BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Eltingarleikur í afmæli

12.05.2022 image

Það var hægur andvari úr vestri, skýjað og nokkuð svalt þegar leikmenn Breiðabliks og Stjörnunnar gengu inn á Kópavogsvöll miðvikudagskvöldið 11. maí. Jafnvel mátti vitna í ljóðið Sekur eftir Kópavogsbúann gamla Brynjar Örn Gunnarsson á þessum afmælisdegi bæjarins: „nístingskuldi, úti er kalt“. Þessar aðstæður hefðu alla jafna átt að nýtast okkar mönnum betur en gestunum en þeir kalla bæinn sinn gjarnan í Mónakó, líklega út af Miðjarðarhafsloftslaginu sem þar ku vera.

Jójó fer niður – og upp

Að vísu var þetta rjómablíða miðað við það sem spáð hafði verið en veðurfræðingar höfðu hótað fjórum gráðum og rigningu. Það voru því líkur á hörkuleik. Góður félagi tíðindamanns Blikar.is – Stjörnumaður mikill – hringdi fyrir leik og hafði áhyggjur af sínum mönnum. Þeir væru svolítið eins og jójó. Undirrituðum leist ekki á það. Jójó fer upp og jójó fer niður. Það fór upp á móti Víkingi. Niður á móti Fram. Færi það upp á Kópavogsvelli?

Blikar voru bersýnilega í afmælisskapi á þessum hátíðisdegi bæjarins í sínum grænu búningum en Stjarnan skrýddist í skyrhvítu – meira um það síðar.

Óskar Hrafn varð að gera eina breytingu á liði sínu frá því sem verið hefur. Viktor Karl er meiddur og byrjaði Dagur Dan Þórhallsson sinn fyrsta leik með okkar mönnum. Að öðru leyti var liðið þannig skipað:

image

Yfirburðir

Blikar byrjuðu með boltann og óðu fram af einurð og dug og uppskáru eftir 24 sekúndur fyrsta hornið í leiknum. Það skilaði að vísu engu en gaf tóninn. Eftir tvær mínútur var keyrt af hörku inn í Viktor Örn og Stjarnan pressaði stíft. Okkar menn leystu úr öllum stöðum, virkuðu miklu fleiri á vellinum, það var alltaf laus maður til að gefa á, enda var eins og gestirnir vissu ekkert hvað þeir ættu af sér að gera þegar þeir fengu boltann. Langar sendingar fram skiluðu litlu. Haraldur markmaður spyrnti hvað eftir annað upp í stúku, bæði nýju og gömlu. Stjörnumenn vildu vera duglegir að elta léttleikandi Blika en án þess að gera sér grein fyrir því að það er ekki nóg að elta. Eitthvað verða menn að gera ef það á að bera árangur. Við komum nánar síðar að eltingarleik í víðu samhengi.

Enda dró nú til tíðinda.

Að gefa ódýrt mark – stundum tvö

Jason byrjaði sókn á miðjum vallarhelmingi Stjörnunnar og óð út á hægri kant. Eftir skemmtilegt samspil við Dag Dan var hann kominn upp að endamörkum, gaf fyrir, Haraldur missti boltann fyrir fætur á nefndum Degi Dan sem skoraði af miklu öryggi. 17 mínútur á klukkunni og almenn gleði í stúkunni – bæði gömlu og nýju.

image

‘15! Dagur Dan annan leikinn í röð!

Sex mínútum síðar sendi Viktor Örn langan bolta fram, Jason Daði tók hann listilega niður fyrir innan vörn gestanna og skoraði alveg fumlaust framhjá Haraldi í markinu.

image

‘24 Jason Daði með glæsilegt mark! 2-0

Síminn í vasa tíðindamanns Blikar.is titraði til marks um SMS. Fyrra skeytið frá Stjörnumanninum mikla hljóðaði svo: „Byrjum oft á því að gefa hinu liðinu ódýrt mark. Neglum þetta í framhaldinu.“ Síðan hafði hann bætt við: „...stundum tvö.“

Helgi Hós og skyr

En nú þurftu Stjörnumenn að elta Blika fyrir alvöru. Garðbæingar eru þekktir fyrir að elta Kópavogsbúa. Þeir líta greinilega til okkur um leiðsögn lífs á vegi.  Þeir eltu okkur og réðu Ágúst Gylfason sem þjálfara eftir að hann hafði verið í Smáranum. Þeir hafa jafnvel gert góðan og gegnan Kópavogsbúa að bæjarlistamanni – rithöfundinn Bjarna Bjarnason. Hljómsveitin Jonee Jonee, sem er úr Garðabæ, söng lagið Hver er svo sekur ári eftir að Sekur Brynjars Arnar varð frægt með Eiríki Haukssyni. Árið 1977 söng fjölmennasta tríó veraldar, Ríó Tríó sem einmitt er úr Kópavogi, um mótmælandann Helga Hóseasson en hann er frægastur fyrir að kasta skyri á helstu fyrirmenni landsins við þingsetningu fyrir hálfri öld. Í laginu segir meðal annars: „fólkið man að Helgi hefur / höfðingjunum gefið skyr.“

Fimm árum síðar eltu Garðbæingarnir í Jonee Jonee okkar menn í Ríó og sungu líka lag um Helga Hós: „Skyr er hollt og hvítt og meiðir engan.“

image

Gísli Eyjólfs á flugi

Skrattinn úr Skítalæknum

Ekki skal hér fullyrt að hvítir varabúningar Stjörnunnar séu til heiðurs Helga Hós sem „lagðist i þá fjandans firru, / er forðast skyldi almúgi, / að halda að allir Íslendingar / ættu kost á réttlæti“ eins og Ríó Tríó söng. En það má segja að Garðbæingar hafi engan meitt í sínum skyrhvítu treyjum – svona að mestu leyti. Stundum sýndu þeir óþarfa hörku og var það ljóður á ráði þeirra. Þeir áttu sitt fyrsta skot eftir 24 mínútur og var það hátt yfir. Blikamegin í stúkunni veltu menn því meira að segja fyrir sér hvort Haraldur markvörður væri farinn að tefja þegar hann lagðist niður eftir viðskipti við Ísak Snæ. Það væri sigur að tapa bara með tveimur mörkum í Smáranum.

Því kom það eins og skrattinn úr Skítalæknum þegar Stjarnan skoraði beint úr hornspyrnu á 37. mínútu. Réttsýnir menn töldu gróflega brotið á Antoni Ara en það var ekki óumdeild skoðun. Þetta var þvert gegn gangi leiksins, svo ekki sé fastara að orði kveðið. „En hver er sekur, undrun vekur,“ eins og segir í ljóðinu Sekur. Þetta var hins vegar fráleitt síðasta örlagaríka hornið í leiknum, svo sem síðar greinir.

Jason Daði veður færum

Stjörnumenn mættu fullákveðnir til leiks eftir kaffipásuna, voru meira með boltann og ógnuðu jafnvel marki okkar manna en  Anton Ari varði vel.

Heimamenn virtust hrökkva í gang við þessi ósköp og litlu síðar var Jason Daði kominn einn í gegn en Stjarnan bjargaði í horn.

image

Kristinn Steindórsson átti skot á markteig sem var bjargað í horn.

image

Pressan var sem sagt á gestunum – en þó var ákveðið kæruleysi í okkar mönnum. Ljósið á þessum mínútum var líklega Jason Daði. Á 62. mínútu var vippað inn fyrir vörn Stjörnunnar en Jason skaut framhjá. Mínútu síðar vann hann boltann af varnarmanni – ekki ólíkt því sem gerðist uppi á Skaga á dögunum – en nú tókst varnarmönnunum að bjarga.

Eltihrellir

Þá gerðist það að Ágúst Gylfason skipti inn á Óskari Erni Haukssyni og Ólafi Karli Finsen. Báðir hafa reynst okkar mönnum erfiðir í gegnum tíðina. Nokkrum mínútum síðar fékk Daníel Laxdal að líta gula spjaldið fyrir brot á Ísaki Snæ og fannst mörgum kominn tími til eftir að hann hafði fylgt honum eins og eltihrellir allan leikinn. En sex mínútum eftir að Óskar Örn kom inn á – en sumir halda því fram að hann sé orðinn nokkuð gamall – braust hann upp að endamörkum, sendi boltann út í teig og þar var Emil Atlason mættur og jafnaði 2-2. Líklega „af því að pabbi vildi það“ – svo aftur sé vitnað í eina helstu listamenn Garðbæinga á 20. öld.

„Tökum ykkur í seinni“

Ætluðu Garðbæingar aldrei að hætta að elta? Átti þetta að gerast á afmælisdegi bæjarins? Nei! sögðu tveir bornir og barnfæddir Kópavogspiltar. Höskuldur sendi boltann úr horni inn á teiginn þar sem Viktor Örn stangaði hann af öryggi í netið. 3-2 og fimm mínútur eftir.

image

‘85 Viktor Örn stangar inn sigurmarkið

Hann kórónaði síðan góðan leik með því að fórna sér í sannkallaða Brexit-tæklingu og taka á sig gult spjald til að stöðva skyndisókn Garðbæinga. Það var svo kannski við hæfi að síðasta færi leiksins ætti gamli ránfuglinn Óskar Örn þegar hann óð sína gamalkunnu slóð inn af hægri kanti og skaut að marki með sínum eitraða vinstri fæti en framhjá fór knötturinn – sem betur fer fyrir okkar menn.

Sigur í höfn. Fullt hús stiga eftir fimm umferðir. Það gerist ekki betra. Liðið sýndi frábæra takta í fyrri hálfleik. Þá var í raun bara eitt lið á vellinum. Það var því alveg óþarfi að slaka á klónni og hleypa gestunum inn í leikinn í þeim síðari. Jafnvel þótt þeir séu að langfeðgatali góðir í að elta Kópavogsbúa. Á leiðinni niður úr stúkunni urraði síminn enn. Ný skilaboð úr Garðabæ: „Meikar ekki diff! Tökum ykkur í seinni.“ En nú verða það ekki aðeins Stjörnumenn sem munu elta léttleikandi Blika – öll deildin hefur bæst í hópinn. Á toppnum er „nístingskuldi, úti er kalt“. Nú er Breiðablik liðið sem allir vilja – og þurfa – að vinna. Það reynir því á okkar menn sem aldrei fyrr. Ekki síst í næsta leik á móti Íslands- og bikarmeisturum Víkings í Fossvogi á mánudagskvöldið.

PMÓ

Umfjallanir annarra netmiðla

Mörk og atvik úr leiknum í boði BlikarTV:

Myndaveisla í boði HVH og BlikarTV:

image

image

Til baka