BikarBlikablús í Bítlabænum
26.04.2024
Það samræmist ekki góðum bragarhætti að ofstuðla í fyrirsögnum. En 2:1 tapið fyrir Keflavík í bikarnum í gær kallar á sterk viðbrögð. Bæði Halldór þjálfari og Höskuldur fyrirliði viðurkenndu í viðtölum eftir leikinn að frammistaðan í leiknum hefði verið mjög slök. Sérstaklega var spilamennska Blikaliðsins í fyrri hálfleik ein sú slakasta sem sést hefur til liðsins um háa herrans tíð. Enda var fjórum leikmönnum skipt inn á síðari hálfleik en það dugði samt ekki til sigurs.
Eitt af því fáa sem gladdi augað var mark Kristófers í síðari hálfleik en það var hálf-gerður Phyrrosarsigur því leikmaðurinn þurfti strax að fara af velli tognaður á læri eftir markið.
Kristófer Ingi Kristinsson var nýbúinn að biðja um skiptingu þegar hann svo bara skoraði með þessu laglega skoti. Blikar minnka muninn og enn er tími til stefnu! pic.twitter.com/OiCYMjBTIG
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) April 25, 2024
Það eru ýmsar varúðarbjöllur farnar að klingja eftir þessa fyrstu leiki tímabilsins. Blikaliðið hefur ekki náð að tengja saman tvo góða hálfleiki í öllum þessum fjórum leikjum. En þetta vita leikmennirnir betur en flestir aðrir. Ef við þekkjum þá rétt þá koma þeir eins og brjáluð ljón í næstu leiki. Og það eru engir smáleikir. KR bíður í Vesturbænum á sunnudaginn og svo kemur gríðarsterkt Valslið í heimsókn á Kópavogsvöll mánudaginn 6. maí. Þarna þurfum við ná upp alvöru Blikaanda og Blikaspili!
En við stuðningsmennirnir stöndum þétt við bakið á liðinu áfram. Það býr miklu meira í Blikaliðinu en það hefur sýnt hingað til. Þetta er bara spurning um tíma og þá fáum við að sjá góð úrslit aftur!
Sjáumst græn og glöð í Frostaskjólinu á sunnudaginn kl.18.30
-AP