BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Hvílíkt lið!

29.10.2024 image

Þegar allt er með felldu hefjast pistlar þessir oftast á almennum dagbókarfærslum um hitastig, skýjahæð og vindafar og jafnvel eitt eða tvö orð um sprengitöflur og gagnsemi þeirra. Og það verður lítil breyting á því nú. Það var nánast logn veðurs, heiðskírt og tekið að rökkva þega undirritaður lagði leið sína í Víkina í gær. Hiti -0,6°celsíuskvarðanum og raki 65%. Lopapeysa, föðurland,  gæruskinn og ullarsokkar. Að ógleymdum græna treflinum og húfunni. Lagði bílnum hjá Tengi skv. ábendingu og þar voru fleiri á ferð, ýmist á leið á völlinn eða í ,,Yndisgarðinn“, þar sem Blikar höfðu komið fyrir risaskjá, grilli og veitingasölu fyrir sitt fólk sem ekki fékk miða á völlinn af alkunnum ástæðum. Um það bil að undirritaður gekk til bretta var krókloppinn söngvasveinn á vegum heimamanna um það bil að syngja sitt síðasta og slá lokahljómana á svellkaldan gítarinn. Hann bar sig samt vel og það virtust allir vera í góðu stuði, jafnt heimamenn sem Blikar. Sem sagt góð stemmning og loftið þykkt af eftirvæntingu. Svo fóru blysin á loft hjá stuðningsmönnum beggja og þá var ekki eftir neinu að bíða að hefja leik.

Byrjunarlið okkar manna var svona, og óbreytt frá síðasta leik.

Okkar menn hófu leikinn og voru ekkert að tvínóna við það heldur sendu langan bolta fram á vallarhelming Víkinga og þar með var þetta komið í gang og það var snemma ljóst að það yrði ekkert gefið eftir. Víkingar fengu aukaspyrnu óþægilega nálægt okkar marki fljótlega en Blikar komu boltanum frá. Skömmu síðar áttu Blikar flott upphlaup og Davíð lét vaða á markið en Ingvar varði frá honum, boltinn barst svo til Andra sem smellti einum áleiðis í vinkilinn en enn varði Ingvar. Blikar létu Víkinga finna vel fyrir sér og pressuðu þá hátt, eins og í leiknum í Kópavoginum í sumar, en nú var pressan enn ákafari, og hörð návígi og loftbardagar um allan völl. Minna fór fyrir snotru spili, í bili. Það skal viðurkennt hér og nú að Blikar voru ekki alsaklausir í sínum aðgerðum en það var áberandi meira dæmt á þá en heimamenn og þegar rúmur hálftími var liðinn var staðan 1-13 í aukaspyrnum. Það er náttúrulegar alveg galin tölfræði. En áfram hélt leikurinn og á 16.mínútu varð að gera hlé á leik þegar Kristinn Jónsson og leikmaður Víkings skullu saman í háloftunum með þeim afleiðingum að Kristinn þurfti að yfirgefa völlinn og í hans stað kom nafni hans Steindórsson og þar með færðist Davíð í vinstri bakvörðinn. Kristinn mun hafa kinnbeinsbrotnað og fengið heilahristing og við óskum honum skjóts, en umfram allt góðs bata.
Áfram hélt bardaginn og okkar menn voru nú eins og berserkir út um allan völl. Bitu í skjaldarrendur  og pressuðu heimamenn af mikilli ákefð og kæfðu nánast allar tilraunir þeirra í fæðingu. Litlu mátti þó muna þegar eitruð fyrirgjöf kom fyrir mark okkar manna en Arnór Gauti kom á ferðinni og náði að fleyta boltanum með kollinum í horn. Litlu síðar mátti litlu muna hinumegin að Ísak kæmist í færi þegar hann hirti boltann af varnarmanni Víkings en boltinn datt ekki fyrir hann. Á þessum tímapunkti voru Blikar heldur að ná yfirhöndinni eftir að hafa þurft að gera breytingu á liðinu og á pallettunum fóru einhverjir Blikar að láta sig dreyma um mark á meðan aðrir töldu að það yrði núllað í hálfleik. Ísak Snær krækti í gult spjald fyrir litlar sakir. 250 Blikar létu vel í sér heyra og hvöttu sína menn áfram af miklum móð en heldur dró af heimamönnum þó þeir tækju rokur af og til. Svo gerðist það, einsog hendi væri veifað. Blikar voru búnir að liggja nokkur augnablik á heimamönnum með góðu spili en manni fannst það eiginlega búið spil þegar boltinn fór aftur á vallarhelming okkar manna. En Damir sendi boltann rakleiðis upp hægri vænginn og þar tók Aron á móti og náði að snúa með boltann, tók svo á rás nokkra metra og sendi svo boltann inn í vítateiginn þar sem Ísak lúrði með tvo til Víkinga varnar. Ísak réðist á boltann og fætur Víkinganna lögðust eins og Grásíða Sturlu í Örlygsstaðabardaga og okkar maður laumaði boltanum í netið , eiginlega með sólanum!
Ekta sentersmark og Blikar trylltust jafnt á pallettum og í Yndisgarði.  0-1 fyrir Blika.

Næstu mínútur liðu án stórviðburða ef undan er skilið atvik þegar Viktor Örn vildi meina að leikmaður Víkings hefði sett olnbogann í höfuð hans, en hvorki dómari né aðstoðarmenn sáu neitt athugavert. Og þær níu mínútur sem bætt var við voru Blikar með góð tök á stöðunni og gáfu ekki tommu eftir. Blikar með sanngjarna eins marks forystu í hálfleik og þeir sem venjulega eru bestir í náranum í Smáranum, stjórnuðu nú köllunum á pöllunum. Stemmningin öll okkar megin.  Hálfleikskaffið skilst mér hafi verið drukkið á Spáni, en í Víkinni þéttu stuðningsmenn beggja raðirnar, supu ropvatn og börðu í sig hita. Og norðurljósin dönsuðu. En korterið leið hratt og fyrr en varði voru liðin mætt út á völl, klár í seinni hálfleikinn.

Hefði maður verið að drekka kaffi hefði manni svelgst á því strax, því Víkingar fengu horn og virtust vera að jafna leikinn en boltinn fór í utanverða stöngina og Damir kom boltanum frá af yfirvegun. Álíka yfirvegun og skilaði næsta marki okkar manna. Ísak vann boltann af harðfylgi á eigin vallarhelmingi og kom honum á Höskuld sem brunaði upp völlinn og þar fengu Blikar aukaspyrnu. Upp úr henni fékk Damir boltann við endamörkin utan vítateigs. Hann fór með boltann áleiðis að  eigin vallarhelmingi með mann í bakinu og sneri svo við á tíeyringi og rauk í átt að endamörkum og sendi boltann jafnskjótt fyrir markið þar sem varð mikið japl og jaml og fuður og loks barst boltinn út í teiginn þar sem Höskuldur náðu skotinu en það var á leið framhjá þegar Ísak Snær, lúrandi á fjærstönginni stýrði boltanum í netið. Heimamenn heimtuðu rangstöðu og það hefði verið eftir öðru ef það hefði verið samþykkt, en dómarar með þetta á hreinu og markið gilt. 
0-2 fyrir Blika og allt ætlaði að ganga af göflunum. Fólk kleip sig.

Þetta var kjaftshögg fyrir heimamenn sem virtust nú ráðvilltir. Blikar létu kné fylgja kviði í pressunni og hertu enn tökin. Eftir að dómarinn var búinn að spjalda Davíð og Viktor Karl ákvað hann að hunsa kröfu okkar manna um vítaspyrnu þegar augljóslega var brotið á Höskuldi innan teigs., boltinn datt svo fyrir Ísak en fast skot hans var varið, og naumlega þó. Skömmu síðar tóku margir andköf þegar fastur bolti kom fyrir mark okkar en blessunarlega náði enginn Víkingur tímanlega til boltans. Nú var heimamönnum ekki til setunnar boðið og hentu í tvöfalda skiptingu og nú færðist smá líf í þá. Viktor Örn henti sér fyrir skot og svo bjargaði sláin þegar tveir Víkingar uppaldir í Smáranum, sköpuðu hættu en inn vildi boltinn ekki. Aftur gerðu þeir sig líklega en enn björguðu Blikar. Klukkan tifaði og datt í 70. mínútur. Skömmu síðar þurfti Ísak Snær að far af velli og Kristófer Ingi kom inn af krafti í hans stað. Enn skiptu Víkingar 2 mönnum inn, en þessar skiptingar gerðu lítið fyrir gestina og okkar menn héldu sjó og vel það. 79 mínútur á klukkunni og heimamenn utan vallar hvöttu sína menn áfram en Blikar heyrðu það ekki og geystust í sókn. Boltinn barst til Kristins Steindórssonar og hann vann a.m.k. 2 návígi og vippaði svo boltanum inn fyrir vörn Víkings, svona líka huggulega, beint fyrir fætur Arons Bjarnasonar sem kláraði færið af yfirvegun og lyfti boltanum yfir markvörðinn og í netið. Blikar ærðust af fögnuði og sungu og trölluðu. 0 -3 og staðan heldur betur orðin vænleg.

En heimamenn gáfust ekki upp, heldur freistuðu þess  að minnka muninn. Okkar menn hins vegar vel á verði sem fyrr og hentu sér fyrir alla bolta og fórnuðu sér í návígin af dæmalausri ákefð. Oliver og Benjamin Stokke komu inn fyrir Viktor Karl og Arnór Gauta. Bæði lið sköpuðu sér færi á lokamínútunum og skömmu fyrir framangreinda skiptingu áttu Blikar að fá annað víti þegar Kristófer sneri varnarmann laglega af sér og komst inn í teig og sendi boltann frá sér á Viktor Karl, um leið og hann var straujaður flatur af markverði heimamanna. Víkingar komust hins vegar fyrir skot Viktors á mannlaust markið.  Hvernig er hægt að sleppa svona augljósu víti?
Skömmu síðar flautaði dómarinn til leiksloka og Blikar fögnuðu innilega 3ja Íslandsmeistaratitli karlaliðs félagsins og öðrum titli þeirra á 3 árum. Menn voru klárir með flugeldana strax eftir leik og fjöldi stuðningsmanna stormaði inn á völlinn til að fagna með liðinu.
Breiðablik er nú  handhafi beggja Íslandsmeistaratitlanna í efstu deild í fyrsta sinn í sögunni. Það er merkur áfangi og afrek í sjálfu sér. 

Kópacabana menn, sem fengu góðan skerf af þeim 250 miðum sem Blikum var úthlutað, mættu á heimavöll Hamingjunnar með grænar hendur og tóku gjörsamlega yfir stemninguna. Fyrst á pöllunum frá fyrstu mínútu en svo í stúkunni eftir leik. Eins og Höskuldur sagði: „Þessir 250, það heyrðist í þeim eins og 150.000“

Blikar léku frábærlega í gær, allir sem einn, og varla hægt að gera upp á milli manna, enda engin ástæða til því í gærkveldi sannaðist það enn og aftur að sterk liðsheild er öflugasta vopnið. Halldór og hans teymi fær risahrós fyrir leikplanið sem var klárt snemma þannig að leikmenn fengu góðan tíma til að stilla sig inn á það. Vel gert.


Höskuldi voru veitt verðlaun sem besti leikmaður Bestu deildarinnar 2024 og Anton Ari fékk gullhanskann fyrir að halda hreinu oftast allra markvarða. Hvorttveggja verðskuldað og þeim var vel fagnað af stuðningsmönnum..
Að lokum afhenti svo Þorvaldur Örlygsson formaður KSÍ Blikum verðlaunaskjöldinn við taumlausan fögnuð viðstaddra sem sungu og trölluðu af mikilli innlifun.

Og tölum aðeins um viðstadda því þessir 250 sem fengu miða lögðu svo sannarlega sitt af mörkum með öflugum hvatningarhrópum og flottum stuðningi frá því Blikar byrjuðu að hita upp og slógu aldrei af. Frábær frammistaða. Það var líka öflugur hópur sem kom saman í Yndisgarðinum og glöggir menn telja að þar hafi verið um 500 manns, sem að sjálfsögðu drifu sig niður í Vík þegar skammt var til leiksloka og búið að opna hliðin. Þeir fylltu stúkuna og settu skemmtilegan svip á verðlaunaafhendinguna.

 

Svo var stormað í Smárann þar sem fjöldi Blika kom saman til að fagna og heyrst hefur að þar hafi síðasti maður farið út með skúringavatninu klukkan rúmlega fjögur.
Svona á að gera þetta.

Hvílíkt kvöld og hvílíkur sigur!

Áfram Breiðablik !

OWK.

Til baka