Broddinn vantaði!
02.02.2023Mynd: Byrjunarliðin ásamt dómurum fyrir leik
Blikar fengu 0:4 skell gegn frískum FH-ingum í úrslitum Þungavigtarbikarsins á Kópavogsvelli. Sigur gestanna var sanngjarn en hugsanlega aðeins of stór miðað við gang leiksins. En það vantaði meiri brodd í sóknarleik okkar pilta og því fór sem fór. En það þýðir ekkert að hengja haus. Næsta verkefni er strax á laugardaginn þegar við mætum Selfyssingum í Lengjubikarnum í Fífunni kl.13.00. Þá bætast einnig nokkrir lykilmenn í hópinn.
Fyrri hálfleikur var frekar slakur hjá okkar piltum enda vorum við 0:2 undir þegar gengið var til búningsherbergjanna. Við vorum reyndar mun meira með boltann en við ógnuðum nánast ekkert upp við mark gestanna. Svo fengum við frekar slök mörk á okkur. Í fyrra markinu hefði Anton Ari átt að gera betur á milli stanganna. Síðara markið var reyndar púra rangstæða og lítið við því að segja.
Óskar Hrafn var greinilega óhress með gang mála og skipti Stefáni Inga og Færeyingnum Klæmint inn á eftir leikhléið. Sóknarleikur Blikaliðsins hresstist nokkuð við þessa breytinga. En liðið varð fyrir því óláni snemma í síðari hálfleik að varnarmanninum unga og efnilega Ásgeiri Helga Orrason var vikið af velli fyrir frekar lítið brot. Var það leiðinlegt fyrir Ásgeir Helga því hann hafði átt ágætan leik fram að því. Síðari hálfleikur var því nokkur brekka. Við áttum nokkrar vænlegar sóknir og átti Stefán Ingi meðal annars skot í stöng. En þeir hvítklæddu refsuðu okkur með skyndisóknum og bættu við tveimur mörkum. Frekar slæmt tap staðreynd en það þýðir ekkert að gráta Björn bónda. Við söfnum liði og komum tvíefldir til baka í Lengjubikarnum.
-AP