BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deildin 2022: Fram – Breiðablik

20.08.2022 image

Grafík: Halldór Halldórsson

Í pistli dagsins ...

Átjándi leikur okkar manna í Bestu karla 2022 > Blikar með 6 stiga forskot á toppnum > Fyrsta heimsókn til Fram í Úlfarsárdal > Miðasala á Stubbur > Sagan: 70 mótsleikir frá 1961 > Gamli leikurinn: Fram – Breiðablik 1977  > Blikahópurinn 2022  > Ólafur H. Kristjánsson er SpáBliki leiksins  > Dagskráin fyrir leik > Gefðu kost á þér í blikar.is liðið!

Fram – Breiðablik

Næsti leikur Blikamanna er á útvelli við sjóðandi heitt lið Framara sem hafa ekki tapað leik á nýja heimavellinum í Úlfarsárdal.

Flautað verður til leiks á Framvellinum - Úlfarsárdal á mánudagskvöld kl.19:15!

Miðasala á Stubbur app

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 BD 2 fyrir þá sem ekki eiga heimangengt.

Kópacabana menn mæta fylktu liði á leikinn og ætla að tendra bálköst í hjörtum leikmanna, eins og þeim einum er lagið, og fá okkar fólk með í stuðið!

Staðan eftir 17 umferðir – Blikar á toppnum með 6 stiga forskot á KA:

image

Sagan & Tölfræði

Keppnisleikir Breiðabliks og Fram í öllum mótum frá fyrsta leik árið 1961 í Bikarkeppni KSÍ eru 70. Fram leiðir tölfræðina með 33 sigra gegn 19 sigrum Breiðabliks. Jafnteflin eru 18.

Innbyrðis leikir liðanna í efstu deild - fyrst árið 1971 - eru 53 leikir. Sagan þar er Fram í vil með 26 sigra gegn 17 sigrum Blika. Jafnteflin eru 10. Liðin skora samtals 146 mörk í 53 leikjum í efstu deild. Fram leiðir með 82 mörk gegn 64.

Í fyrri leik liðanna í Bestu í sumar unnu Blikamenn 4:3 sigur í mjög fjörugum leik á Kópavogsvelli 22. maí:

Síðusu útileikir gegn Fram í efstu deild eru frá árunum 2012-2014:

22.05 19:15
2014
Fram
Breiðablik
1:1
5
1
A-deild | 5. umferð
Gervigrasvöllur Laugardal | #

Gamli leikurinn

Gamli leikurinn að þessu sinni er fyrsti og jafnframt eini sigur okkar manna gegn Fram á útivelli í efstu deild.

Í 26 útileikjum gegn Fram í deildinni frá 1971 hefur Blikaliðið tapað 17 sinnum, gert 8 jafntefli og unnið aðeins 1 leik.

Það er ágústmánuður á Laugardalsvelli árið 1977. Leikur Fram og Breiðabliks í 16. umferð flautaður á kl.18:00!

Breiðablik vinnur leikinn 1:4 og þar með annan 4:1 sigur í röð það sumar á bláklæddum því heimaleikurinn á Kópavogsvelli endaði einnig 4:1 fyrir okkar menn. Mörkin fjögur komu frá þeim Ólafi Friðrikssyni á '23, Heiðari Breiðfjörð á '42, Vigni Baldurssyni á '81 og Jóni Orra Guðmundssyni á '88.

14.08 20:00
1977
Fram
Breiðablik
1:4
6
5
A-deild | 16. umferð
Laugardalsvöllur | #

GSP - Þjóðviljinn 16. ágúst 1977

Nýtt andlit á liði Breiðabliksmanna!

"Eftir slæman og áhugalausan fyrri hálfleik í viðureign Fram og Breiðabliks sl. sunnudag mættu Blikarnir með óþekkjanlegan svip í seinni hálfleikinn og skoruðu þá fjögur mörk gegn engu hjá ráðþrota Frömurum. Eitthvað hlýtir Þorsteinn Friðþjófsson að hafa lesið yfir sínum mönnum í leikhléi því Breiðabliksmenn sýndu raunar á sér nýtt andlít og buðu upp á knattspyrnu sem í senn var ógnandi og árangursrík. Blikarnir hafa raunar í sumar leikið oft á tíðum ágæta knattspyrnu, en ógnun og einbeitni hefur oftast vantað þar til á sunnudaginn að allt var sett í botn og Fram varð að þola þriggja marka tap". meira>

Lið Breiðabliks í leiknum gegn Fram á Laugardalsvelli: Ólafur Hákonarson (M) – Gunnlaugur Helgason – Bjarni Bjarnason – Valdimar Valdimarsson – Einar Þórhalsson – Ólafur Friðriksson – Vignir Baldursson – Þór Hreiðarsson – Jón Orri Guðmundsson – Sigurjón Rannversson og Gísli Sigurðsson.

Mörkin: '50 Ólafur Friðriksson. '55 Sigurjón Rannversson. '77 Ólafur Friðriksson. '88 Jón Orri Guðmundsson.

Leikmannahópur og leikir Breiðabliks 1977.

ÍA vann Íslandsmótið 1977 með 28 stig. Valur varð í öðru sæti með 27 stig. Breiðablik endaði í 6. sæti með 18 stig og Fram í því 8. með 14 stig. KR var í næst neðsta sæti með 10, en Þór Ak féll með 5 stig. Af vef KSÍ. 

image

Blikinn Jón Orri Guðmundsson spilaði 22 leiki í efstu deild með Breiðabliki árin 1976-1978 og skoraði 4 mörk. Tvö markanna skoraði hann gegn Fram árið 1977 - annað á '88 á Kópavogsvelli og það síðara á '88 í leiknum á Laugardalsvelli 😊

Blikahópurinn 2022

Í leikmannahópi Fram eru þrír leikmenn sem hafa spilað með Breiðabliki.

Markvörðurinn Ólafur Íshólm Ólafsson kom til okkar frá Fylki árið 2017. Blikar lánuðu Ólaf til Fram 2019 og stóð hann sig mjög vel þar. Í framhaldinu gerði hann 2 ára samning við félagaið. 

Sóknarmaðurinn Þórir Guðjónsson gerði samning við Breiðablik í október 2018. Hann lék 16 leiki með Blikaliðinu 2019 og skoraði 4 mörk. Breiðablik og Fram komust að samkomulagi um vistaskipti Þóris fyrir keppnistímabilið 2020. 

Og Óskar Jónsson er uppalinn hjá Breiðabliki. Óskar spilaði 18 mótsleiki með Blikaliðinu frá 2016 til 2019. 

Óskar Hrafn Þorvaldsson er aðalþjálfari meistaraflokks karla hjá Breiðabliki. Óskar hefur stýrt liðinu frá árinu 2019. Halldór Árnason er aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla frá 2019. Ólafur Pétursson er markmannsþjálfari liðsins. Ólafur hefur starfað sem markmannsþjálfari hjá Breiðabliki frá árinu 2005. Aron Már Björnsson er styrktarþjálfari liðsins síðan 2016. Aron er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Í sjúkraþjálfarateyminu eru þær Særún Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Og Marinó Önundarson og Alex Tristan Gunnþórsson eru liðsstjórar meistaraflokks karla

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki 18. umferðar hóf leikferil sinn hjá FH 1985. Hann flytur sig til KR árið 1996 þá búinn að spila 158 leiki í deild og bikar með FH og skora 9 mörk. Hann staldrar stutt við í vesturbænum. Spilar 30 leiki með KR-ingum 1996/1997 en flytur svo til Danmerkur til að spila fyrir með AGF Aarhus til 2001, en verður þá unglingaþjálfari hjá liðinu og síðar aðstoðarþjálfari liðsins. Í júní 2004 tók hann við sem þjálfari Fram og gengdi því starfi í 2 ár. Um mitt sumar 2006 er SpáBlikinn ráðinn þjálfari meistaraflokks karla hjá Breiðabliki og skilaði hann þar fyrsta Bikarmeistaratitli karla til félagsins árið 2009, eftir úrslitaleik við Fram á Laugardalsvelli 2009, og fyrsta Íslandsmeistaratirli karla 2010 eftir harða samkeppni við FH keppnistímabilið 2010. Hann hættir þjálfun liðsins um mitt sumar 2014, eftir 8 ára starf sem þjálfari meistaraflokks karla, til að taka við sem yfirþjálfari hjá FC Nordsjælland. SpáBlikinn þjálfaði Randers FC  2016/2017 og Esbjerg í Danmörku 2020/2021. Á Íslandi þjálfaði hann FH 2017/2020.

SpáBlikinn á 14 leiki að baki með landsliði Íslands og aðra 12 með U21 og U19.

Í febrúar á þessu ári var SpáBlikinn ráðinn nýr yfirmaður knattspyrnumála hjá Breiðabliki.

Ólafur Kristjánsson – Hvernig fer leikurinn?

Leikur númer 18 í deild, er næsti leikur okkar Blika. Auk þeirra 17 sem leiknir hafa verið nú þegar, þá hafa verið leiknir 3 í bikar og 6 í Evrópukeppni. Samtals 26 leikir, síðan 19 apríl. Síðan 19 Apríl eru liðnar tæpar 18 vikur, eða 125 dagar. Það þýðir að Blika liðið hefur spilað tæplega fimmta hvern dag síðan Íslandsmótið hófst. Það er allmargir leikir og töluvert álag, en liðið hefur klárað þessi verkefni frábærlega. 12 sigrar í deild, 3 jafntefli og 2 töp. 3 sigrar í bikar og 3 sigrar og 3 töp í Evrópukeppni - 18 sigrar, 3 jafntefli og 5 töp. Það er býsna góður árangur. Frammistöðurnar hafa verið góðar og takturinn í liðinu flottur. Það er hægt að vera stoltur af Breiðabliks liðinu og hvernig þjálfarar, leikmenn og aðstandendur liðsins hafa tekist á við verkefnin af festu og einbeitingu.

Andstæðingar Breiðabliks í 18. umferð eru Framarar, aðrir af tveimur nýliðum Bestu deildarinnar. Þeim var ekki spáð mikilli velgengni í endurkomunni og byrjuðu brösuglega, en hafa heldur betur gert spámönnum grikk með frammistöðu sinni og stigasöfnun í sumar. Fram liðinu er stýrt af tveimur höfðingjum og reynslu boltum, Jóni Sveinssyni og Aðalsteini Aðalsteinssyni, þjálfurum sem láta ys og þys samfélagsmiðla ekki trufla sig heldur halda ótrauðir áfram og hlusta á eigin sannfæringu og ausa úr reynslu brunni sínum til liðsmanna. Þeir eru frábært teymi sem ég óska alls hins besta í þeirra verkefnum, nema að sjálfsögðu gegn Breiðabliki. 

Það er eftirtektarvert hversu líkur Jón, aðalþjálfari Fram, er Ásgeiri, heitnum Elíassyni, í allri hans nálgun á leikinn og þjálfun. Er þar ekki leiðum að líkjast, enda Ásgeir einn allra femmsti og besti þjálfari sem Ísland hefur átt, auk þess að vera miklum mannkostum gæddur, sem Jón er líka.

Fram liðið hefur spilað skemmtilegan bolta sem klæðir félagið vel og passar vel við þá minningu sem SpáBlikinn hefur af Fram frá gullaldarárum félagsins, það hafa þeir sýnt í allt sumar og voru erfiður ljár í þúfu í fyrri leik félaganna í sumar.

Ég býst við erfiðum, en skemmtilegum leik, þar sem 0-0 eru ólíkleg úrslit. Ég vona auðvitað og trúi því að okkar menn haldi áfram á vegferðinni og dragi lengsta stráið á mánudaginn og sigri 1:3.

Blikakveðja,

Ólafur Kristjánsson

image

SpáBliki 18. umferðar Ólafur Kristjánsson að störfum 2013

Dagskrá

Flautað verður til leiks á Framvellinum - Úlfarsárdal á mánudagskvöld kl.19:15!

Miðasala á Stubbur app

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 BD 2 fyrir þá sem ekki eiga heimangengt.

Kópacabana menn mæta fylktu liði á leikinn og ætla að tendra bálköst í hjörtum leikmanna, eins og þeim einum er lagið, og fá okkar fólk með í stuðið!

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Öll mörkin þegar Breiðablik vann Fram 4-3 á Kópavogsvelli í sumar: 

Gefðu kost á þér í blikar.is liðið

Blikar.is er óháður stuðningsmannavefur meistaraflokka Breiðabliks og nú vantar okkur fleira fólk til að sjá um að setja inn efni og miðla því á samfélagsmiðlum blikar.is

Stuðningsmannavefurinn er mjög öflugur í allri fréttamiðlun á blikar.is vefnum og tengdum samfélagsmiðlum. Ef þú hefur áhuga á og tíma til að gefa kost á þér í þetta lið, þá sendu okkur endilega línu á blikar@blikar.is

Miðlarnir okkar eru:

www.blikar.is og www.blikar.is/kvk

Blikar.is á Facebook 

Blikar_is á Twitter

Blikar_is á Instagram

Blikahornið á Soundcloud

Nánar um Blikar.is hér og hér

Til baka