Besta deildin 2023: KR – Breiðablik
11.05.2023KR - Breiðablik
Næsti leikur okkar manna í Bestu 2023 er gegn KR á þeirra heimavelli í vesturbæ Reykjavíkur.
Flautað verður til leiks í Frostaskjólinu (nú Meistaravellir) kl.16:00 á laugardaginn.
Miðasala á Stubbur app: Stubbur
Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt.
Staðan í deildinni eftir 6 umferðir:
Sagan & tölfræði
Innbyrðis leikir KR og Breiðabliks í efstu deild frá upphafi eru 73.
KR-ingar hafa vinninginn með 34 sigra gegn 17 - jafnteflin eru 22.
Síðustu 5 leikir liðanna á heimavelli KR:
Leikmannahópurinn
Nokkrir uppaldir Blikar spila með Vesturbæjarliðinu. Kristinn Jónsson gekk til liðs við KR eftir keppnistímabilið 2017. Arnór Sveinn Aðalsteinsson söðlaði um yfir til KR árið 2016 en skilaði sér heim og er nú aftur spilandi í grænu Breiðablikstreyjunni. Fyrrverandi leikmaður Blika, Akureyringurinn Atli Sigurjónsson, leikur nú aftur með KR en hann lék 49 mótsleiki með Breiðabliki á árunum 2015 til 2017. Aðrir leikmenn hjá KR sem hafa spilað í grænu treyjunni eru þeir Benoný Breki Andrésson og Lúkas Magnason. Og Aron Þórður Albertsson er uppalinn Bliki.
Óskar Hrafn Þorvaldsson aðalþjálfarari meistaraflokks karla og Halldór Árnason aðstoðarþjálfari eru með tengingu við KR. Báðir sem sem leikmenn og þjálfarar.
Töluverðar breytingar hafa orðið á leikmannahópi Blika milli ára.
Komnir: Alex Freyr Elísson frá Fram - Arnór Sveinn Aðalsteinsson kominn heim frá KR - Ágúst Eðvald Hlynsson frá Horsens (var á láni hjá Val) - Ágúst Orri Þorsteinsson frá Malmö - Eyþór Aron Wöhler frá ÍA - Klæmint Olsen á láni frá NSÍ Runavík - Oliver Stefánsson frá Norrköping (var á láni hjá ÍA) - Patrik Johannesen frá Keflavík og Stefán Ingi Sigurðarson frá HK (var á láni).
Farnir: Dagur Dan Þórhallsson til Orlando - Elfar Freyr Helgason í Val - Ísak Snær Þorvaldsson til Rosenborg - Mikkel Qvist - Pétur Theódór Árnason á láni til Gróttu - Sölvi Snær Guðbjargarson í frí - Omar Sowe til Leiknis (var á láni frá NY Red Bulls) - Adam Örn Arnarson í Fram (var á láni hjá Leikni) - Benedikt Warén í Vestra (var á láni hjá ÍA)
Óskar Hrafn Þorvaldsson er aðalþjálfari meistaraflokks karla. Óskar hefur stýrt liðinu frá árinu 2019. Halldór Árnason er aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla frá 2019. Valdimar Valdimarsson er markmannsþjálfari liðsins. Hann tók við því starfi af Ólafi Péturssyni. Aron Már Björnsson er styrktarþjálfari liðsins síðan 2016. Aron er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Eyjólfur Héðinsson hefur verið ráðinn sem afreksþjálfari hjá elstu flokkum karla í Breiðabliki. Eyjólfur mun einnig vera í þjálfarateymi meistaraflokks karla, þar sem hann mun halda utan um aðlögun yngri leikmanna inn í meistaraflokkshópinn. Í sjúkraþjálfarateyminu eru þær Særún Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Marinó Önundarson og Alex Tristan Gunnþórsson eru liðsstjórar meistaraflokks karla.
Stuðningsmaðurinn
SpáBliki 7. umferðar hefur persónulega ekki afrekað margt eða mikið á knattspyrnuvellinum. Æfði þó fótbolta Blikunum á sínum yngri árum, upplifði góða tíma með skemmtilegum drengjum á Vallargerðisvellinum þar sem Valdi heitinn réð ríkjum. Á bara góðar minningar frá þessum tíma. Aðallega stundaði ég og æfði handbolta með Blikunum, spilaði með Óla Björns, Hákoni Gunnars, Tedda, Valda Vald, Krissa stóra og fleiri góðum mönnum. Mitt helsta afrek með strákunum var að vinna bikarmeistaratitill í 2. flokki. Ég hætti svo í handboltanum í kringum 18 ára aldur.
Ég get verið alveg heiðarlegur með það og segi kinnroðalaust að guð hafi ekki gefið mér mikla getu á íþróttasviðinu, er sæmilegur á góðum degi en hef þó alltaf haft mikinn áhuga á íþróttum. Þrátt fyrir takmarkaða getu hef ég alltaf verið viðloðandi íþróttir en ég spilaði badminton í um 35 ár og hef verið í golfi í áratugi. Slitin hásin og slitin hné gerðu það að verkum að ég hætti í badminton fyrir nokkrum árum. Nú er ég búinn að fá nýtt hné og því stefni ég ótrauður á golfið í sumar. Forgjöfin á eftir að snarlækka. Það er lífsnauðsynlegt að hreyfa sig, vera úti í góðum félagsskap.
Foreldrar mínir byggðu okkur heimili austarlega á Álfhólsveginum og þangað fluttum við haustið 1963 en þá var ég tæplega fjögurra ára gamall. Á móti mér bjó Ásta B en við spörkuðum oft bolta saman ásamt fleirum á skólalóðinni við Digranesskóla sem nú heitir Álfhólsskóli. Það var frábært að alast upp í Kópavogi á þessum tíma. Það voru móar og melar allt um kring á mínum uppvaxtarárum, þar sem Smáralindin er núna voru kartöflu- og rófugarðar.
Ég hef aldrei flutt úr Kópavogi ef undanskilin eru ár í námi í Bandaríkjunum og Skotlandi. Ég gerði reyndar nokkuð sem menn gerðu hreinlega ekki í Kópavogi í gamla daga því ég flutti með konunni úr austurbæ Kópavogs yfir í vesturbæ og bý núna á frábærum stað ekki langt frá sjónum við Kópavoginn. Þetta fyrirgefst í dag. Dóttir okkar hjóna og hennar fjölskylda býr í æskuheimilinu á Álfhólsveginum og er þriðja kynslóðin í því húsi. Sonur okkar og hans fjölskylda hafa komið sér vel fyrir í Birkigrundinni. Við höldum því öll tryggð við Kópavog.
Ég stend á tímamótum um þessar mundir því ég lét nýverið af starfi forstjóra Varðar trygginga. Þar hafði ég verið og átt frábær 16 ár. Það stendur ekki til að gera ekki neitt, eitthvað hyggst ég hafa fyrir stafni en eiga eitthvað meiri tíma fyrir annað en vinnu. Er það klassíska ekki að byrja á að taka til í bílskúrnum og svo hef ég meiri tíma í sumar til að bæta golfgetuna.
Vörður hefur verið bakhjarl knattspyrnudeildar Breiðabliks frá árinu 2010. Hér eru Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks og Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar við endurnýjun samningsins í desember 2022.
Eins og fram hefur komið hef ég alla mína hunds og kattartíð verið Bliki, hef lagt klúbbnum lið í gegnum tíðina, var gjaldkeri knattspyrnudeildar um hríð á níunda áratugnum. Deildin var alltaf skítblönk og var maður stöðugt á flótta undan þjálfurum sem vildu fá launin sín greidd. Engu síður var skemmtileg að taka þátt í störfum deildarinnar. Ég kom með öðru góðu fólki að því að stofna Blikaklúbbinn en það var einhver hópur sem kom saman á sínum tíma í Catalinu í Hamraborginni fyrir trúlega 30 árum eða svo. Andrés Pétursson er alveg örugglega með aldur klúbbsins á hreinu.
Ég er ágætlega duglegur að mæta á leiki Breiðabliks en nú mæti ég gjarnan með tengdasyni, börnum og barnabörnum. Barnabörnin eru sum að æfa og mæti ég því líka eitthvað á leiki hjá krökkunum. Það er stutt fyrir mig að fara út á Kópavogsvöll, völlurinn er í góðu göngu eða hjólafæri við heimili okkar. Vonandi förum við að fá nýja gervigrasið á völlinn, við þurfum að fara að komast á okkar heimavöll. Það á eftir að gefa okkur byr undi báða vængi að þurfa ekki að spila heimaleiki út í bæ.
Guðmundur Jóhann – Hvernig fer leikurinn?
Það er skemmtilegt að fá tækifæri að spá um úrslit í leik okkar gegn KR í Frostaskjólinu. Ég er búinn að sjá 4 leiki, það er stígandi hjá liðinu en það á að mínu mati töluvert inni. Liðið hefur alla burði til að vera í toppbaráttu í sumar og markmiðið hlýtur að vera að verja titilinn og taka bikarinn líka. KR-ingar hafa farið illa af stað en við þurfum að passa okkur að vanmeta þá ekki. Það hafa oftar en ekki verið hörkuleikir á milli okkar og KR-inga og því er bara rétt að gera ráð fyrir því að svo verði einnig í þetta skiptið. Mín spá er sú að við vinnum leikinn 3-1, við höfum meðbyr eftir þrjá sigurleiki í röð og það hjálpar okkur í Frostaskjólinu á laugardaginn. Þó að strákarnir hafi sýnt að þeir geti skorað mörk þá þurfum við engu síður að þétta varnarleikinn. Við höfum fengið á okkur of mörg mörk það sem af er móti. Ég hef fulla trú á góðu gengi liðsins í sumar.
Áfram Breiðablik!
Guðmundur Jóhann Jónsson er SpáBliki 7. umferðar
Dagskrá
Flautað verður til leiks laugardaginn 13. maí á KR vellinum í Frostaskjóli kl.16:00!
Miðasala á Stubbur app: Stubbur
Áfram Blikar! - Alltaf, alls staðar!
Mark og atvik úr viðureign liðanna á KR vellinum 2022 í boði BlikarTV: