BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Ekkert stórmeistarajafntefli

15.08.2022 image

Mánudagskvöldið 15. ágúst. Stórleikur Íslandsmótsins í Smáranum. Víkingar í heimsókn, átta stigum á eftir Blikum á toppnum en með leik inni. Allt undir. Ekki einungis baráttan um Fossvogslækinn. Sérfræðingar sögðu að færu Blikar með sigur af hólmi væri mótið búið, titillinn nánast í höfn. Aftur á móti myndu Víkingar opna deildina upp á gátt með sigri. Jafntefli gerði meira fyrir Blika. Bæði lið voru nýkomin úr erfiðum útileikjum í Evrópukeppni – var þreyta í mannskapnum?

Sól skein í heiði, hægur andvari, báðar stúkur fullar, fólk beðið að þjappa sér saman, staðið í brekkunni. Með öðrum orðum: það var urrandi stemmning í Kópavogsdal.

Hjá Blikum var Ísak Snær fjarri góðu gamni en að öðru leyti var liðið þannig skipað:

image

Löng og erfið leið

Sem fyrr segir var mikið undir. Líklega voru Víkingar með hugann við ljóðið Í áfanga eftir frægasta íbúa Fossvogs, Stein Steinarr: „Víst er þetta löng og erfið leið / og lífið stutt og margt sem út af ber. / En tigið gegnum tál og hvers kyns neyð / skín takmarkið og bíður eftir þér.“ Hugur þeirra stendur vitaskuld til þess að vinna aftur Íslandsmeistaratitilinn, hann er takmarkið sem þetta allt snýst um.

Þegar leikurinn hófst var ljóst að hvorugt liðið ætlaði að gefa færi á sér. Það skapaðist sjaldan hætta. Í upphafi skallaði Víkingur að marki eftir aukaspyrnu en Anton Ari varði. Litlu síðar sendi hann boltann fram svo að nokkur hætta skapaðist við mark gestanna en skot Dags Dan var varið í horn.

Brot af heimsins harmi

Eftir 27 mínútur voru Víkingar búnir að skipta báðum bakvörðum sínum út vegna meiðsla. 

Líklega var planið sem Arnar Gunnlaugsson hafði lagt upp fyrir leikinn í nokkurri upplausn. Þar sem ég sat í stúkunni gat ég ekki betur séð en að þessi snyrtilega klæddi þjálfari reyndi að berja sínum mönnum baráttuanda í brjóst og orðin voru ekki af verri endanum. Mér sýndist hann sem sagt fara með annað erindið í fyrrnefndu ljóði íbúans fyrrverandi á Fossvogsbletti 45 við Sléttuveg: „Hve oft þú hrasar, oft þig brestur mátt, / hve undarlega er gott að sitja kyrr. / Samt kemstu á fætur, réttir höfuð hátt, / og hraðar þér af stað sem áður fyrr.“

Hvaða fautaskapur?

En Blikar voru með yfirhöndina á þessum mínútum ­ og miklu heldur ef leikurinn hefði ekki alltaf verið stöðvaður vegna meiðsla. Raunar voru tafirnar slíkar að það upphófust veðmál í stúkunni um það hversu langur uppbótartíminn yrði. Í miðjum þeim umræðum barst tíðindamanninum skeyti frá gömlum Víkingi: „Hvaða fautaskapur er í þínum mönnum? Er planið að tæma bekkinn hinum megin?“ Mér fannst þetta alls ekki sanngjarnt því að Blikar neyddust líka til að gera skiptingu. Kristinn Steindórsson fór meiddur af velli og inn kom Sölvi Snær Guðbjargarson. Sölvi Snær hefur ekki náð sér á strik í grænu treyjunni. En hann var ekki lengi að láta til sín taka. Hann átti óðara snilldarsendingu inn fyrir á Jason Daða en Víkingar björguðu naumlega.

Og skömmu síðar óð Dagur Dan í gegnum vörn gestanna, renndi boltanum út á Sölva Snæ sem lagði hann fallega í netið. 1-0 og lítið eftir af hálfleiknum. Hans fyrsta efstu deildar mark fyrir Blika. 

Lítið eftir. Það eru eiginlega lykilorð. Ætluðu þessar níu mínútur í uppbótartíma aldrei að líða? Nú var eins og okkar menn biðu eftir því að flautað yrði til hálfleiks.

Kliður um stúkuna

Í hlénu var niðurstaða hinna mætustu manna að það væri skemmtilegra að vera yfir en undir. Bjartsýni var ríkjandi en ekki laust við beig. Mönnum fannst liðið hafa bakkað full mikið eftir markið.

Davíð Ingvarsson fór út af fyrir Andra Rafn í upphafi seinni hálfleiks. Hann fékk höfuðhögg í lok fyrri hálfleiks sem hafði greinilega sínar afleiðingar.

Víkingar héldu áfram þar sem frá var horfið. Eftir horn skutu þeir framhjá svo að kliður fór um stúkuna.

Það var hiti í mönnum, mikið undir, Arnar Gunnlaugsson skammaði boltastrák fyrir seinagang, en hann hafði varla sleppt orðinu þegar Oliver átti snilldarsendingu úr aukaspyrnu inn fyrir á Höskuld en Víkingar björguðu í horn.

Að komast aftan að fjandmanni sínum

Næstu mínútur einkenndust af stöðubaráttu og færi voru engin.

Þá gerðist það sem kannski var viðbúið – Víkingar áttu skot í stöng, hirtu frákastið og jöfnuðu 1-1. Tíu mínútum síðar skutu þeir úr aukaspyrnu en Antan Ari varði. Aftur áttu þeir skot fyrir utan teig en Anton Ari varði enn á ný. Það lá sem sagt svolítið á okkar mönnum. Og þá þurfti dómarinn auðvitað að gefa Damir annað gult spjald og þar með rautt.

image

Damir verður í banni í næsta leik.

Manni færri snerist þetta um að halda fengnum hlut – að minnsta kosti að fá ekki á sig mark. Elfar Freyr kom inn fyrir Sölva Snæ og litlu síðar Omar fyrir Jason Daða. Anton Ari kýldi boltann út fyrir teig eftir hornspyrnu, Elfar Freyr sýndi gamla takta og bjargaði vel í sínum fyrsta deildaleik þetta keppnistímabil. Þetta var svolítið eins og í ljóði Steins Steinars: „styrkur minn liggur allur í undanhaldinu, / þótt einhverjum sýnist það málstaðnum lítið til þægðar ... Þið vitið að jörðin er líkt og knöttur í laginu. / Og loksins kemst maður aftan að fjandmanni sínum.“

Þrjár mínútur í uppbótartíma.

Taugatitringur í stúkunni.

Einn við luktar dyr – allar dyr opnar

Okkar menn gerðu sig vissulega líklega til að stela sigrinum í lokin ­ kannski komnir aftan að fjandmanni sínum – en niðurstaðan var sú að liðin skiptu með sér stigunum.

Það er stundum talað um stórmeistarajafntefli. Það átti ekki við um leikinn í kvöld. Stórmeistarajafntefli er þegar skákmenn semja um skiptan hlut eftir stutta og tilþrifalausa viðureign. Vissulega vildi hvorugt liðið tapa í kvöld en baráttan var í fyrirrúmi og bæði vildu sækja stigin þrjú.

Arnar Gunnlaugsson bar sig vel á hliðarlínunni að leik loknum en það mátti glöggt sjá að honum fannst takmarkið, Íslandsmeistaratitillinn, hafa fjarlægst Víkina. Hann bærði varirnar og sá ég ekki betur en að hann færi með lokaerindið í fyrrnefndu ljóði, Í áfanga eftir frægasta íbúa Fossvogs, Stein Steinarr, á leið sinni í klefann: „Svo styttist þessi ganga smátt og smátt, / og seinast stendurðu einn við luktar dyr.“

Okkar mönnum standa aftur á móti allar dyr opnar. Forystan er enn trygg.  Þetta er sem sagt enn í okkar höndum – hér þarf enga tölfræði eða útreikninga.

Fyrir höndum er síðan bikarleikur í Kórnum á móti HK og heimsókn í Úlfarsárdal til Fram í deildinni. Ekki missa að því!

PMÓ

Myndaveisla í boði BlikarTV

image

Til baka