BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Hark í blíðunni

04.07.2025 image

Það var sumarkvöld eins og þau gerast best þegar Blikar heimsóttu nýliða Aftureldingar að Varmá í Bestu deildinni. Blikar með góðan sigur á Stjörnunni í síðasta leik en Afturelding laut í gras í Víkinni í hörkuleik þar sem þeir voru síst lakari aðilinn. En sem fyrr eru það mörkin sem telja. Það var nánast logn, sól skein á vesturloftinu og hitinn vel ásættanlegur, eða um 13 celsíus gráður. Slatti af fólki á vellinum en greinilega kominn sumarferðalagatími. Þó nokkuð margir Blikar mættir til að styðja sína menn með Jökulinn í broddi fylkingar.

Byrjunarlið okkar manna var á þessa leið og aðeins ein breyting frá síðasta leik en Tobias kom aftur inn í byrjunarliðið;

1 Anton Ari Einarsson(M) – 4 Ásgeir Helgi Orrason - 6 Arnór Gauti Jónsson - 8 Viktor Karl Einarsson(F) - 9 Óli Valur Ómarsson - 10 Kristinn Steindórsson - 15 Ágúst Orri Þorsteinsson - 17 Valgeir Valgeirsson - 21 Viktor Örn Margeirsson - 30 Andri Rafn Yeoman - 77 Tobias Bendix Thomsen.

Höskuldur enn í leikbanni og Anton Logi sömuleiðis en hann fékk leikbann eftir Stjörnuleikinn.

Blikar hófu leikinn af krafti og heimamenn sömuleiðis og boltinn gekk enda á milli á víxl. Andri Rafn fékk snemma til tevatnsins hjá leikmanni #10 sem tæklaði hann groddalega í tvígang en ekkert dæmt og þaðan af síður gefið spjald. Nú en til að gera langa sögu stutta þá voru það Blikar sem skoruðu fyrsta mark leiksins eftir nokkra pressu okkar manna eftir hornspyrnu. Boltinn barst út til Óla Vals sem sneri laglega á varnarmann gestanna við vítateigshornið og náði góðu skoti sem stefndi framhjá fjærstönginni en lagðist svo með fallegum snúningi í marknetið, alveg út við stöng. Óverjandi fyrir markmanninn, þó langur sé. Blikar komnir yfir eftir 7 mínútna leik, 1-0.

image

Andstæðingarnir virtust slegnir út af laginu og okkar menn nýttu það og héldu nú gestgjöfunum meira og minna í ágætri pressu við eigin vítateig. Svo fékk Arnór Gauti spjald eftir samstuð, kannski verðskuldað en örskömmu síðar fékk Andri Rafn enn og aftur spark og nú þurfti hann að yfirgefa völlinn og í hans stað kom Gabríel Snær. Óskiljanlegt að leikmaðurinn sem braut ítrekað á Andra hafi ekki fengið a.m.k. gult. Sparkaði hann út úr leiknum á korteri. Svei því.   

Áfram hélt leikurinn og bæði lið áttu sína spretti en Blikar líklegri og eftir að hafa fengið nokkrar hornspyrnur sem lítið kom út úr fengu Blikar loks eina sem gaf. Kristinn Steindórs tók stutt á Valgeir sem sendi fastan bolta á nær stöng. Þar kom Ásgeir Helgi á ferðinni og sneiddi boltann og hann endaði í fjærhorninu. 2-0 fyrir Blika.

image

Á þessum tímapunkti voru okkar menn með öll tök á leiknum. En heimamenn gáfust ekki upp. Og þeir uppskáru. Blikar voru að gaufa með boltann á eigin vallarhelmingi og svo kom sending á engan sérstakan og heimamenn náðu boltanum og geystust fram, Blikar náðu að standa áhlaupið af sér, en aðeins í bili því þeir misstu hann strax aftur á eigin vallarhelmingi og boltann barst út til hægri þar sem leikmaður Aftureldingar tók við og sendi hann rakleitt yfir á fjærstöngina. Þar kom félagi hans á fleygiferð fyrir aftan varnarmenn okkar og stangaði boltann af afli í netið. ,,Easy goal at the far post“ er stundum haft á orði, og þarna fengum við svo sannarlega að kenna á því. Þetta er þeirra beittasta vopn.
Það var svo sannarlega óbragð í munni Blika þegar flautað var til leikhlés. Búnir að hleypa heimamönnum inn í leikinn með einskærum skorti á einbeitingu. Tapa boltanum í tvígang í aðdraganda marksins og vera svo ekki með manninn á fjærstönginni dekkaðan. Kommon!   

Menn voru svo fúlir í hálfleik að þeir báru sig ekki einu sinni eftir kaffi.
Heimamenn eru nýliðar í efstu deild en eru greinilega fljótir að læra. En það verður að segjast að sú nesjamennska sem þeir stunduðu í hálfleik, og hafa hermt þetta eftir „Vali“ og Stjörnunni, er þeim ekki til sóma. Bara lítil félög gera þetta. Þeir vökvuðu sem sagt eingöngu eigin sóknarhelming í hálfleik. Aumkunarvert skítabix og þeir ættu að hætta þessu.

Hafi endirinn á fyrri hálfeik verið dapur, var upphafið á þeim seinni eiginlega verra. Innan 2ja mínútna voru heimamenn búnir að jafna. Og aftur var það maður á fjær stöng sem jafnaði. Og í þetta sinn var það okkar gamli félagi Benjamin Stokke sem refsaði sofandi Blikum eftir skyndisókn. En ekki vöknuðu menn við þetta og næstu 25 mínúturnar voru okkar menn í nauðvörn, meira og minna, og gerðu kannski bara vel að lenda ekki 1-2 mörkum undir. Voru undir í öllum návígjum og klafsi, hirtu nánast enga seinni bolta og voru bara undir á öllum sviðum.  Sem sagt ekki sjálfum sér líkir.
Áfram hélt barningurinn en okkar menn hresstust þó heldur. Náðu í tví- eða þrígang góðu spili en flaggið á loft jafnharðan. Kristófer og Kristinn Jóns komu inn fyrir Óla Val og Valgeir og Blikar hertu tökin en færin létu á sér standa. Heimamenn áttu líka sína spretti en þeir voru nú orðnir færri og lengra á milli þeirra en framan af hálfleiknum. Aron kom svo inn fyrir Kristinn Steindórs og það sem eftir var lágu Blikar á heimamönnum en náðu þó ekki að gera sér mat úr nokkrum álitlegum stöðum. Hinumegin áttu gestirnir hættulegasta færi lokakaflans en Anton Ari reyndist vandanum vaxin og varði mjög vel, í uppbótartíma, og fleiri urðu mörkin ekki.

Niðurstaðan 2-2 jafntefli og Blikar fóru súrir heim en sennilega voru þetta sanngjörn úrslit eftir að okkar menn höfðu náð vænlegri stöðu sem þeir glutruðu niður á örfáum mínútum. Þetta var svona leikur þar sem maður hafði langtímum saman á tilfinningunna að okkar menn væru í fjötrum. Voru seinir í alla bolta, linir í návígjum, sérstaklega framan af seinni hálfleik, og bara of margir ekki ,,á deginum sínum“, eins og stundum er sagt. Virkaði eins og skortur á einbeitingu hjá liðinu.
En það er ekki tími til að dvelja við það því nú er stutt í næsta leik. Blikar á leið til Albaníu, og eiga leik þar ytra n.k. þriðjudag gegn Egnatia í 1.umferð Meistaradeildarinnar.

Ég er sannfærður um að þar verði þeir einbeittir og í góðu stuði.

Áfram Breiðablik!

OWK.

Til baka