BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Hola!

31.07.2024 image

Blikar héldu galvaskir til Kosovó í seinni leikinn gegn Drita í undankeppni Sambandsdeildarinnar. Eftir neyðarlegt tap í fyrri leiknum á heimavelli var ljóst að það yrði á brattann að sækja fyrir okkar menn. Andstæðingarnir sýndu svo um munaði á fyrsta hálftímanum í Kópavogi að þeir eru sýnd veiði en ekki gefinn og tilbúnir að refsa. Sami leikur gaf líka til kynna að ef Blikar næðu upp sínu eðlilega spili og ákefð ættu þeir í fullu tré við þá balknesku. Það var rjómablíða sýndist manni í Kosovó, hiti rúmlega 24°c og smá gola en völlurinn greinilega ekki í hæsta gæðaflokki og setti það sinn svip á leikinn þar sem mikið var um feilsendingar og óvæntar stefnubreytingar knattarins þegar minnst varði. Þetta háði báðum liðum.

Okkar menn stilltu upp eftirfarandi byrjunarliði og vakti nokkra athygli að Benjamin Stokke, Ísak Snær og Kristófer voru allir í byrjunarliði. Má af því draga þá ályktun að ætlunin væri að blása til sóknar:

Leikurinn fór rólega af stað og fyrstu mínúturnar einkenndust af varkárni, feilsendingum og svokölluðum háloftabolta. Kannski ekki skrýtið þar sem ósléttur og loðinn völlurinn bauð ekki beint upp á stuttan samleik nær yfirborði jarðar. En fljótlega náðu heimamenn undirtökunum og voru lengi vel skarpari í öllum sínum aðgerðum, komust ítrekað upp kantana og í álitleg færi en ýmist varði Anton eða litlar þúfur björguðu okkar mönnum. Þess utan var þetta mestmegnis barningur, en eftir því sem á leið háfleikinn náðu Blikar vopnum sínum og fóru að herja meir á heimamenn. Stokke átt fínan möguleika eftir góða sókn og sendingu frá Kristófer en hitti boltann illa. Höskuldur átti fínt skot af 35 metra færi sem markmaður varði með olnboga og er slíkt sjaldséð. Öðru sinni átti Damir þrumuskot að marki eftir aukaspyrnu og frákast en því miður beint á markmanninn. Besta tækifærið hefði hins vegar fallið í hlut Arons Bjarnasonar þegar hann virtist vera að sleppa einn í gegn, en fyrsta snerting hans var afleit og færið fór forgörðum. Fyrri hálfleikur rann sitt skeið og staðan 0-0 í hálfleik, og máttu bæði lið þokkalega vel við una.
Heimamenn mun beittari framan af en Blikum óx ásmegin þegar leið á og það voru því væntingar til að okkar menn myndu mæta af krafti í síðari hálfleikinn. Því var veðjað á kókómjólk í hálfleikskaffinu.

Blikar byrjuðu síðari hálfleik af meiri krafti en þann fyrri. Sérstaklega lét Kristófer til sín taka og í tvígang skapaði hann usla en Blikar náðu ekki að gera sér mat úr. Svo munaði sáralitlu að Aron næði að setj´ann eftir langt innkast Höskuldar. Hinumegin stóðu Anton og Damir í stórræðum þegar heimamenn gerðu sig líklega. Og svo kom sennilega stóra atvikið þegar Blikar vildu fá vítaspyrnu þegar brotið var á Höskuldi en annars ágætur dómari lét það átölulaust. Þarna varð honum illilega á í messunni. Skömmu síðar gerðu Blikar breytingu á liðinu og Davíð Ingvarsson kom inn fyrir Kristófer sem hafði verið einna frískastur Blika. Sennilega fyrir fram ákveðin skipting og verður fróðlegt að sjá hvort Kristófer nær að halda sér meiðslalausum það sem eftir lifir tímabilsins. Spennandi leikmaður. Áfram hélt leikurinn og heimamenn skiptu líka inná og varamaðurinn kom boltanum strax í netið, en rangstaða réttilega dæmd. En aðeins mínútu síðar komu þeir boltanum aftur yfir línuna og nú taldi það. Aðdragandinn frekar dapur hjá okkar mönnum sem létu fyrrnefndan varamann fara afar illa með sig áður en hann kom boltanum á félaga sinn lét vaða frá vítateig og smurði boltann út við stöng, óverjandi fyrir Anton Ara. Gestirnir komnir með forystu í leiknum og nú þurftu okkar menn 2 mörk til að koma sér inn í viðureignina á ný. Brekkan orðin brattari og lengri en okkar menn héldu áfram og freistuðu þess að jafna og koma sér inn í viðureigninna en náðu ekki að skapa sér nein alvöru marktækifæri þó nokkur hálffæri litu dagsins ljós. Patrik og Kristinn Steindórs komu inn fyrir Benjamin og Andra þegar 10 mínútur lifðu leiks en það breytti litlu. Sem fyrr var hörgull á færum og okkur tókst ekki að koma boltanum í netið og hrista upp heimamönnum, sem áttu ekki í teljandi erfiðleikum með að verja stöðuna.
Og eftir rúmlega 6 mínútur af uppbótartíma  var flautað til leiksloka og þar með luku Blikar þátttöku sinni í evrópukeppni í ár. Fyrr en við ætluðum.

Við byrjuðum báða leikina gegn Drita afleitlega, og það kostaði okkur fyrri leikinn og hjálpaði ekki heldur í dag. Okkar menn náðu engum tökum á miðjunni og fyrir vikið var uppspilið ekki gott og virkaði tilviljanakennt. Það var einhvern veginn aldrei neitt flot í leik okkar manna og mikið um feilsendingar.  
Leikmenn að vonum svekktir og niðurlútir að leikslokum sem og stuðningsmenn, en þetta er bara niðurstaðan. Í þessari viðureign voru Blikar einfaldlega lakara liðið og skorti gæðin til að komast áfram.
Nú reynir hins vegar á hvort menn reisa sig eftir þetta svekkelsi því það þarf að gera miklu betur en í dag í þeim leikjum sem fram undan eru í Bestu deildinni. Undirritaður trúir á endurreisnina.

Það er ekki mikill tími sem leikmenn fá til að sleikja sárin en þó er smá hvíld fyrir næsta leik sem er heimaleikur gegn Fylki n.k. þriðjudag. Við óskum liðinu góðrar heimferðar og sjáumst á vellinum á þriðjudaginn kl. 19:15.

Áfram Breiðablik!

OWK

Til baka