BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Endurtekið efni!

09.10.2023 image

Blikar þurftu að sætta sig 0:2 tap gegn nágrönnum sínum úr Garðabænum á Kópavogsvelli í gær.Leikurinn var í sjálfu sér ekki illa spilaður hjá okkar drengjum en eins og ansi oft í sumar vantaði aðeins meiri gæði upp við mark andstæðinganna. Á sama tíma vantar líka aðeins meiri grimmd í vörnina og þvi fór sem fór.Uppskeran í úrslitakeppninni því aðeins einn sigur og fjögur töp. Það er auðvitað ekki árangur sem við Blikar getum sætt okkur við!

Stjarnan, og þá sérstaklega Eggert Aron Guðmundsson, hafa farið með himinskautum í undanförnum leikjum. Það varð engin breyting þar á í leiknum í kvöld. Eggert skoraði bæði mörk gestanna en með betri varnarvinnu hefði verið hægt að koma í veg fyrir bæði mörkin. Þó nokkur heppnisstimpill var reyndar yfir báðum mörkunum.En oft þegar leikmenn eru í gírnum þá virðist allt ganga upp. Það var raunin í leiknum í kvöld. Á sama tíma gekk ekkert hjá Blikum þrátt fyrir að leikmenn liðsins kæmust oft í ágætar stöður til að skora. Annað hvort komust varnarmennn þeirra bláklæddu fyrir skotin, Árni markvörður varði knöttinn eða að tuðran fór rétt fram hjá. Þetta er á margan hátt saga okkar í sumar.

Tölfræði okkar í leikjum sumarsins  er hins vegar mun lakari en undanfarin ár. Við höfum í tíu leikjum í sumar fengið fjögur mörk eða fleiri á okkur. Það þarf ekki neinn knattspyrnusérfræðing til að sjá að við náum ekki toppsætunum með slíka tölfræði á bakinu. Við fengum 49 mörk á okkur í Bestu deildinni og þarf að fara aftur til ársins 2011 til að finna sambærilega tölfræði. Rétt er að benda á að við skoruðum 52 mörk í sumar sem er fínn árangur. En við erum langt að baki liðunum þremur sem eru fyrir ofan okkur í töflunni í ár. Þetta verður að lagast fyrir næsta sumar.

Auðvitað hefur Evrópukeppnin nokkuð um þetta að segja. En það var vitað fyrirfram að leikjaálagði yrði mikið. Greinilegt að álagið í sumar var of mikið fyrir lykilmenn í liðinu enda fengu þeir ekki mikla hvíld. Það hefði þurft að dreifa álaginu betur en það er auðvelt að vera gáfaður eftir á. Það þýðir hins vegar ekkert að missa sig í einhverjum bölbænum. Árangurinn í Evrópukeppninni í sumar hefur verið frábær og það ævintýri heldur áfram næstu vikur. Leikmennirnir fá núna góða hvíld og mæta örugglega tvíefldir í leikinn gegn Gent í Belgíu fimmtudaginn 28. október. Við ætlum að halda áfram að skrifa íslenska knattspyrnusögu!

Strax eftir leikinn var tilkynnt að Óskar Hrafn Þorvaldsson myndi ekki halda áfram með liðið. Í kjölfarið kom einnig sú frétt að Halldór Árnason, aðstoðarþjálfari Óskars Hrafns hefði verið ráðinn þjálfari Breiðabliks næstu þrjú árin.  Fréttin að Óskar Hrafn myndi ekki halda áfram kom í sjálfu sér ekki á óvart eftir atburðarás síðustu daga. Fjölmiðlar hafa verið fullir af fréttum að Óskar Hrafn væri hugsanlega að taka við liði Haugesund í Noregi. Það þarf því að ekki að koma á óvart að stjórn knattspyrnudeildar hafi tekið þessa ákvörðun. Það kemur hins vegar aðeins meira á óvart að stjórnin hafi ákveðið að ráða Halldór. Ekki þannig að Halldór sé ekki vandanum vaxin. En það voru ýmis önnur þekktari nöfn sem voru nefnd til sögunnar. En Halldóri eru sendar góðar kveðjur og við óskum honum velfarnaðar með Blikaliðið í komandi verkefnum.  Á sama tíma þökkum Óskari Hrafni fyrir farinn veg. Hann hefur skrifað nafn sitt á spjöld sögunnar sem þjálfarinn sem kom fyrstur íslensku liði áfram í riðlakeppni Evrópu. Það verður aldrei frá honum tekið og óskum við honum alls hins besta í komandi verkefnum. 

Sjáumst í Belgíu!

-AP

Til baka