BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Fagmenn í banastuði

01.07.2023 image

Blikar mættu í kvöld ,,vinum“ sínum og góðkunningjum lögreglunnar, frá Buducnost í úrslitaleik forkeppni Meistardeildarinnar sem spilaður var hér á heimaslóð í vikunni sem nú er að líða.
Í boði fyrir sigurvegara kvöldsins var þátttaka í undankeppni Meistaradeildar Evrópu. Andstæðingar kvöldsins unnu öruggan 3-0 sigur á Andorramönnum og Blikar enn öruggari 7-1 sigur á Tre Penne frá San Marinó í undanúrslitum.

Mörgum er enn í fersku minni söguleg viðureign þessara liða á Kópavogsvelli í fyrra þar sem gestirnir settu á svið hálfgerða hópslysaæfingu sem svo var nefnd hér í þessum miðli og urðu sér til svo háborinnar skammar að þarlendir miðlar settu þá umsvifalaust í hakkavélina og töluðu um þjóðarskömm, grenjandi smákrakka og fleira í þeim dúr. Blessunarlega slógu okkar menn þá svo bara út. Það var því talsverð eftirvænting í loftinu þegar fólk trítlaði á völlinn í kvöld og spekulasjónir hvort yrði jafnheitt í kolunum nú. Það hellirigndi fyrir leik, en logn og fínasta veður þegar stytti upp og alveg gráupplagt fyrir knattspyrnu. Hélst svo að mestu þurrt allan leikinn. Hiti rétt um 10°C, sem telst nú bara gott þessar vikurnar. Áhorfendur voru 845 og hefðu að ósekju mátt vera fleiri.

Liðsskipan okkar manna í kvöld var sem hér segir:

image

Á slaginu 19:00 blés pólskur dómari leiksins í flautu sína og gestirnir hófu leikinn. Og okkar menn voru ekkert að tvínóna við hlutina því eftir aðeins 5 mínútur lá boltinn í neti gestanna. Blikar unnu boltann framarlega á vellinum og Kristinn óð áfram með boltann og sendi svo hárnákvæma sendingu til hægri á Viktor Karl sem þrumaði óverjandi í fjærhornið. Fast og niðri. 1-0. Það væri ofmælt að markið hafi legið í loftinu en eftir markið tóku Blikar öll völd á vellinum og örskömmu síðar átti Gísli góðan sprett inn á vítateig og var felldur. Dómarinn benti á vítapunktinn en fór svo og skoðaði þetta á VAR skjánum og breytti í dómarakast.

Buducnost menn komust í hálffæri en okkar menn náðu að bjarga á síðustu stundu eftir smá vesen í teignum. En það var stutt í næsta mark og það skoruðu Blikar. Gestirnir lentu í veseni eftir góða pressu okkar manna og Gísli sendi, að því er virtist misheppnaða sendingu, á Stefán, en einhvern veginn frussaðist boltinn alla leið á framherjann knáa og hann gerði sér lítið fyrir og þrumaði honum í fjærhornið. 2-0. Fastur, í hornið og niðri.

Gestirnir voru nú alveg heillum horfnir og sjálfum sér verstir og aðeins 5 mínútum síðar voru þeir að gaufa með boltann við eigin vítateig, þar sem Gísli kom og tók hann af þeim, sneri sér háfhring á tíeyringi  og sendi boltann með gullfallegu innanfótar skoti í stöng og inn. 3-0 og 28 mínútur á klukkunni.
Þetta gekk bara vel og hafi gestirnir verið slegnir yfir fyrri mörkunum tveim, var þeim öllum lokið núna og aðeins 5 mínútum seinna bættu Blikar við 4ða markinu. Stefán Ingi með góða sendinu úr vítateignum vinstra megin út á Höskuld, sem lék á einn og skaut svo þéttingsfast í nærhornið, út við stöng og óvejandi. 4-0, og nú var fagnað hressilega í stúkunni, enda ekki til heimildir um að Blikar hafi nokkru sinni tapað leik eftir að hafa náð fjögurra marka forystu. Þarna var orðið alveg ljóst að það yrðu Blikar sem færu áfram í Meistaradeildinni, spurningin aðeins hve sigurinn yrði stór. Okkar menn héldu hinsvegar ótrauðir áfram og létu gestina aldrei finna minnstu lykt á möguleika til að spilla kvöldinu. Héldu boltanum vel og voru fljótir að setja pressu á gestina þegar þeir höfðu boltann. Sem fyrir vikið var sjaldan lengi í einu.

Staðan í hálfleik 4 – 0 og það skal játað að það var framar vonum. Hálfleikskaffið rann því ljúflega niður og menn gerðu góðan róm að leik okkar manna. Góð frammistaða og ánægjulegt að sjá menn klára færin sín svona vel.

image

Gestirnir gerðu 3falda skiptingu í hálfleik og skyldi engan undra. Blikar með óbreytt lið. Og það fór einsog marga grunaði að gestirnir byrjuðu af nokkuð meiri krafti en í fyrri hálfleik. Sóttu ákaft il að byrja með og mest upp vinstri vænginn. Náðu í tvígang fyrirgjöfum sem hefðu getað orðið að veseni en sem fyrr stóðu okkar menn þetta af sér og smám saman náðu þeir góðri stjórn á leiknum á ný. Þegar tæpar 60 mínútur voru búnar prjónuðu Blikar sig laglega í gegnum vörn gestanna og Viktor Karl slapp einn í gegn en markvörður gestanna gerði vel í að verja. Stefán Ingi náði að krafsa í frákastið og náði skot á mark sem virtist (greinilega) fara í hönd leikmanns gestanna og dómarinn fór ekki í skjáinn að skoða og dæmdi horn. Skrýtin skepna þessi VAR dómgæsla.

Næstu mínútur var allt með kyrrum kjörum. Blikar svo sem ekki með nein læti en hleyptu gestunum hvorki lönd né strönd. 3föld skipting var næst tíðnda hjá okkar mönnum. Águst Eðvald kom inn fyrir Andra Rafn, Davíð inn fyrir Arnór og Jason inn fyrir Kristinn. Og skömmu síðar var hann aftur á. Lítil hætta virtist á ferðum en fyrir einhvern klaufagang misstu gestirnir boltann beint í fætur Jasonar og hann lét ekki bjóða sér það tvisvar heldur tók einhenti sér í 5. markið. Svei mér ef þetta var ekki fyrsta og önnur snerting hans við boltann. 5 -0…… Því bjóst enginn við.

Mörkin í leiknum:

Skömmu síðar gerðu Blikar enn breytingu. Klæmint kom inn fyrir Stefán Inga og var ekki annað að sjá en Stefán Ingi væri að kveðja félaga sín þegar hann fór af velli. Við óskum honum að sjálfsögðu góðs gengis í nýjum slóðum og væntum þess að hann verði landi og þjóð til sóma hér eftir sem hingað til og að Blikar hafi fengið vænan skilding í kassann. Áfram hélt leikurinn en án stórtíðinda. Anton Logi kom inn fyrir Oliver þegar 10 mínútur voru eftir og Blikar gerðu sig jafnvel líklega til að bæta við 6. Markinu. Það tókst ekki. En það reyndist hins vegar nægur tími fyrir leikmann gestanna til að ná sér í sitt annað gula spjald og þar með rautt.

View this post on Instagram

A post shared by Blikar.is / Íslandsmeistarar 2022 (@blikaris)

Skömmu síðar lauk þjáningum gestanna og Blikar fögnuðu sannfærandi stórsigri í leik sem fyrir fram var talinn geta dottið á hvorn veginn sem var þó óneitanlega væri okkur í hag að vera á heimavelli. Blikar léku vel í kvöld, allir sem einn og voru afar vinnusamir og grimmir. Kláruðu svo færin vel og voru tilbúnir í slaginn.

Markatalan 12 – 1 í þessum 2 leikjum og við erum bara kát með það og hlökkum til viðureigna við Shamrock Rovers frá Írlandi. Fyrri leikurinn fer fram í Dublin 11. júlí og síðari leikurinn verður svo á Kópavogsvelli 18. júlí. Svakalega verður þetta skemmtilegt.

En á þriðjudag tekur alvaran við á ný. Þá er leikur á Akureyri gegn KA í undanúrslitum bikarkeppni KSÍ. Leikurinn hefst 17:30, og vonandi verða okkar menn í góðu stuði þar.

Fjölmennum til Akureyrar og styðjum strákana!

Áfram Breiðablik !
OWK

Til baka