Feikileg skemmtun
06.05.2025


„Þetta verður opinn leikur. Bæði lið munu pressa stíft og við ætlum að vera þroskaðara liðið.“ Þetta sagði Halldór Árnason við okkur stuðningsmenn í Grænu stofunni fyrir leikinn á móti KR. Það gekk aldeilis eftir – að bæði lið pressuðu – og hann hefði alveg getað endað 6-6 eða 8-8.
Dóri sagði okkur líka hvernig hann ætlaði að stilla mannskapnum upp í byrjun leiks og flutti okkur þær gleðifréttir að Kristófer Ingi Kristinsson, sem skrýddist grænni treyju fyrst í hitteðfyrra, væri nú kominn í hóp eftir ferlegt meiðslabasl í vetur. Það reyndist aldeilis heppilegt.
Montréttur í húfi
Ég rétt heilsaði upp á son minn fyrir leik. Hann er uppalinn í röngum Vesturbæ og KR-ingur en viðureignir okkar manna verið montréttarleikir á heimilinu um árabil og KR-ingum gengið bara prýðilega í Kópavogsdalnum á síðustu árum. Af síðustu fimm hafa þeir unnið þrjá en skringilegan leik í fyrra unnum við 4-2. Luke nokkur Rea skoraði þá bæði mörk KR-inga. Hann var líka í stuði í kvöld.
Mynd: Feðgarnir Valur Páll og Eiríkur rétt áður en þeir héldu hvor í sinn enda stúkunnar.
Annars var byrjunarliðið hans Dóra ekkert óvænt:
Anton Ari í marki. Andri Rafn, Viktor Örn, Ásgeir Helgi og Valgeir mönnuðu varnarlínuna. Viktor Karl, Anton Logi og Höskuldur miðjuna. Óli Valur og Ágúst Orri kantana og Tobias frammi.
Breiðablik 2020 – KR 2025
Meðalaldur þessara gaura er 27 ár en Óskar Hrafn stillir jafnan upp mjög ungum mannskap og 24 ár var meðalaldur þeirra röndóttu í upphafi leiks. Þónokkrir okkar pilta hafa spilað það upplegg sem Óskar hefur á KR-ingunum í upphafi sumars; hlaupa eins og brjálæðingar og pressa hátt, eru talsvert opnir til baka með markamnninnn hátt og svo ferlega fljótir að snúa vörn í sókn þegar þeir vinna boltann. Hver man ekki eftir fyrsta sumri Óskars með Breiðablik, árið 2020, þegar Anton Ari spilaði nánast miðvörð sem mátti verja með höndum. Neglurnar á mér eru búnar að jafna sig eftir það spennusumar en ég er ennþá blóðþrýstingslyfjunum.
Okkar menn byrjuðu betur. Fengum færi strax á 2. mínútu og á 8. mínútu setti Tobias boltann í markið en rangstaða dæmd. En opið var þetta. Færi á báða bóga en þó það tækist ekki að skora í fyrri hálfleiknum virtist upplegg Dóra vera að ganga eftir; opið en okkar menn þroskaðari.
Það er í raun ótrúlegt að ekki skyldi hafa verið skorað í þessum fyrri hálfleik. Báðir markmenn stóðu sig með mikilli prýði, ekki síst Anton Ari þegar hann varði stórkostlega maður á móti manni undir lok hálfleiksins. Alison Becker hefði verið fullsæmdur af því framtaki.
„Etta fe nú-nú“ sagði einn félaginn með munninn fullan af Blikaklúbbspizzu í hálfleik. Það fannst mér nú ekki sennilegt og strax í byrjun seinni átti Anton Logi skot í slá og okkar menn urðu sífellt sennilegri. En viti menn, strax á eftir áttu KR-ingar frábært færi og svo mátti Anton Ari aftur taka á honum stóra sínum og blaka tuðrunni yfir eftir skot af svo stuttu færi að maður hélt það væri ómögulegt að komast fyrir það. Sjúkkett, enn einu sinni.
Mörkin sýna sig
Eftir tæpar tíu mínútur í seinni heppnaðist þetta loksins. Það var upp úr horni. Ég var einmitt að spá í að KR voru með tvo menn frammi þegar þeir vörðust horninu og svo líka að Tobias hefði nú ekki verið áberandi um hríð. Teiknar ekki Anton Logi tuðruna á ennið á Tobias sem afgreiðir hann af öryggi í netið. 1-0.

Hún var ekki síðri afgreiðslan í öðru markinu. Nett stunga inn fyrir háa vörn KR-inga á Tobias sem tók tvær sýningarsnertingar áður en hann vippaði boltanum ákaflega smekklega yfir markmanninn og 2-0 var þá staðan. Sléttur hálftími eftir.
Úpps (I did it again)
Blikar fara prýðilega af stað eftir markið og Óskar Hrafn sér að það vantar svolítið Breiðablik í hans lið og skiptir uppalda Blikanum Alexander Helga inn á miðjuna hjá sér. Þá fer aðeins að halla undan á fæti á miðjunni hjá okkur. Fleiri boltar tapast og heldur mikið reynt að koma boltanum aftur fyrir háa KR-vörnina. Frá 67. mínútu til þeirrar 81. skorar KR þrjú mörk. Fyrst var það Kópavogsbúinn af KR-ættunum, Eiður Gauti sem vann skallabaráttu í teignum, síðan Jóhannes Bjarnason Guðjónssonar eftir horn og svo Finnur Tómas, líka eftir horn. Þarna voru ungu mennirnir úr Frostaskjólinu búnir að skora á okkur þrjú mörk á 14 mínútum og bara níu mínútur eftir.
Frískur endasprettur
Eftir að KR-ingar jöfnuðu hafði Aron Bjarna komið inn til að fríska upp á en lentir undir gerði Dóri tvöfalda skiptingu og inn komu Kiddi Steindórs og Arnór Gauti. Heldur frískaðist leikur okkar manna og sæmilegar stöður hálffæri litu dagsins ljós. Inn á er skipti áðurnefndum, nýuppstignum Kristófer Inga og enn eflast okkar menn. Enn betri stöður og frábært skot frá Tobias sem er naumlega varið. Nett stunga kemur inn á Kristófer, ekki ósvipuð sendingunni sem Tobias nýtti til að skora annað markið úr. Fokk! Rangstaða dæmd. Mínútu síðar – og nú komið fram í uppbótartíma – önnur nett stunga á Kristófer. Hann stingur vörnina af, leggur hann fyrir sig með vinstri og klárar með hægri. 3-3.

Þau andartök sem eftir lifðu leiksins dugðu svo hvoru liði til að fá eitt fínt færi hvort en það var varla á þetta bætandi enda spenningurinn slíkur að vallarstarfsmenn voru farnir að svipast um eftir hjartastuðtækjunum.
3-3 var niðurstaðan í einhverjum bráðfjörugasta leik sem sést hefur í efstu deild. Okkar menn eru á toppnum eftir umferðina ásamt Víkingi og Vestra. Öll liðin eru með 10 stig. Breiðablik og Víkingur hafa skorað jafnmörk mörk, 10 talsins. Víkingar hafa fengið á sig fjögur en við átta og þau hafa öll nema eitt komið á stuttum slæmum köflum í tveimur leikjum. Það þarf að bæta.
Engin lína
Þar sem bæði liðin pressuðu á andstæðinga um allan völl var þetta talsverður snertingaleikur og kannski ekkert auðveldur að dæma. „Dómarinn er fullur,“ hrópuðu nokkrir krakkar í grennd við mig í stúkunni þegar þeim ofbuðu einhver undanlegheitin í dómgæslunni. Þó ég sé viss um að Jóhann Ingi hefði getað gengið eftir beinni línu í kvöld þá gat ekki dæmt eftir neinni línu. Það hefði trúlega ekkert komið verr út ef tengingi hefði verið kastað upp á það hvort þetta atvikið eða hitt var brot eða ekki. Augljós leikaraskapur endaði í spjaldi á þann „brotlega.“ Leikurinn hefði ekki unnist held ég með betri dómgæslu en það hallaði samt á okkar menn, sérstaklega í spjaldaútbýtingum, og ef til vill voru einhverjir að beita sér minna en ella vegna þess.
Það má þó beita sér á fullu í næsta leik. Hann er fyrir norðan á móti KA sunnudaginn 11. maí. Úrslit leikja á þessu Íslandsmóti eru minna fyrirsjáanleg en oft áður. Það er nánast eins og maður sé að fylgjast með bikarkeppni frekar en deildarkeppni. Andstæðingar okkar í kvöld eru eina taplausa liðið í deildinni en hefur bara unnið einn í fyrstu fimm umferðunum. Það er kunnuglegt að hafa Víkinga við hlið okkar manna á toppnum en Vestri er þar líka, sem síðast sótti traustan sigur í Eyjum. KA er á botninum en guð forði okkur frá því að taka einhverju gefnu fyrir norðan.
Síðari leikurinn við KR í hefðbundinni deildarkeppni verður ekki fyrr en helgina fyrir Verslunarmannahelgi. Það er eins og gott að sá þroskaðari okkar feðga fái þá montréttinn.
EHj