Blikar Lengjubikarmeistarar!
27.03.2024
Blikastrákarnir unnu öruggan 4:1 sigur á Skagamönnum í úrslitaleik Lengjubikarsins árið 2024. Þar með tryggðum við okkur þennan titil í þriðja sinn og í fyrsta sinn síðan árið 2015. Sigur okkar stráka var í raun og veru aldrei í hættu. Mörkin okkar voru hverju öðru glæsilegra og lofar þessi leikur góðu fyrir Íslandsmótið sem hefst eftir rúma viku.
Við tókum forystuna með glæsilegu skallamarki frá Kristóferi Inga Kristinssyni á 23. mínútu eftir flotta fyrirgjöf Arons Bjarnasonar. Áður en fyrirliðinn Höskuldur Gunnlaugsson bætti við öðru marki á snilldarhátt úr aukaspyrnu gáfum við gestunum ódýrt mark. Þessi gjafmildi okkar manna verður að stoppa því ekki er víst að við skorum fjögur mörk í hverjum leik!
Í seinni hálfleik komu tvö sannkölluð draumamörk. Fyrra markið setti Jason Daði eftir lúmska sendingu Andra Yeomans. Móttaka og vippa Jasons var á heimsmælikvarða! Og ekki var fjórða markið síðra. Höskuldur og Kiddi Steindórs léku sér að vörn Skagamanna og fyrirliðinn setti knöttinn örugglega í markið eftir að Kiddi hafði vippað knettinu skemmtilega yfir fjóra gulklædda varnarmenn. Öruggur 4:1 sigur Blikaliðsins staðreynd.
Þetta er fyrsti opinberi bikar Blikaliðsins undir stjórn Halldórs Árnasonar. Vonandi verða þeir fleiri á þessu keppnistímabili. Spilamennska okkar stráka lofar góðu og nú höfum við 10 daga til að fínpússa liðið áður en við mætum FH-ingum á Kópavogsvelli mánudaginn 8. apríl kl.19.15.
-AP