Besta deildin 2023: HK - Breiðablik
20.06.2023Blikaliðið er í þriðja sæti í töflunni með 23 stig þegar Besta deild karla 2023 er hálfnuð. Reyndar eru þrjú efstu liðin og KA búin að spila einum leik meira (í 13. og 15.umf) en önnur lið vegna Evrópuþátttöku Breiðabliks, KA og Víkinga.
Okkar menn hafa ekki tapað leik í 2 mánuði (12 leikir: 9 í deild og 2 í bikar) en jafnteflin þrjú í síðustu leikjum höggva í stigasöfnun liðsins í toppbaráttunni. Liðið er nú í þriðja sæti - 2 stigum á eftir Valsmönnum og 7 stigum á eftir Reykjavíkur Víkingum.
Liðið hefur skorað 23 mörk og fengið á sig 15. Tveir okkar manna eru á lista yfir sex markahæstu leikmenn til þessa: Stefán Ingi Sigurðarson leiðir listann með 8 mörk og Gísli Eyjólfsson er einn af fjórum leikmönnum með 6 mörk.
Staðan í Bestu deildinni fyrir leikina í 12. umferð
HK - Breiðablik
Félagar okkar úr efri byggðum. HK-ingar eru aftur komnir upp í efstu deild eftir stutta dvöl í Lengjudeildinni í fyrra eftir naumt fall nágrannafélagsins úr efstu deild 2021.
Fyrri leikur liðanna í sumar á Kópavogsvelli var í fyrstu umferð Bestu deildarinnar sem HK liðið vann 3:4 í fjörugum leik. Fyrirsagnir miðla eftir leikinn: "Drama í stórkostlegum Kópavogsslag" - "Svakaleg sveifla þegar nýliðarnir skelltu meisturunum" - "Blikar voru með fjórum sinnum hærra xG" - "Tryllt og tragísk titilvörn". Nánar um leikinn HÉR.
HK liðið situr nú í 6. sæti með 13 stig eftir snarpa byrjun en liðið hefur mátt þola tap í 4 leikjum í röð.
Sagan
Breiðablik og HK eiga að baki 35 mótsleiki auk góðgerðarleikja enda hefur samstarf Kópavogsfélaganna verið mjög gott. Yfirlit mótsleikja.
Leikurinn á föstudaginn verður því 36. mótsleikur liðanna frá upphafi og 11. innbyrðis leikur liðanna í efstu deild.
Efsta deild
Tölfræðin í 10 leikjum í efstu deild til þessa er jöfn. Blikasigar eru 4 gegn 4 sigrum HK - jafnteflin eru 2.
Útileikir í efstu gegn HK eru 5. HK-ingar leiða með 2 sigar gegn 1 - jafnteflin eru 2.
Leikir gegn HK í efstu deild í Kórnum (3) og á Kópavogsvelli (2) árin 2007 og 2008 þegar Kópavogsvöllur var heimavöllur beggja liða:
Leikmannahópurinn
Nokkrir núverandi leikmanna Blika hafa leikið með báðum liðum. Fyrrum HK-ingurinn Damir Muminovic spilar nú með Breiðabliki eins og alkunna er. Viktor Örn Margeirsson lék sem lánsmaður hjá HK árið 2014. Markahrókurinn Stefán Ingi Sigurðarson lék sem lánsmaður með HK í fyrra og skoraði 16 mörk í 15 leikjum.
Og okkar maður Eyþór Aron Wöhler leikur nú sem lánsmaður með HK-liðinu.
Fyrrum leikmenn Breiðabliks, þeir Arnþór Ari Atlason og Atli Hrafn Andrason, leika nú með HK-liðinu.
Stuðningsmaðurinn
SpáBliki 12. umferðar fluttist með fjölskylduna í Kópavog 1988 og settist að á Kársnesinu. Fyrstu árin var spáblikinn á sjó og hafði þ.a.l. fá tilefni til að mæta á knattspyrnuleiki þrátt fyrir mikinn áhuga á þeirri göfugu íþrótt. Árið 1997 kom spáblikinn alkominn í land og þar með hófust tíðari ferðir hans á völlinn og auðvitað kom ekkert til greina annað en að gerast gallharður Bliki. Dóttirin var þá farin að æfa skíði með skíðadeild Breiðabliks, en sá áhugi er allur úr móðurættinni. Spáblikinn fór reyndar á nokkur skíðamót og vann sé m.a. til frægðar að handleggsbrotna á skíðamóti í Hlíðarfjalli, nánar tiltekið á bílastæðinu (datt á svellbunka). Ferðir á skíðamót hafa alfarið lagst af, en í þess stað förum við dóttirin á völlinn og hvetjum okkar lið Breiðablik og landsliðið.
SpáBlikinn ásamt Ingibjörgu Auði (dóttir) og Heiðu Kristínu (barnabarn) á landsleik. Til öryggis er Blikahúfa höfð með.
Þegar yngri sonurinn hóf að æfa með Breiðablik fylgdum við foreldrarnir honum á hin ýmsu mót víða um landið s.s. Akranes, Ólafsfjörð. Akureyri (bæði vetur og sumar) og Vestmannaeyjar. Spáblikinn tók þátt í foreldrastarfi ásamt fjölda annarra foreldra, en á þessum árum 2005 til 2010 varð gífurleg fjölgun iðkenda hjá yngri flokkum knattspyrnudeildar Breiðabliks. Frá þessum tíma hefur spáblikinn mætt GRÆNKLÆDDUR á nánast alla leiki meistaraflokks Breiðabliks (kvenna og karla) bæði heima og úti leiki. Í seinni tíð förum við feðgarnir saman á flesta leiki Breiðabliks.
Fyrir rúmum tíu árum, eftir smáþrýsting frá StórBlikanum Andrési Péturssyni, fór spáblikinn inn í stjórn Blikaklúbbsins og hitti þar fyrir áhugasamt fólk, með okkur Andrési í stjórninni voru Bjössi Hilmars., Borghildur Sig., Björgvin Rúnars., Haukur Valdimars., Jón S. Garðars.og Sigrún Óskars., allt fólk sem var tilbúið að leggja mikið á sig fyrir Blikaklúbbinn og þar með knattspyrnudeild Breiðabliks. Eitt af því sem mikil áhersla var lögð á, var að jafna alla umgjörð á leikjum kvenna- og karlaliða Breiðabliks. Þar hefur margt áunnist, en betur má ef duga skal. Eitt af fyrstu verkum þessarar stjórnar var að ráða tvær systur Önnu Kristínu og Birnu til að sjá um hálfleikskaffið á öllum heimaleikjum meistaraflokka Breiðabliks auk þess sem Óli Sigtryggs. var fenginn í dyravörsluna og stjórnaði öllu af festu og röggsemi. Fljótlega var farið að bjóða upp á veitingar í VIP stúkunni og þar nutum við m.a. aðstoðar Kristínar Guðmunds. varðandi aðdrætti og Nonna Magg. við dyravörslu. Sem betur fer var og er enn til staðar ríkur ungmennafélagsandi hjá okkur Blikum því ekkert af þessu væri framkvæmanlegt nema með mikilli sjálfboðavinnu.
SpáBlikinn (Kallinn í grænu úlpunni ásamt börnum sínum Ingibjörgu Auði og Jóhannes). Til öryggis er Blikahúfa höfð með. hefur mætt og stutt Blikana á heimaleikjum, en einnig á fjölda útileikja s.s. á Sauðákróki, Akureyri, Vestmannaeyjum, Selfossi, Grindavík, Keflavík, Akranesi, Ólafsvík og alla velli á Höfuðborgarsvæðinu. Vonandi hefur þetta eitthvað haft að segja fyrir leikmennina, a.m.k. hefur þetta veitt spáblikanum fjölmargar ánægjustundir.
Guðmundur Jóhannesson - Hvernig fer leikurinn?
Á föstudaginn kemur skundum við í Kórinn til vina okkar í HK. Það er alltaf sérstök stemming á leikjum þessara nágrannaliða. HK gáfu okkur engin grið í 1. umferð en ég hef fulla trú á að Blikarnir mæti fullir ákafa og gleði og bæti fyrir tapið 10. apríl sl. Ég spái Blikum sigri nema hvað. Hef væntingar um að þetta verði fjörugur leikur, sem Blikar vinna 2 - 0. Spái að Stefán Ingi setji annað gegn sínum fyrri félögum og minn uppáhalds leikmaður Breiðabliks Andri Rafn Yeoman setji hitt.
Áfram Breiðablik!
Dagskrá
Flautað verður til leiks í Kórnum kl.19:15 á föstudaginn.
Miðasala á Stubbur app: Stubbur
Stöð 2 Sport sýnir leikinn fyrir þá sem ekki eiga heimangengt.
Mætum í stúkuna í Kórnum og hvetjum okkar menn til sigurs.
Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!
Mörkin úr síðustu viðureign liðanna í efstu deild í Kórnum. Blikar unnu nauman 2:3 sigur. Markahrókurinn Andri Rafn Yeoman skoraði sigurmark okkar manna á 87. mín.
Upphitunarmyndband Heisa hjá BlikarTV fyrir leikinn gegn HK í Kórnum 28. juní 2021: