BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Er ekki kominn tími til að tengja?

08.10.2022 image

Fyllum stúkuna þegar við fáum KR-inga í heimsókn um næstu helgi.

Blikar unnu sannkallaðan karaktersigur á KA mönnum á Akureyri í dag. Blikar tóku forystuna mjög sanngjarnt í fyrri hálfleikleik með snilldarmarki frá Kristni Steindórssyni. Við stýrðum síðan leiknum í síðari hálfleik en undir lok leiksins tók dómari leiksins þá furðuákvörðun að dæma víti á okkur. Þrátt fyrir að heimapiltar næðu að jafna þá bitum við í skjaldarendurnar og örfáum mínútum síðar tryggði Jason Daði okkur stigin þrjú. Þar með getum við tryggt okkur Íslandsmeistaratititilinn með hagstæðum úrslitum gegn KR á Kópavogsvelli á laugardaginn!

image

Drengjasveitin góðkunna Skriðjöklarnir frá Akureyri söng lagið ,,Er ekki kominn tími til aðtengja?” á mjög eftirminnanlegan hátt á níunda áratug síðustu aldar. Í lögum og textagerð hljómsveitarinnar kvað við ferskan tón sem á margan hátt má líkja við þann stíl af knattspyrnu sem Blikaliðið hefur verið að innleiða í íslenska knattspyrnu undanfarin ár. Þar tengir markvörður spilið við varnarmenn sem eru óhræddir við að leika hárfínt úr vörninni á miðju- og kantmennina sem leggja snilldarsendingar inn á fótalipra framlínumenn sem koma tuðrunni í netið hjá andstæðingunum. Þetta hefur skilað 60 mörkum í hús fram að þessu sem þýðir að meðaltali 2,5 mörk í leik. Það er frábær árangur!

Það eru þó færri sem vita að höfundur þessa lags, Bjarni Hafþór Helgason, er föðurbróðir Helga Aðalsteinssonar, varaformanns knattspyrnudeildar Breiðabliks. Höfundur texta er hins vegar Kópavogsbúinn og fréttamaðurinn góðkunni Arnar Björnsson. En hann er giftur Kristjönu Helgadóttur, systur Bjarna Hafþórs, þannig að þeir mágarnir hafa greinilega séð fyrir hvað myndi gerast í Kópavoginum nokkrum áratugum síðar. Þess má einnig geta að saman eiga þau Arnar og Kristjana dótturina Kristjönu Arnarsdóttur sem hefur gert garðinn frægan sem íþróttafréttakona en hún er margfaldur Íslandsmeistari með yngri flokkum Breiðabliks í knattspyrnu. Tengingarnar eru því  víða!

En snúum okkur þá að KA-leiknum sjálfum. Engu líkara var en þeir gulklæddu væru orðnir saddir þegar þeir tryggðu sér Evrópusætið í síðustu umferð. Okkar drengir voru miklu betri aðilinn í leiknum en eins og í Stjörnuleiknum þá tókst okkur ekki alveg nægjanlega vel upp að nýta þau færi sem við fengum. Kristinn fékk til dæmis ágætis skallafæri en markvörður heimapilta varði vel. Síðan fékk Ísak Snær dauðafæri en þrumaði knettinum beint á markvörðinn. En Kristinn bætti fyrir færanýtingu á 34. mínútu þegar setti knöttinn snilldarlega í hornið fram hjá fimm varnarmönnum KA! Gargandi snilld.

Í síðari hálfleik stjórnuðum við leiknum nánast frá upphafi en hugsanlega hefði aðeins meiri ákefð og gredda upp við markið komið okkur í betri stöðu. Því skömmu fyrir leikslok náðu heimapiltar upp einni af fáum sóknum í hálfleiknum og dómari leiksins ákvað að gefa þeim fáranlega vítaspyrnu. Þeir náðu að jafna leikinn með þeim galna dómi! En Blikar gáfust ekki upp. Fáeinum mínútum síðar átti Oliver góða tengingu á Ísak Snær sem tók góðan snúning og varnarmenn KA snéru hann niður á fantalegan hátt. Þetta var því púra vítaspyrna. En dómarinn gerði vel að bíða eitt andartak því knötturinn barst til Jasons Daða sem setti knöttinn örugglega í netið og tryggði Blikunum stigin þrjú.

Nokkrir galvaskir Blikar undir forystu Sindra Þórs Sigurðssonar renndu yfir Holtavörðuheiðina þrátt fyrir frekar vonda veðurspá. Þeir létu vel í sér heyra og var greinilegt að strákarnir kunnu vel að meta stuðninginn. Þeir Blikar sem ekki áttu heimangengt söfnuðustu saman á veitingastaðnum Mossley á Borgarholtsbraut og áttu þar taugastrekkjandi stund saman.

Blikaliðið er því komið í þá ákjósanlegu stöðu að geta tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn á heimavelli á laugardaginn kemur. Þá reynir á alla stuðningsmenn Blika, nær og fjær, að mæta á völlinn og taka undir með Skriðjöklum að það sé kominn tími til að tengja Blika við Íslandsmeistaratitil í Bestu deild karla árið 2022!

-AP

Mörkin:

Til baka