FRUMSTIG OG ÍTÖLSK UPPHRÓPUN
24.10.2025
Þann þrítugasta mars árið 2005 sóttu Íslendingar Ítali heim í vináttulandsleik í Padova. Tíðindamaður blikar.is var að sjálfsögðu mættur þarna fyrir tuttugu árum til að fylgjast með hugsanlegum framtíðarþjálfara karlaliðs Breiðbliks, Ólafi Inga Skúlasyni, og hafði gert sér sérstaka ferð þangað frá Bologna sem er í um 130 kílómetra fjarlægð. Ekki var talið ólíklegt að Ólafur Ingi tæki þar þátt í sínum öðrum landsleik. Og jú, það stóð heima – honum var skipt inn á fyrir Hannes Þ. Sigurðsson þegar 82 mínútur stóðu á klukkunni en tveimur mínútum áður hafði Kári Árnason fengið rautt spjald. Það sem vakti athygli tíðindamannsins var að fjölmargir áhorfendur á leiknum ráku upp mikinn hlátur þegar tilkynnt var að leikmaður að nafni Skúlason væri að koma inn á. Hvernig stóð á þessu? Nánar um það síðar.
Finnar úr öllum áttum
Fimmtudaginn 23. október stýrði Ólafur Ingi Skúlason Blikum í sínum fyrsta leik eftir að hafa tekið við sem þjálfari af Halldóri Árnasyni á mánudagsmorgni. Honum gafst því skammur tími til að setja mark sitt á liðið. Liðsuppstillingin á Laugardalsvelli var enda kunnugleg: Anton Ari í markinu en útileikmenn Valgeir, Viktor Örn, Damir, Kristinn Jónsson, Viktor Karl, Höskuldur, Arnór Gauti, Ágúst Orri, Davíð og Tobias.
En hverjir voru andstæðingarnir í þessum öðrum leik okkar manna í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar? Forstöðumaður greiningardeildar Blikar.is hafði lagst yfir gögnin (hann er fyrrum útvarpsmaður og gengur gjarnan með hatt). Samkvæmt rannsóknum hans er liðið Kups í eigu formanns finnska knattspyrnusambandsins og heimavöllurinn er ennþá norðar en Tampere (vinabær Kópavogs), um 400 kílómetra norðan við Helsinki. Í liðinu eru margir leikmenn frá Afríku, sagði rannsóknarblaðamaðurinn. Einn Ganverji hóf leikinn hjá Finnunum (hann var reyndar óþarflega fljótur bakvörður) og annar frá Fílabeinsströndinni og í hálfleik kom annar Ganverji inn á, ásamt Gíneu-manni sem reyndar átti eftir að koma við sögu undir lok leiks eins og nánar greinir síðar. Að auki hóf Brasilíumaður leikinn, einn frá Austurríki og annar pólskur.
Gamall húsgangur
Miðað við þessa fjölþjóðlegu liðsskipan var ekki gott að segja hvort veðrið hentaði gestunum vel eða illa. Mælitæki tíðindamannsins sögðu að það væri eins stigs hiti en það þýddi í raun fjögurra stiga frost í hægum andvaranum. Það var engu logið um það.
Blikar lutu í lægra haldi fyrir Lausanne í Sviss í fyrstu umferð. Kups gerði 1-1 jafntefli við Drita frá Kósóvó á heimavelli.
Blikar hófu leikinn af krafti og virtust ætla að taka öll völd á vellinum. Hins vegar voru það gestirnir sem fengu fyrsta færið – þeir áttu stórhættulegt skot eftir þrjár mínútur. Við það rifjaðist upp gamall húsgangur fyrir tíðindamanni síðunnar:
Klikki vörn á stöku stað
og ströng er sókn og of löng
– þá er þarft að eiga að
eina góða nærstöng.
Markmaður í vitlaust horn
Blikar létu það ekki á sig fá þótt þarna hefði hurð skollið nærri hælum og áttu margar álitlegar sóknir; Tobias reif af sér hanskana eftir 18 mínútur, Anton varði tvisvar vel, sá danski átti skalla ofan á þaknetið, Höskuldur dansaði með boltann í teig Finnanna en það endaði í horni og loks átti Davíð hörkuskot af markteigshorni sem var varið.
Blikar voru því nokkuð brattir í hálfleik. Viðstöddum fannst okkar menn eiga í fullu tré við gestina – væru sterkari, ef eitthvað væri – og þetta liti aldeilis vel út.
Síðari hálfleikur hófst eins og þeim fyrri lauk – Blikar meira með boltann og hættulegri en gestirnir. Á 56. mínútu gaf Höskuldur fyrir en boltinn fór í hönd varnarmanns og víti réttilega dæmt. Fyrirliðinn sendi markmanninn í vitlaust horn en renndi boltanum framhjá stönginni hinum megin. Staðan var því enn jöfn. Þorleifur Úlfarsson leysti Tobias af hólmi eftir 59 mínútur og lét strax til sín taka. Hann átti t.d. skalla af stuttu færi mínútu síðar sem var varinn.
Rautt spjald
Léttleikandi Blikar voru með öll völd á vellinum. Ólafur Ingi skipti Kristni Steindórs, Óla Val og Aroni inn fyrir Ágúst Orra, Viktor Karl og Davíð eftir 70 mínútna leik. Áfram sóttu Blikar en gestirnir áttu vissulega sín augnablik, fengu horn og innköst, án þess að sérstök hætta skapaðist við mark okkar manna. Aftur á móti gerðist það í uppbótartíma að Kristinn Jónsson brunaði upp völlinn eftir mislukkað horn þeirra finnsku en var þrumaður niður þegar hann var kominn einn í gegn (að vísu á miðjum vallarhelmingi gestanna). Fyrrnefndur Gíneumaður sem kom inn á í hálfleik var umsvifalaust sendur í sturtu. Þorleifur átti skalla að marki í blálokin en lengra komust Blikar ekki og markalaust jafntefli niðurstaðan.
Sculasson!
Komum við þá aftur að hlátri hinna ítölsku áhorfenda fyrir tuttugu árum. Ítalirnir höfðu eitthvað misskilið uppleggið og héldu að vináttuleikur ætti eitthvað skylt við vináttu. Íslenska liðið mætti heimamönnum af fullri hörku – sem skýrir kannski rauða spjaldið sem Kári fékk – og héldu jöfnu í markalausum leik. Ítölunum hefði því ekki átt að vera hlátur í huga þegar Ólafur Ingi Skúlason var kynntur til leiks. Ástæðan var ekki sú að hann var á mála hjá Arsenal á þessum tíma heldur að „sculasson“ er upphrópun af allra alþýðlegasta tagi, samkvæmt ítölskuráðgjafa tíðindamannsins sem var einmitt á vellinum forðum. Þótt uppruninn sé mjög grófur getur merkingin verið jákvæð: „Sculasson hvað þú stóðst þig vel!“ Bókstaflega er þetta upphrópun sem þýðir stórt graftarkýli (scolo) og mætti þýða sem „skrambakornið“. Og þannig leið manni eiginlega eftir að Blikar höfðu fengið fyrsta stigið í deildarkeppni Sambandsdeildar Evrópu, þótt þeir hefðu verið grátlega nærri því að hirða öll þrjú. Þeir virkuðu beinskeyttari og skarpari, boltinn gekk hraðar á milli manna en að undanförnu og allir voru á tánum. Svo er það mikið gleðiefni að frumstigið í deildarkeppninni skuli vera komið í hús.
Næsti leikur er ekki síður mikilvægur. Á sunnudaginn mætir Breiðablik Stjörnunni í Garðabæ í hreinum úrslitaleik um sæti í Evrópukeppni að ári. Þangað skulum við fjölmenna og hvetja okkar menn til dáða og vonandi getum við sagt í leikslok: Sculasson hvað menn stóðu sig vel!
PMÓ