stöð 2 Sport 4 fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Kópacabana menn mæta fylktu liði á leikinn og ætla að tendra bálköst í hjörtum leikmanna, eins og þeim einum er lagið, og fá stúkuna með í stemningunai!

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Klippur úr leik Breiðabliks og FH í Pepsi MAX 2021:

Upphitun fyrir leikinn!

Í anda Tailgate sem bandaríkjamenn hafa gert í fjölda ára fyrir leiki í ameríska fótboltanum þá hvetjum við Blika til að mæta í Smárann á sínum bíl. Opna hlerann og grilla, drekka, djúpsteikja, baka eða hvað svo sem þið viljið beint úr skottinu. Hækkum í gleðinni og búum til alvöru stemningu fyrir þennan risa leik á í móti FH í Bestu deildinni.

Takmarkað magn stæða í boði. 

Skráning með þinn bíl hér:

Gefðu kost á þér í liðið

Blikar.is er óháður stuðningsmannavefur meistaraflokka Breiðabliks og nú vantar okkur fleira fólk til að sjá um að skrifa efni og setja inn efni og miðla því á samfélagsmiðlum Blikar.is. 

Stuðningsmannavefurinn er mjög öflugur í allri fréttamiðlun á blikar.is vefnum og tengdum samfélagsmiðlum.

Ef þú hefur áhuga á og tíma til að gefa kost á þér í þetta lið, þá sendu okkur endilega línu á blikar@blikar.is

Miðlarnir okkar eru:

www.blikar.is

Blikar.is á Facebook 

Blikar_is á Twitter

Blikar_is á Instagram

Blikahornið á Soundcloud

Nánar um Blikar.is

image

Til baka