Grænir og glaðir!
06.10.2025


Blikar unnu mjög góðan 3:1 sigur á Fram í úrslitakeppni efri hluta Bestu deildarinnar á Kópavogsvelli í gær. Með þessum sigri settum við góða pressu á liðin fyrir ofan okkur í keppni um Evrópusæti á næsta tímabili. Næsti leikur er gegn Íslandsmeisturum Víkings á Kópavogsvelli og þar er allt undir!
Á margan hátt má segja að þetta hafi verið einn besti hálfleikur Blikaliðsins í sumar. Gestirnir úr Úlfarsárdalnum vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar sóknir heimaliðsins dundu á þeim hver á fætur annarri. Knettinum var leikið hratt á milli manna og vissu þeir bláklæddu stundum ekki hvort þeir væru að koma eða fara. Höskuldur fyrirliði átti flottan skalla í þverslá strax á þriðju mínútu og aðeins mínútur síðar höfðu við náð forystunni. Kiddi Jóns renndi sér upp kantinn eins og hann gerði oft í leiknum og sendi þéttingsfast inn í teiginn. Þar reyndi einn Framarinn í örvæntingu að setja fótinn fyrir boltann en sem betur fer fyrir okkur skilaði það sér í fallegum bogabolta inn í mark gestanna.
Áfram héldum við að þjarma að heimapiltum og á 22. mínútu skilaði það sér í góðu marki frá fyrirliðanum. Eftir vandræðagang í vörninni vippaði Höskuldur knettinum léttilega frá hægri fæti yfir á þann vinstri og setti tuðruna í mark Framara með þéttingsföstu skoti rétt fyrir utan vítateig. Glöddust þá allir góðir menn í stúkunni!
En skömmu fyrir leikhlé urðu varnarmenn okkar fyrir því óláni að tala ekki saman og einn Framarinn renndi sér í gegnum vörnina og skoraði auðveldlega. Þetta var svo gersamlega gegn gangi leiksins en knattspyrnan er grimm íþrótt. Smá taugatitrings tók að gæta í Blikaliðinu við þessi tíðindi og gestirnir hófu að þjarma að okkur. En sem getur skriplaði varnarmaður Framara á skötu og dæmd var aukaspyrna á hann þegar hann felldi Ágúst Þorsteinsson. Kiddi Jóns tók spyrnuna og með góðu snókerskoti setti hann knöttinn í varnarvegginn og ruglaði þar með markvörðinn. Boltinn sveif í öfugt horn og staðan orðin 3:1 fyrir okkur.
Seinni hálfleikur var mun tíðindaminni. Okkar piltar gáfu nokkuð eftir og Framarar settu nokkrum sinnum töluverða pressu á vörnina. En sem betur var Anton Ari í stuði og kom i veg fyrir að þeir bláklæddu næðu að minnka muninn. Greinilegt var að nokkur þreyta var í Blikaliðinu eftir Evrópuleikinn í Sviss og sást það í seinni hálfleik. En sem betur fer fáum við góða landsleikjapásu og þá ætti að vera hægt að stilla Blikaliðið af fyrir leikinn þýðingamikla gegn Íslandsmeisturum Víkings á Kópavogsvelli laugardaginn 18. október.
Í lokin er vert að geta þess að allir góðir Blikar fagna því að við spiluðum loksins í rétta græna og hvíta keppnisbúning félagsins! Liðið hefur verið í mikilli kakafóníu að undanförnu varðandi notkun á keppnisbúningnum. Keppnisbúningur er hluti af ímynd félagsins og það á ekki að rugla mikið í því vegna þess að í ímynd liggja verðmæti. Auðvitað geta komið aðstæður þar sem við verðum að rótera eitthvað þegar við spilum á útivelli en almenna reglan á að vera sú að við spilum í löglegum keppnislitum félagsins sem við höfum tilkynnt inn til KSÍ! Og ekki orð um það meir!
Áfram Blikar – alla leið!
-AP