BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Erfiður en öruggur „skyldusigur“

29.08.2022 image

Blikar mættu Leikni í kvöld og eflaust hafa margir litið á þetta sem auðveldan skyldusigur.

En ég var engan veginn rólegur fyrir leikinn, Leiknismenn voru mjög góðir í fyrri leik liðanna og þeir fáu leikir sem ég hef séð með liðinu hafa nú gefið til kynna að þeir eigi meira inni en stigataflan segir til um.

Og ekki mátti gleyma góðum sigri á KR í síðustu umferð þar sem þeir kláruðu leikinn eftir að hafa misst niður tveggja marka forskot. Mörg lið hefði misst móðinn eftir það, en Leiknisliðið stóð upp og kláraði leikinn.

Ég hef búið í efra Breiðholti lengur en í Kópavogi og auðvitað hef ég taugar til Leiknis, finnst frábært hvað búið er að byggja mikið upp og hversu góður árangurinn hefur verið.

Þá hefur ekki spillt fyrir að liðinu fylgir skemmtilegt og líflegt stuðningsmannalið - mér finnst reyndar frekar hallærislegt þegar þeir byrja að baula á einn leikmann andstæðinganna, algerlega úr takti við þennan annars jákvæða hóp. Baulað á Davíð frá fyrstu mínútu

Og talandi um stuðningsmenn, stuðningsmenn Blika stóðu vaktina á tveimur leikjum um helgina og gáfu ekkert eftir allan tímann.

image image

En að leiknum.

Viktor og Viktor voru í leikbanni, Andri Rafn, sem verið hefur mjög öflugur í síðustu leikjum var í bakverðinum og Höskuldur færður yfir á miðjuna.

Blikar byrjuðu vel, ég bjóst við marki hvað úr hverju fyrsta korterið, Gísli með frábært skot í slá og (að ég er viss um) inn.. en ekki dæmt mark.

Leiknir fékk svo dauðafæri upp úr þurru, kolrangstæður að mér sýndist, en boltinn lak fram sem betur fer fram hjá.

Loksins kom mark, Mikkel Qvist skallaði inn horn frá Höskuldi, mjög vel afgreitt og Atli í markinu átti ekki möguleika. Fyrsta mark Mikkel fyrir Bliak í efstu deild. 

Rétt fyrir hálfleik var brotið á Ísak og vítaspyrna dæmd. Í sjálfu sér ekki slæm spyrna hjá Höskuldi - nema samkvæmt þeirri skilgreiningu að vítaspyrnur sem eru varðar séu ekki góðar. En Atli gerði einfaldlega mjög vel. Ekki að sjá að hann hafi ekki spilað alvöru leik í þrettán ár.

En leikurinn kláraðist svo í seinni hálfleiks, Sölvi með frábært mark, einhverjir vildu meina að Atli hefði átt að verja, en þetta var einfaldlega mjög vel afgreitt hjá Sölva og ég efast um að margir markmenn í deildinni hefðu varið þetta.

Ísak fékk fínt færi, hefði mátt skora, en lagði svo upp fyrir Gísla eftir frábæra samvinnu í teig Leiknis. Svona spila alvöru lið, leikmenn leggja upp fyrir hvern annan og niðurstaðan frábært mark. Og ekki verra að sjá mark frá Gísla, sem hann átti löngu skilið. Gísli þar með kominn í 50 marka klúbbinn hjá Breiðabliki. 

Gísli skilaði svo "greiðanum" til Dags undir lokin og enn eitt frábært liðsmark kláraði leikinn endanlega. Jæja, hann var svo sem klár.

En.. vel gert, ekkert kæruleysi, frábær sóknarbolti á köflum, miðjan "átti" völlinn og vaktin var staðin í vörninni allan tímann.

Það er ekki sanngjarnt að taka einhverja leikmenn út, en fyrir 'gamlan' Blika er auðvitað gaman að sjá Elfar koma sterkan til baka.

Frábært fyrir Gísla að ná marki, sem ætti auðvitað ekki að skipa öllu eins og hann er búinn að vera að spila, en ég þykist nú vita að að það skipti samt máli.

Maður leiksins:

Og Sölvi með mark þriðja leikinn í röð, öll mjög 'fagmannlega' afgreidd.

En aðallega telur að sjá hversu breiður hópurinn er og þeir sem koma inn eiga fullt erindi. Tilfinningin er að það skipti ekki öllu máli hvaða leikmenn af þessum stóra hóp eru að spila, það eru allir tilbúnir. Þetta var öruggur og verðskuldaður sigur, en langt frá því að vera gefinn og fráleitt að afskrifa Leiknisliðið eða gefa sér fyrirfram að leikurinn væri unninn. Ég væri alveg til í að sjá þá áfram í efstu deild.

Valgarður Guðjónsson

Visir.is - Breiðablik vann 4-0 sigur á Leikni Reykjavík í Bestu deild karla í fótbolta;

image

https://youtu.be/MbeKTSa4KU0

Gefðu kost á þér í blikar.is liðið

Blikar.is er óháður stuðningsmannavefur meistaraflokka Breiðabliks og nú vantar okkur fleira fólk til að sjá um að setja inn efni og miðla því á samfélagsmiðlum blikar.is

Stuðningsmannavefurinn er mjög öflugur í allri fréttamiðlun á blikar.is vefnum og tengdum samfélagsmiðlum. Ef þú hefur áhuga á og tíma til að gefa kost á þér í þetta lið, þá sendu okkur endilega línu á blikar@blikar.is

Miðlarnir okkar eru:

www.blikar.is og www.blikar.is/kvk

Blikar.is á Facebook 

Blikar_is á Twitter

Blikar_is á Instagram

Blikahornið á Soundcloud

Nánar um Blikar.is hér og hér

Til baka