Besta deildin 2024: Breiðablik - ÍA
21.06.2024Baráttan heldur áfram. Leikur í kvöld þegar strákarnir okkar mæta frísku liði ÍA á Kópavogsvelli. Flautað til leiks kl.19:15
Skagamenn hafa verið á mikilli siglingu að undanförnu og eru komnir upp i fjórða sætið í deildinni.
Við Blikar erum í þriðja sæti fyrir leikinn en eigum leik til góða. Það má því búast við hörkuleik á Kópavogsvelli í kvöld.
KópaCabana Stuðningssveit Breiðabliks mætir í kvöld og hvetur alla stuðningsmenn í stúkunni að hefja upp raust og syngja og öskra með.
Miðasalan er á Stubbur.
Græna stofan opnar klukkutíma fyrir leik. Píluspjöld í boði. Börger á útigrilli, rjúkandi kaffi og góðmeti í sjoppunni.
Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt.
Staðan í deildinni fyrir leikinn í kvöld gegn ÍA - Blikasigur í leiknum skilar okkar í efsta sætið:
Sagan & Tölfræði
Innbyrðis leikir Breiðabliks og ÍA í öllum mótum frá fyrsta leik árið 1965 eru 125. Skagamenn leiða með 64 sigra gegn 39 sigrum Blika - jafnteflin eru 22.
Frá 1965 til 2000 unnu Skagamenn nánast alla mótsleiki liðanna þ.m.t. 20 leiki af 35 innbyrðis leikjum liðanna í Litlu bikarkeppninni.
Albert Guðmundsson sem var aðal hvatamaður að stofnun keppninnar en hann hafði á þeim tíma verið spilandi þjálfari Hafnfirðinga (ÍBH). Albert gaf farandbikar til keppninnar. Mótið var hugsað sem æfingamót fyrir „utanbæjarliðin" áður en Íslandsmótið hæfist, til mótvægis við Reykjavíkurmótið. Litla bikarkeppnin hófst 7. maí árið 1961 og lauk í maí 1995. Samtals vou spilaðir 850 leikir í Litlu bikarkeppninni. Árið 1996 hófst síðan nýtt mót, Deildabikarkeppni KSÍ (Lengjubikarinn), og hún tók því raun við af Litlu bikarkeppninni en þar voru hinsvegar öll lið með, utan Reykjavíkur sem innan. Skagamenn sigruðu Breiðablik 3-1 í fyrsta úrslitaleiknum á grasvelli FH-inga í Kaplakrika um miðjan maí 1996.
Efsta deild
Innbyrðis leikir liðanna í efstu deild frá 1971 eru 61. Staðan er Skagamönnum í vil með 33 sigra gegn 20 - jafnteflin eru 8.
Frá endurkomu Blikaliðsins upp í efstu deild árið 2006 fellur sigurhlutfallið með Blikum: 13 sigrar, 6 töp og 4 jafntefli í 23 viðureignum.
Síðustu 5 leikir liðanna í efstu deild á Kópavogsvelli:
Leikmannahópurinn
Í liði gestanna er það Oliver Stefánsson sem hefur leikið í grænu Breiðablikstreyjunni.
Okkar maður, Ísak Snær Þorvaldsson, lék með Skagamönnum frá miðju ári 2020 og allt árið 2021. Samtals 32 leikir/4 mörk.
Leikmenn sem komu til okkar fyrir keppnistímabilið:
Kristinn Jónsson (KR) Kiddi Jóns kominn heim * Aron Bjarnason (Ungverjaland) Aron Bjarna mættur í grænt * Arnór Gauti Jónsson (Fylkir) Arnór Gauti mættur í Kópavoginn * Benjamin Stokke (Noregur) Norski framherjinn Benjamin Stokke til Breiðabliks * Daniel Obbekjær (Færeyjar) Daniel Obbekjær gerir 3 ára samning við Breiðablik * Ísak Snær Þorvaldsson á láni (Noregur) Ísak Snær aftur í Kópavoginn.
Leimenn Breiðabliks sem voru á láni hjá öðrum liðum 2023: Dagur Örn Fjeldsted (Grindavík) - Eyþór Aron Wöhler (HK) - Pétur Theódór Árnason (Gróttu). Í mars rifti Pétur samningi sínum við Breiðablik og íhugar að hætta í fótbolta, en meiðsli hafa sett risastórt strik í feril hans undanfarin 2-3 ár. - Tómas Orri Róbertsson (Grindavík) - Tumi Fannar Gunnarsson (Augnablik) - Viktor Elmar Gautason (Augnablik)
Leikmenn Breiðabliks á láni hjá öðrum liðum keppnistímabilið 2024: Ásgeir Helgi Orrason (Keflavík). Tómas Orri Róbertssson (Grótta).
Farnir: Alex Freyr Elísson (Fram...var á láni hjá KA) - Anton Logi Lúðviksson (Noregur) - Arnar Númi Gíslason (Fylkir...var á láni hjá Gróttu) - Ágúst Eðvald Hlynsson (Danmörk) - Davíð Ingvarsson (Danmörk) - Gísli Eyjólfsson (Svíþjóð) - Hilmar Þór Kjærnested Helgason (Fylkir) - Klæmint Olsen (Færeyjar ...var á láni frá NSÍ) - Oliver Stefánsson (ÍA). - Eyþór Aron Wöhler (KR)
Teymið: Halldór Árnason er aðalþjálfari Breiðabliksliðsins. Aðstoðarþjálfari er Eyjólfur Héðinsson. Eiður Eiríksson er transition þjálfari. Stryrktarþjálfari er Helgi Guðfinnsson. Haraldur Björnsson er markmannsþjálfari liðsins. Sjúkraþjálfari er Særún Jónsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Kristinn Orri Erlendsson er nuddari liðsins. Liðsstjórar eru Marinó Önundarson og Brynjar Dagur Sighvatsson.
Stuðningsmaðurinn
SpáBliki leiksins er fæddur og uppalinn Kópavogsbúi, Vesturbæingur (það vita allir að það er bara einn alvöru vesturbær og hann er í Kópavogi). Við vorum ekki gamlir vinirnir þegar Vallargerðisvöllur var orðinn einn af aðal leikvöllunum. Það var góður staður að alast upp á, og einhvernvegin stendur uppúr að að spila þar fótbolta í rigningu og forugur upp fyrir haus, leðurboltinn orðinn svo blautur og þungur að það var erfitt að sparka í hann, hvað þá að fá hann í sig. Og það var enginn að spá í það í þá daga að börn væru að skalla svona bolta, stundum verið hugsað til þessa tíma þegar umræðan um börn að skalla bolta er mikil.
Á Vallargerðisvelli réði Valdi vallarvörður ríkjum og var þar kóngur í ríki sínu. Valdi átti í okkur hvert bein og það sem hann sagði var okkur sem lög. Við krakkarnir sem ólumst þarna upp eigum honum mikið að þakka. Síðan kom að því að barnið náði aldri og mátti byrja að æfa og spila. Þá var maður sko orðinn hálf fullorðinn, þessu var búið að bíða lengi eftir. Það var æft upp í 3ja flokk en þá tóku aðrir hlutir við. Minnistæðustu þjálfararnir þessi ár voru Jón Ingi, Gummi Þórðar og Halli Erlends.
SpáBlikinn (þessi með armbandsúrið) á Breiðabliksæfingu 1973 eða 1974.
Blikinn er lærður vélstjóri og hefur unnið við vélatengda vinnu alla æfi. Alltaf þegar hægt var var farið völlinn og horfði á sína menn spila.
Síðan gerist það að ég flyt austur á firði, á Fáskrúðsfjörð, og var þar í 22 ár. Þá einhvervegin rofnaði sambandið við félagana og maður hætti að fylgjast með. En svo gerist svolítið skemtilegt. Góðkunningi okkar allra, Andrés Péturson, kom annars lagið austur vegna ættartengsla. Þá hittumst við stundum við einhver tækifæri og einhverju sinni spyr hann mig hvort ég fylgist ekki með liðinu okkar og hvort ég vilji ekki ganga í Blikaklúbbinn sem ég játti og fór í framhaldinu að fylgjast betur með og mæta á leiki þegar ég var á suðvestur horninu.
Síðan þegar ég flutti aftur í Kópavoginn, og í Smárann, var eitt af fyrstu verkum mínum að setja upp fánastöng og kaupa mér Breiðabliksfána sem ég flagga við ýmis tækifæri. (Mætti alveg vera duglegri við það).
Helst áhugamálin eru ferðalög af öllu tagi, best líður Blikanum samt einhversstaðar á fjöllum með konunni minni. Einnig keyri ég mótorhjól og síðan hafa björgunar- sveitarstörf verið fyrirferðarmikil.
Ólafur Atli Sigurðsson - Hvernig fer leikurinn?
Það er aldrei á vísan að róa þar sem ÍA er annars vegar. Við höfum átt góðu gengi að fagna gegn þeim núna í mörg ár og ég held að með yfirvegun og liðsheild sem hefur einkennt okkar leik að þá fögnum við sigri. Ég segi að leikurinn fari 3:1
Áfram Breiðablik!
SpáBliki leiksins Ólafur Atli á ferðalagi í Noregi árið 2018.
Dagskrá
Við Blikar erum í þriðja sæti fyrir leikinn en eigum leik til góða. Það má því búast við hörkuleik á Kópavogsvelli í kvöld.
KópaCabana Stuðningssveit Breiðabliks mætir í kvöld og hvetur alla stuðningsmenn í stúkunni að hefja upp raust og syngja og öskra með.
Miðasalan er á Stubbur.
Græna stofan opnar klukkutíma fyrir leik. Píluspjöld í boði. Börger á útigrilli, rjúkandi kaffi og góðmeti í sjoppunni.
Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt.
Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!
PÓÁ
Mörkin úr leik síðasta leik Breiðabliks og ÍA í Bestu á Kópavogsvelli: