Besta deildin 2022: Breiðablik - ÍA
29.07.2022Grafík: Halldór Halldórsson. Photography: Hulda Margrét.
Í pistli dagsins ...
Fimmtándi leikur okkar manna í Bestu karla 2022 > Blikar á toppnum > Fáum Skagamenn í heimsókn á Kópavogsvöll > Miðasala á Stubbur > Sagan: 123 mótsleikir > Gamli leikurinn: Breiðablik - ÍA 1972 > Blikahópurinn 2022 > SpáBliki leiksins er Kristrún Lilja Daðadóttir > Dagskráin fyrir leik > Gefðu kost á þér í blikar.is liðið!
Breiðablik - ÍA
Eftir heimaleikjahlé í Bestu síðan 23. júní er loksins komið að heimaleik okkar manna á Kópavogsvelli í Bestu deild karla. Næsti leikur okkar manna í Bestu deild er á mánudag, frídag Verslunarmanna þegar við fáum Skagamenn í heimsókn í 15. umferð. Flautað verður til leiks á kl.19:15!
Miðasala á Stubbur app: Stubbur
Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt.
Kópacabana menn munu keyra upp stemninguna í stúkunni. Við hvetjum alla Blika til að taka undir með Kópacabana-mönnum í stúkunni á Kópavogsvelli.
Staðan í Bestu deild karla eftir 14 umferðir - okkar menn á toppnum með 6 stiga forskot á Víkinga.
Sagan & tölfræði
Innbyrðis leikir Breiðabliks og ÍA í öllum mótum frá fyrsta leik árið 1965 eru 123. Skagamenn leiða með 64 sigra gegn 37 sigrum Blika. Jafnteflin eru 22.
Innbyrðis leikir liðanna í efstu deild, fyrst árið 1971, eru 60. Staðan er Skagamönnum í vil með 33 sigra gegn 19 Blikasigrum. Jafnteflin eru 8.
Frá 1971 til 2000 unnu Skagamenn nánast alla mótsleiki liðanna.
En frá 2006 er sigurhlutfallið með Blikaliðinu í efstu deild: 12 sigrar, 6 töp og 5 jafntefli í 23 viðureignum. Skagamenn léku 1. deild 2009 og 2011, og aftur 2014 og 2018. Því eru innbyrðis leikir liðanna 23 í efstu deild frá 2006 til 2022. Einnig féll annar leikur liðanna 2020 niður vegna Covid-19.
Síðustu 5 leikir í efstu deild á Kópavogsvelli:
Gamli leikurinn
Leikurinn verður 31. viðureign liðanna í efstu deild.
Gamli leikurinn var 3. leikur liðanna á efsta stigi og var spilaður á Melavellinum fyrir 50 árum.
Fyrsti heimasigur okkar manna á liði ÍA í efstu deild kom 9. ágúst 1972. Ungt og upprennandi Breiðablikslið - á sínu öðru ári í efstu deild í 14 ára sögu knattspyrnudeildar félagsins - fékk Skagamenn í heimsókn á Melavöll - heimavöll Breiðabliks í efstu deild frá 1971 þar til Kópavogsvöllur var vígður 1975. Skagamenn á toppnum og spáð sigri í deildinni. S.dór hjá Þjóðviljanum skrifar .... "Jafnvel þótt Skagamenn séu nú á toppnum og að þeim sé spáð sigri í deildinni í ár, þá verður þetta þeim erfiður leikur. Í fyrsta lagi eru Skagamenn alltaf veikari á mölinni en á grasinu, alveg þveröfugt við Blikana, sem aldrei njóta sín betur en á Melavellinum."
Þessi sigur Breiðabliks þótti merkilegur og kom blaðamönnum verulega á óvart. Nokkarar fyrirsagnir eftir leikinn 1972:
"Breiðablik í hóp toppliðanna" Þjóðviljinn
"Hve langt nær Breiðablik?" Tíminn
"Blikarnir komnir í baráttu efstu liða mótsins" Vísir
Tíminn 11. ágúst 1972 skrifar "LIðið, sem flestir spáðu falli í byrjun 1. deildar keppninna, Breiðablik úr Kópavogi, er farið að velgja toppliðum deildarinnar undir uggum. Ósennilegt er þó, að Breiðablik hljóti Íslandsmeistaratitilinn í ár, en hins vegar er ekki fráleitt, að liðið geti náð 2. sæti - með sama baráttukrafti og eljusemi - og þar með rétti til að taka þátt í Evrópukeppni á næsta ári"
Lið Breiðabliks í leiknum gegn ÍA: Gissur Guðmundsson, Magnús Steinþórsson, Bjarni Bjarnason, Haraldur Erlendsson, Guðmundur Jónsson, Ríkharður Jónsson, Karl Steingrímsson, Einar Þórhallsson, Gunnar Þórarinsson, Heiðar Breiðafjörð og Þór Hreiðarsson.
Leikmannahópur Breiðabliks 1972.
Breiðabliksliðið hélt sæti sínu í deildinni. Enduðu með 13 stig líkt og Valur - 3 stigum ofar en KR sem enduði í næst neðasta sæti. Fram varð íslandsmeistari með 22 stig, en Víkingur R. féll með 6 stig.
"Þór Hreiðarsson, Breiðabliki var bezti maður á vellinum í gærkvöld, þegar Breiðablik sigraði Akranes. Hann lék oft vörn Akurnesinga grátt með hraða sínum og leikni og skorðai úrslitamark leiksins með hörkufallegu skoti. Hér er hann með knöttinn - vígalegur á svip - en að þessu sinni tókst honum ekki að koma honum framhjá markverði Akurnesinga." Mynd: Visir 10. ágúst 1972.
Blikahópurinn 2022
Blikinn Benedikt Warén leikur með ÍA sem lánsmaður.
Ísak Snær Þorvaldsson lék með Skagamönnum frá miðju ári 2020 og allt árið 2021. Samtals 32 leikir/4 mörk.
Óskar Hrafn Þorvaldsson er aðalþjálfari meistaraflokks karla. Óskar hefur stýrt liðinu frá árinu 2019. Halldór Árnason er aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla frá 2019. Ólafur Pétursson er markmannsþjálfari liðsins. Ólafur hefur starfað sem markmannsþjálfari hjá Breiðabliki frá árinu 2005. Aron Már Björnsson er styrktarþjálfari liðsins síðan 2016. Aron er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Í sjúkraþjálfarateyminu eru þær Særún Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Og Marinó Önundarson og Alex Tristan Gunnþórsson eru liðsstjórar meistaraflokks karla.
Stuðningsmaðurinn
SpáBliki 15. umferðar er fædd og uppalin í Kópavogi. Hún hefur starfað sem þjálfari hjá kanttaspyrnudeildinni alveg síðan hún lagði knattspyrnuskóna á hilluna frægu. Einnig hefur hún verið virkur þáttakandi í hjólreiðadeild Breiðabliks síðustu 2-3 ár. Blikinn á fjóra stráka sem allir æfa knattspyrnu hjá Breiðablki.
Knattspyurnuferill spáblikans í grænu Breiðablikstreyjunni er glæsilegur – 225 mótsleikir og 113 mörk skoruð á 16 árum frá 1986 til 2002. Níu sinnum hampar leikmaðurinn Íslandsmeistaratitli og fimm sinnum Bikarmeistartitli.
Blikakonan er í fjórða sæti yfir leikjahæstu leikmenn mfl. kvenna frá upphafi og í þriðja sæti yfir flest skoruð mörk – 113 alls og þar af 87 í efstu deild.
Hún á ekki langt að sækja knattspyrnuhæfileikna. Faðir hennar, Daði Jónsson, gerði garðinn frægan á upphafsárum knattspyrnunnar í Kópavogi á árunum 1960-1970.
Kristrún Lilja Daðadóttir - Hvernig fer leikurinn?
Gengið liðanna hefur verið ólíkt í sumar. Skagamenn hafa tapað síðustu tveimur leikjum stórt og hafa ekki unnið leik síðan í apríl. Lítið sjálfstraust í liðinu og þeir hafa fengið á sig mörg mörk. Á meðan eru okkar menn á toppnum, hafa skemmt okkur vel með góðri spilamennsku, fallegum mörkum og góðri samvinnu.
Eftir góða ferð til Svartfjallalands koma strákarnir ferskir heim og vinna þennan leik örugglega 4 - 0.
Oliver Sigurjónsson mun skora sitt fyrsta mark í sumar og fyrsta mark leiksins, Ísak Snær, Jason Daði bæta svo við en Gísli Eyjólfs mun svo loka leiknum með fjórða marki leiksins og einnig sínu fyrsta marki í sumar.
Mikilvæg stig fyrir okkur enda framundan hörkuleikir og nóg af leikjum í deild, bikar og Evrópukeppni.
Samsett mynd af SpáBlika 15. umferðar við ýmis tækifæri
Dagskrá
Græna stofan opnar tímanlega, börger á grilli, rjúkandi kaffi og góðmeti í sjoppunni.
Sparkvellir verða á sínum stað fyrir krakkana.
Miðasala á Stubbur app: Stubbur
Flautað verður til leiks á Kópavogsvelli á mánudag kl.19:15!
Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt.
Kópacabana menn munu keyra upp stemninguna í stúkunni. Við hvetjum alla Blika til að taka undir með Kópacabana-mönnum í stúkunni á Kópavogsvelli.
Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!
BlikarTV: Klippur úr fyrri leik liðanna 7. maí:
Gefðu kost á þér í Blikar.is liðið
Blikar.is er óháður stuðningsmannavefur meistaraflokka Breiðabliks og nú vantar okkur fleira fólk til að sjá um að skrifa efni, setja inn efni og miðla því á samfélagsmiðlum blikar.is.
Stuðningsmannavefurinn er mjög öflugur í allri fréttamiðlun á blikar.is vefnum og tengdum samfélagsmiðlum.
Ef þú hefur áhuga á og tíma til að gefa kost á þér í þetta lið, þá sendu okkur endilega línu á blikar@blikar.is
Miðlarnir okkar eru: