Besta Deildin 2022: Breiðablik - Fram
17.05.2022Grafík: Halldór Halldórsson
Í pistli dagsins ...
Sjöundi leikur okkar manna í Bestu karla 2022 > Blikar eru taplausir á toppnum > Fáum Framara í heimsókn á Kópavogsvöll > Miðasala á Stubbur > Sagan: 69 mótsleikir > Gamli leikurinn: Breiðablik - Fram 1971 > Blikahópurinn 2022 > BlikaLjósið í umsjón Arons Páls Gylfasonar > Páll Þór Ármann er SpáBliki leiksins > Dagskráin fyrir leik > Gefðu kost á þér í blikar.is liðið!
Breiðablik - Fram
Næsti leikur Blikamanna er við spræka Framara.
Flautað verður til leiks á Kópavogsvelli sunnudagskvöld kl.19:15!
Græna stofan opnar tímanlega, börger á grilli, rjúkandi kaffi og góðmeti í sjoppunni.
Sparkvellir verða á sínum stað fyrir krakkana.
Miðasala á Stubbur app: Stubbur
Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 BD 2 fyrir þá sem ekki eiga heimangengt.
Kópacabana menn mæta fylktu liði á leikinn og ætla að tendra bálköst í hjörtum leikmanna, eins og þeim einum er lagið, og fá stúkuna með í stuðið!
Staðan eftir 6 umferðir - Blikar enn taplausir á toppnum!
Sagan & Tölfræði
Keppnisleikir Breiðabliks og Fram í öllum mótum frá fyrsta leik árið 1961 eru 69 leikir. Framarar leiða þar með 33 sigra gegn 18 Blikasigrum. Jafnteflin eru 18.
Innbyrðis leikir liðanna í efstu deild, fyrst árið 1971, eru 52 leikir. Sagan þar er Fram í vil með 26 sigra gegn 16 sigrum Blika. Jafnteflin eru 10. Liðin skora samtals 139 mörk í 52 leikjum í efstu deild. Fram leiðir með 79 mörk gegn 60.
Síðasti mótsleikur liðanna var í Lengjubikarnum 2017. Þá vann Breiðablik 0:1 sigur í "heimsfrægum" leik. Hætta þurfti leik eftir 70 mín vegna veðurskilyrða en úrslitin stóðu. Nánar um þennan leik ásamt myndum og myndböndum sem fór víða meira>>>
Síðusu leikir gegn Fram í efstu deild á Kópavogsvelli eru frá árunum 2012-2014:
Gamli leikurinn
Gamli leikurinn að þessu sinni er fyrsti heimaleikur okkar mann gegn Fram í efstu deild.
Það er ágústmánuður árið 1971. Breiðablik, á fyrsta ári í efstu deild í sögu félagsins, eiga heimaleik við Fram á Melavellinum í Reykjavík 9. ágúst (Kópavogsvöllur kom ekki fyrr en 1975). Blikaliðið búið að spila ágætlega um sumarið en gengið bölvanlega að skora. Niðurstaðan aðeins 2 sigarar, gegn Val og KR, eftir 9 umferðir. Breiðablik, á botni deildarinnar, að taka á móti stórliði Fram í fyrsta sinn á „heimavelli“. Fyrri leik liðanna, á Laugardalsvelli í lok maí, lauk með 2:0 sigri Fram.
Ungt og léttleikandi lið Blika hóf leikinn af miklum krafti og skoruðu 2 mörk í fyrri hálfleik. Það fyrra skoraði Þór Hreiðarsson á 22. mín. Haraldur Erlendsson skoraði svo annað mark Breiðabliks á 37. mín. Þannig var staðan alveg fram undir lok leiks þegar gestirnir klóruðu í bakkann með marki Ágústar Guðmundssonar á 84. mín.
Þessi sigur lyfti Blikum af botni deildarinnar. Blikar gulltryggðu sér svo sætið í deildinni með fræknu 3:3 jafntefli við ÍA á Akranesi þremum vikum síðar.
Blöðin voru ekki að spara stóryrðin í skrifum um leikinn: Morgunblaðið: Neðsta liðið í 1. deild, Breiðablik, sigraði það efsta, Fram, þegar liðin léku síðari leik sinn í gærkvöldi. Vísir: Allt á suðumarki á Melavelli er Breiðablik vann. Tíminn: Það ómögulega gerðist. Morgunblaðið: Baráttuleikur botnliðsins braut Farm liðið niður. Alþýðublaðið: Mjög svo óvænt ... Þjóðviljinn: Harka og dugnaður gaf tvö stig.
Lið Breiðabliks var þannig skipað í leiknum: Ólafur Hákonarson, Steinþór Steinþórsson, Magnús Steinþórsson, Bjarni Bjarnason, Guðmundur Jónsson, Haraldur Erlendsson, Ólafur Friðriksson, Þór Hreiðarsson, Guðmundur Þórðarson, Einar Þórhallsson, Hinrik Þórhallsson, Ríkharð Jónasson.
Þór Hreiðarsson og Heiðar Breiðfjörð fagna sigri á Fram árið 1971, með sigrinum hélt liðið sæti sínu í efstu deild. Aðrir Blikar á mynd: Gísli Sigurðsson, Ólafur Hákonarson og fyrirliðinn Guðmundur H Jónsson.
Blikahópurinn 2022
Leikmannahópur Breiðabliks keppnistímabilið 2022 (smella á mynd).
Í leikmannahópi Fram eru tveir leikmenn sem hafa spilað með Breiðabliki.
Markvörðurinn Ólafur Íshólm Ólafsson kom til okkar frá Fylki árið 2017. Blikar lánuðu Ólaf til Fram 2019 og stóð hann sig mjög vel þar. Í framhaldinu gerði hann 2 ára samning við Framara.
Sóknarmaðurinn Þórir Guðjónsson gerði samning við Breiðablik í október 2018. Hann lék 16 leiki með Blikaliðinu 2019 og skoraði 4 mörk. Breiðablik og Fram komust að samkomulagi um vistaskipti Þóris fyrir keppnistímabilið 2020.
Óskar Hrafn Þorvaldsson er aðalþjálfari meistaraflokks karla hjá Breiðabliki. Óskar hefur stýrt liðinu frá árinu 2019. Halldór Árnason er aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla frá 2019. Ólafur Pétursson er markmannsþjálfari liðsins. Ólafur hefur starfað sem markmannsþjálfari hjá Breiðabliki frá árinu 2005. Aron Már Björnsson er styrktarþjálfari liðsins síðan 2016. Aron er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Í sjúkraþjálfarateyminu eru þær Særún Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Og Marinó Önundarson og Alex Tristan Gunnþórsson eru liðsstjórar meistaraflokks karla
BlikaLjósið
"BlikaLjós leiksins" Umsjón: Aron Páll Gylfason.
Gísli Eyjólfsson hefur ef til vill svolítið týnst í skugga Ísaks og Jasonar í byrjun tímabilsins. Ekki miskilja mig, Gísli er búinn að vera frábær það sem af er tímabils en ljós hans mun skína bjartast á sunnudaginn þegar Breiðablik mætir Fram á Kópavogsvelli. Glöggir muna ef til vill eftir "sláin inn" marki Gísla gegn Víkingum á síðasta tímabili.
Fylgist vel með Gísla á Sunnudaginn! Ég spái marki af 20 metrunum í fyrri hálfleik. Gísli tekur svo sprettinn í átt að bekknum þar sem hann gefur Óskari gamla góða "fist bump-ið".
Gísli Eyjólfsson á flugi í leik gegn Stjörnunni á Kópavogsvelli 2022 / Mynd: HVH
Stuðningsmaðurinn
SpáBliki 7. umferðar er fæddur 1962 og flutti í Kópavoginn árið 1971, nánar tiltekið í vesturbæ Kópavogs. Hægt og rólega gerðist maður Bliki þó svo að sjálfur hafi ég ekki æft fótbolta. Rifja upp reyndar að ég mætti á nokkrar handboltaæfingar með Alla Jóns en þótti betri á öðrum sviðum en íþróttum á þessum árum. Maður fylltist þó alltaf stolti því meira og minna öll unglingalandslið í fótbolta voru skipuð unglingum frá Breiðablik enda áttum við endalaust af efnilegum knattspyrnumönnum á þessum árum og er það þannig enn í dag. Tók reyndar nokkrar æfingar með Augnablik en mikið helv… er langt síðan. Ég fór í framhaldsnám í háskóla til Kaupmannahafnar og bjó síðan á Akureyri í um 7 ár. Þar tók ég þátt í starfi handknattleiksdeildar Þórs Akureyri, en ekki hvað…liggur í nafninu.
Hef komið að nokkrum stjórnarstörfum fyrir félagið en nokkuð er langt síðan og það fennir í þær minningar hægt og rólega en þetta var fyrir aldamótin. Það var Ásgeir Friðgeirsson sem þá var formaður aðalstjórnar sem fékk mig í aðalstjórn á þeim tíma. Þar áður var elsta dóttir mín að æfa skíði með Breiðablik og þá starfaði ég í skíðadeildinni í nokkur ár. Ánægjulegur tími þarna. Ég rifja upp þegar ég sat í aðalstjórn félagsins tók ég m.a. þátt í vinnuhóp sem skilaði niðurstöðu 1999 um „Verklagsreglur um meðferð bókhalds og fjármuna Breiðabliks“. Merkilegt plagg….að mig minnir.
En nú starfa ég hjá Eignaumsjón sem er með umsjón húsfélaga og m.a. höldum við fjölmarga húsfélagsfundi í Kópavogi. Þá hittir maður oft á tíðum gamla jaxla og góða blikavini sem ánægjulegt er að fara yfir stöðu mála hjá félaginu okkar.
Páll Þór Ármann – hvernig fer leikurinn?
Ég fékk þetta skemmtilega tækifæri að vera „spábliki“ fyrir leik okkar manna í heimaleik gegn Fram.
Það er gaman að vera Bliki þess dagana og reyndar mörg undanfarin ár. Við félagarnir erum duglegir að mæta á völlinn og vil ég hvetja fólk til að fjölmenna á völlinn og styðja sína menn og konur líka því tvær dætur mínar æfa fólbolta (reyndar með Víkingi). Það er mikilvægt en fyrst og fremst gaman að mæta á völlinn og styðja fólkið okkar. Það er gaman að fylgjast með boltanum sem við erum að spila núna, spila frábæran og beinskeyttan bolta sem skilar árangri enda erum við á toppnum í Bestu deildinni eftir glæsilegan útisigur á Víkingum á heimavelli hamingjunnar. Oft er sagt að það sé kalt á toppnum en ég verð að taka undir orð Arnars Gunnlaugssonar frá í fyrra þegar hann talaði um að á það væri hlýtt á toppnum. Það er einmitt þannig, það er gott að vera á toppnum, þar er hlýtt og notalegt að vera. Þar viljum við líka vera í haust þegar móti lýkur.
Leikurinn við Fram er snúinn að mörgu leiti í þessari stöðu. Einhver segir að við eigum að vinna en við vitum að það er ekkert þannig í boltanum. Fram hefur vaxið inn í mótið og vann síðasta útileik sinn á móti Leikni. En ég hef fulla trú á okkar mönnum og þetta endar með öruggum 4-0 sigri.
Áfram Breiðablik.
Páll Þór Ármann
SpáBliki 7. umferðar - Páll Þór Ármann
Dagskrá
Græna stofan opnar tímanlega, börger á grilli, rjúkandi kaffi og góðmeti í sjoppunni.
Sparkvellir verða á sínum stað fyrir krakkana.
Miðasala á Stubbur app: Stubbur
Flautað til leiks sunnudagskvöld kl.19:15!
Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 BD 2 fyrir þá sem ekki eiga heimangengt.
Kópacabana menn mæta fylktu liði á leikinn og ætla að tendra bálköst í hjörtum leikmanna, eins og þeim einum er lagið, og fá stúkuna með í stuðið!
Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!
Gefðu kost á þér í blikar.is liðið
Blikar.is er óháður stuðningsmannavefur meistaraflokka Breiðabliks og nú vantar okkur fleira fólk til að sjá um að skrifa efni, setja inn efni og miðla því á samfélagsmiðlum Blikar.is.
Stuðningsmannavefurinn er mjög öflugur í allri fréttamiðlun á blikar.is vefnum og tengdum samfélagsmiðlum.
Ef þú hefur áhuga á og tíma til að gefa kost á þér í þetta lið, þá sendu okkur endilega línu á blikar@blikar.is
Miðlarnir okkar eru: