BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Tyrkjaránið hið síðara!

05.08.2022 image

Sumarið 1627 komu tvö erlend ræningjaskip upp að ströndum Íslands og rændu og rupluðu í Grindavík, Vestmannaeyjum og á Austfjörðum. Talið er að tæplega 400 Íslendingar hafi verið teknir höndum og seldir sem þrældóm á erlendum mörkuðum. Í gær kom tyrkneska liðið Istanbul Basaksehir á Kópavogsvelli og rændi þremur stigum í Sambandsdeild Evrópu í knattspyrnu. Hafa sumir íþróttaskríbentar viljað tala um Tyrkjaránið hið síðara í þessu samhengi. Það er hins vegar ekki alveg sanngjarn samanburður því erlendu sjóræningarnir árið 1627 voru alls ekki frá Tyrklandi heldur Alsír og Marokkó. Þar að auki er talið að foringi þeirra hafi verið Hollendingur. Tyrkjum hefur því að ósekju verið kennt um einn frægasta atburð Íslandssögunnar.

image

En þá að leiknum sem sannarlega þvottekta Tyrkir komu við sögu í. 1:3 sigur gestanna var alls ekki sanngjarn og úrslitin gefa ekki rétt mynd af leiknum. Það má því með góðum rökum færa rök fyrir að þetta hafi verið sannkallað Tyrkjarán.  Blikaliðið spilaði fínan fótbolta og sýndi mikið hugrekki í sínu leikskipulagi. En gegn jafn sterku liði og Basaksehir þá má ekki gera ein einustu mistök og andartaks einbeitingarleysi varð Blikaliðinu að falli að þessu sinni. En þessi leikur sýnir samt hve Blikaliðinu hefur farið fram í knattspyrnu og með smá heppni hefðum við náð í hagstæðari úrslit en raun bar vitni.

Hafa verður í huga að þetta tyrkneska lið er stórveldi. Það er í 65. sæti yfir sterkustu lið í Evrópu en til samanburðar er Breiðablik í 285. sæti.  Blikastrákarnir eiga hrós skilið fyrir þennan leik í gær. Leikmennirnir lögðu líf og sál í leikinn og hlupu gríðarlega allan leikinn. Boltinn flaut vel og áttum við í fullu tré við tyrknesku stórstjörnunar. En heppnin var ekki með okkur í gær en leikurinn fer samt í reynslubankann víðfræga. Mark Viktors Karls Einarssonar eftir frábæran undirbúning Kristins Steindórssonar mun til dæmis verða minnst í Blikaannálum um ókomna tíð. Einnig stórkostlegur sprettur Ísaks Snæs Þorvaldssonar í síðari hálfleik þrátt fyrir að hann hafi ekki gefið mark.

Strax eftir Tyrkjaránið hið fyrra fóru Íslendingar að skrifa um það og eru miklar heimildir til um þessi stórtíðindi. Tyrkjaránið var álitið refsing guðs fyrir syndugt líferni og reyndu lærðir menn að draga lærdóm af hörmungunum. „Guð leggur krossinn upp á til þess að hans blessaða nafn verði lofað og prísað,“ skrifaði séra Ólafur Egilsson prestur í Vestmannaeyjum sem var einn þeirra Íslendinga sem hnepptur var í ánauð. Guðbrandur biskup Vigfússon gaf út bænabók þar sem beðið var um hjálp og styrk "...á móti þeim grimma týranna og alls kristindóms höfuðóvin Tyrkjanum, og öðrum hans mökum; hindra hans ráð og illan ásetning..."

Ekki er víst að séra Guðni Már Harðarson prestur í Lindakirkju sem er mikill knattspyrnuaðdáandi og aðrir kollegar hans í Kópavogi muni minnast á árangur Blikaliðsins í stólræðu á sunnudaginn. Einn þekktasti stuðningsmaður Breiðabliks rappkóngur Íslands, Blaz Roca, mætti á leikinn í gær og það væri hugsanlega ráð að fá hann til að semja drápu um baráttu Blikaliðsins í gær.

image

Hvað sem öðru líður þá veitir okkur ekki af öllum þeim stuðningi sem við getum fengið fyrir síðari leik liðanna í Istanbul eftir viku. En ef strákarnir sýna jafn mikið hugrekki á vellinum og í gær þá er engu að kvíða.

Ekki er úr vegi að enda þessa frásögn á tilvitnun í Reisubók Guðríðar Símonardóttur en þar skrifar hún "En það sem ég tala um mína aumu æfi, er hið fyrst að ég hjari, einkum fyrir Guðs náð og sérlega velgerninga, verandi hér í Barbarie …. hvað mig gerði að hryggja og gleðja og undir þessu Drottins maklega álagða hrísi og krossins þunga hryggist ég og særist daglega, að vita hann í þvílíkri neyð og háska, sem oss er uppá lagt vegna vorra synda".

Þessi áhrínisorð fylgja Blikaliðinu í seinni leikinn eftir. En í millitíðinni verða Blikar að skipta um hatt og einbeita sér að erfiðum leik gegn Stjörnunni í Bestudeildinni í Garðabæ á sunnudagskvöldið. Allar góðar vættir munu fylgja strákunum okkar í þeim leik og með góðum stuðningi áhorfenda er engu að kvíða!

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

-AP

Mörin úr leiknum í boði visir.is:

Myndaveisla í boði Blikar.TV: 

image

Til baka