Getum borið höfuðið hátt!
19.12.2025
Stákarnir okkar geta borið höfuðið hátt þrátt fyrir 3:1 tap gegn sterku liði FC Strasbourg í lokaleik Sambandsdeildarinnar í Frakklandi í gær. Þegar upp var staðið þá var tveggja marka sigur Frakkanna staðreynd en Blikar áttu skot í stöng og slá og með smá heppni hefðu úrslitin getað orðið öðruvísi. Við endum deildina hins vegar með fimm stig, fyrsta sigur okkar í deildarkeppni Evrópu og við skildum sterk lið eins og Hacken, Rapid Vien og Aberdeen fyrir aftan okkur.
Eins og í nokkrum öðrum útileikjum í keppninni þá var einhver hrollur í okkar piltum í byrjun leiks. Hið stjörnum prýdda alþjóðalið Frakkanna hóf leikinn með mikilli pressu og áttum við í mesta basli að halda knettinum innan liðsins. Það kom því ekki sérstaklega á óvart að heimaliðið komst yfir strax á tíundu mínútu leiksins. Fór þá um stuðningsmenn Blika, bæði innanlands og utan, og slæmar minningar frá Lausanne og Mostarleikjunum í sumar dúkkuðu upp.
En sem betur fer héldu Blikastrákarnir haus. Smám saman fór landið að rísa og við fórum að sækja á Alsacebúana. Á 26. mínútu átti Arnór Gauti Jónsson þrumuskot að marki gestanna en tveggja metra sláninn í markinu skutlaði sér eins og köttur upp í vinkilinn og varði knöttinn meistaralega í horn. Skömmu síðar átti hinn síungi Andri Rafn Yeoman þrumuskot langt utan af velli en heppnin var ekki með okkur því knötturinn small í stönginni.
Annar sí-ungur leikmaður, Kristinn Jónsson, tók þá til sinna ráða.Kantmaður franska liðsins ætlaði í hroka sínum að klobba okkar mann úti á kantinum en komst hvorki lönd né strönd. Kristinn stal knettinum af honum og geystist upp kantinn. Náði góðri fyrirgjöf sem #minn fyrirliði Höskuldur Gunnlaugsson skilaði í netið með bylmingsskoti. Fögnuðu þá allir góðir menn en þögn slóg á frönsku stuðningsmennina sem höfðu verið mjög kátir og glaðir fram að því. Staðan því 1:1 og var þannig þegar bæði lið gengu til búningsherbergjanna.
Frakkar byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti og skoruðu strax á upphafsmínútum hálfleiksins. En sem betur fer var markið dæmt af vegna rangstöðu. Yfirburðir heimapilta voru töluverðir en vörnin okkar með Anton Ara og Damír fremsta í flokki stóð þetta allt af sér þar til á 80. mínútu. Þá var farið að draga ansi mikið af okkur piltum og því fór sem fór. Undir lokin hentum við öllu fram til að reyna að jafna leikinn. Varamaðurinn Aron Bjarnason komst þar næst þegar þrumuskot hans small í slá Strasbourgarliðsins. Á lokaandartökum leiksins komust þeir fjólubláu í skyndisókn og settu eitt ferlaga ljótt mark í lokin.
Hetjulega barátta Blika allan leikinn skilaði því miður ekki stigi eða stigum að þessu sinni. En við getum verið stolt af frammistöðu okkar pilta í þessari keppni. Liðið sýndi á köflum frábæra takta og greinilegt að nýr þjálfari liðsins, Ólafur Ingi Skúlason, er á réttri leið með mannskapinn. Nú tekur við langþráð frí hjá flestum leikmönnum liðsins eftir langt og strangt tímabil.
Blikaliðið hefur æfingar á nýjan leik sem heild í byrjun febrúar. En í janúar verða hins vegar æfingar fyrir yngri og óreyndari leikmenn liðsins. Þá gefst mönnum tækifæri að sýna sig og sanna og verður gaman að sjá hvort við sjáum ung-Blika í liðinu næsta sumar.
Þrátt fyrir að við munum ekki spila í Evrópukeppni næsta sumar þá gefst okkur tækifæri til að beinbeita okkur að deildinni og bikarnum. Þessir haustleikir gefa sterkar vísbendingar að Blikaliðið komi geysisterkt til leiks á næsta keppnistímabili. Það verður því gaman að vera Bliki næsta sumar!
Áfram Blikar- alla leið
AP