Höskuldur stjarnan annan leikinn í röð!
30.04.2025


Mikil er gæfa okkar félags að eiga menn eins og Höskuld Gunnlaugsson! Enn einn leikinn stígur hann upp og skorar sigurmark á ögurstundu. Fórnarlambið að þessu sinni var frískt Vestralið sem lét okkur Blika svo sannarlega hafa fyrir hlutunum. Þrátt fyrir að Höskuldur sé mikilvægur þá má ekki gleyma öðrum leikmönnum. Viktor Karl sýndi snilldartilþrif þegar hann klobbaði varnarmann Vestra og sendi svo hárnákvæma sendingu fyrir markið þar sem fyrirliðinn okkar sendi knöttinn í netið með fastri innanfótarspyrnu 0:1. Þetta reyndist sigurmarkið, fyrsta tap Vestra á þessu tímabili staðreynd og stigin þrjú fóru í Kópavoginn.

Pistlahöfundur átti ekki heimangengt vestur vegna barnfóstruhlutverks en greip þá til þess ráðs að hjóla úr Kópavoginum yfir á Reykjavíkurflugvöll til að kveðja liðið eldsnemma á sunnudagsmorguninn. Þetta er gamalt trix sem undirritaður lærði af stórBlikanum Ólafi Björnssyni sem í mörg ár mætti út á flugvöll til að blessa mannskapinn áður en flogið var annað hvort vestur, austur, suður eða norður. Það heppnaðist yfirleitt vel og stigin komu nánast án undantekninga með í flugvélinni til baka. Ekki ætlar þó undirritaður að reyna að fara í skó þessa merka Blika enda ferillinn glæsilegur.
Létt var yfir mannskapnum út á flugvelli. Reynsluboltarnir Höskuldur, Kiddi Steindórs og Viktor Örn sátu saman við borð og báru saman bækur um ungbarnableyjur og eyrnarbólguvesen. Æskulýðsborðið með þá Ásgeir Orra, Ágúst Þorsteinsson, Dag Fjeldsted, Viktor Elmar, Gabríel Snæ og Gunnleif Orra innanborðs ræddu hins vegar um nýjustu TikTok myndböndin og hvað væri að gerast í skemmtanalífinu á Íslandi. Þjálfararnir Halldór og Arnór fylgdust með hópnum vökulum augum og greinilegt að mikið var að brjótast um í kollinum á þeim. Ekki tókst að draga upp úr mannskapnum hvernig byrjunarliðið ætti að vera en þó var ljóst að eitthvað yrði hreyft við liðsuppstillingunni.
Nokkur mótvindur var við Fossvoginn en samt var hjólhesturinn fljótur í förum yfir á Kársnesið. Það var gott að skella sér í sturtu og setja síðan fyrir fram sjónvarpið. Áran var góð yfir Blikaliðinu á flugvellinum og það reyndist síðan líka raunin þegar vestur var komið. Blikar tóku strax öll völd á vellinum en Vestraliðið sýndi samt að það var í sjálfu sér engin tilviljun að þeir voru efstir í deildinni þegar umferðin hófst. Þeir spila skipulagðan varnarleik með snögga og fljóta menn fram á við. Ekki er ætlunin í þessum pistli að rekja gang mála í leiknum sjálfum enda margir aðlir miðlar búnir að gera því góð skil.
Hrósa verður öllu Blikaliðinu fyrir þennan leik. Sérstaklega er ánægjulegt að fylgjast með góðri samvinnu Viktors Arnars og hins unga og efnilega Ásgeirs Helga í miðju varnarinnar. Við erum komnir á kunnuglegar slóðir á topp deildarinnar en okkar býður krefjandi verkefni. Spútniklið deildarinnar, KR, kemur í Kópavoginn á mánudaginn kl.19.15. Það verður eitthvað!
Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!
AP