BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Í öllum litum regnbogans

18.04.2025 image

Svöl vorgolan blés í bakið á stúkunni við Kópavogsvöll þegar tíðindamaður tyllti sér þar nokkrum mínútum fyrir leik. Hann var fallegur regnboginn sem myndaðist yfir íðilgrænum vellinum í úðanum frá vökvistútnum í þessu glaðasólskini og reyndist fyrirboði þess sem koma skyldi: Breiðabliksmörk í öllum regnbogans litum.

Í hausnum á varnarmanni eins og mér voru meðal annars þær hugleiðingar að við fórum flatt á móti ÍBK við sama tilefni í fyrravor og að Víkingar duttu út úr bikarnum í gær gegn minni spámönnum. Hinn stólpatrausti tíðindamaður Blikar.is, Pétur Már Ólafsson, hafði svo verið í Úlfarsárdal á dögunum og minnti á að það getur þurft fimm mörk til að vinna. En mikið var nú regnboginn samt fagur. Mynd: Eiríkur Hjálmarsson og Pétur Már Ólafsson tíðindarmenn blikar.is á Kópavogsvelli í dag, föstudaginn langa. 

Mikið breytt byrjunarlið

Fram fóru hefðbundnar bollaleggingar um byrjunarliðið þar sem óljós tíðindi voru af meiðslum hjá Andra Rafni og Antoni Loga en Halldór gerði sex breytingar frá deildarleiknum á móti Fram. Brynjar Atli byrjaði í markinu og þessir útileikmenn: Daniel Obbekjær og Ásgeir Helgi Orrason í miðri vörninni. Við hlið þeirra þeir Valgeir Valgeirsson og Gabríel Snær Hallsson. Fyrirliðinn Höskuldur Gunnlaugsson, Viktor Karl Einarsson, Kristinn Steindórsson, Aron Bjarnason, Ágúst Orri Þorsteinsson og Tobias Thomsen svo í þessari út-um-allt-hlaupandi-miðju-sóknarsúpu þar sem Tobias var þó í turninum.

Fjölnismenn voru eilítið fjölmennari en í Kaupmannahöfn forðum og stilltu upp 11 manns. Enginn gömlu Fjölnismannanna var á skýrslu. Liðið átti ekki feitan gölt að flá í Lengjubikarnum, vann ekki leik, en lagði 5. deildarlið RB til að mæta okkur Blikum í bikarnum. Fjölnir er efstur í Lengjudeildinni. Þar er keppni hinsvegar ekki hafin svo það er stafrófsröðin sem setur liðið á toppinn þar.

Minnti á handboltaleik lengi vel

Þetta byrjaði eins og handboltaleikur og var þannig allt fram í miðjan seinni hálfleik. Okkar menn sóttu, létu boltann rúlla hornanna á milli, gáfu lágar fyrirgjafir inn í teiginn, varið, bjargað á línu, í mann og framhjá, bjargað í horn en jafnan vannst boltinn skjótt ef niðurstaðan var útspark andstæðinganna eða innkast.

Ég held að fyrsta mark okkar manna hafi komið úr fyrstu háu fyrirgjöfinni í teiginn. Fyrri hálfleikurinn hálfnaður, Höggi með boltann úti til hægri, gefur fremur lausa en háa sendingu fyrir og í baráttu við tvo varnarmann nær Tobias boltanum og þó krafturinn í skallanum hafi verið í takti við fyrirgjöfina, stýrir hann boltanum alveg út að stöng og 1-0.

Það var svipaður handboltabragur á leiknum það sem eftir lifði hálfleiks þar sem skipulögð 5-4-1 uppstilling Fjölnis virkaði að mestu. Hvorugt liðið hafði til að bera refsigleði Pílatusar þegar andstæðingnum varð á í vörninni en hvort lið fékk a.m.k. tvö tækifæri til að skora eftir flumbrugang sem gaf andstæðingunum boltann í góðri stöðu.

1:0 í hálfleik og þrátt fyrir mikla yfirburði með boltann var fjáranum erfiðara að koma á þá marki.

Dóri óttast ekki skiptingar

Ágúst Orri hélt áfram að vera frískur á vinstri kantinum í seinni hálfleik. Óhræddur við að ráðast einn að andstæðingnum en oft á tíðum vantaði plássið til að gera frekari rósir. Eftir korter í seinni hálfleiknum klaufaðist varnarmaðurinn til að brjóta á Ágústi innan teigs og fyrirliðinn fór á punktinn. Kannski er einhver mjólkurþoka að þjá hinn nýbakaða föður nema að fremur slakt víti var varið en Valgeir var eldfljótastur allra að hirða frákastið og skila boltanum í netið úr fremur þröngri stöðu. 2-0 en mannskapurinn sem horfði á Man.Utd.-Lyon í gær tók engu sem gefnu.

Sumir vilja meina að skiptingar tveimur mörkum yfir á móti Fram hafi verið örlagaríkar í þeim leik. Halldór Breiðabliksþjálfari var að hugsa eitthvað annað því skömmu eftir mark númer tvö var hliðarlínan framan við stúkuna eins og járnbrautarstöð þegar hann gerði ferfalda skiptingu og lækkaði meðalaldur þeirra í grænu búningunum nokkuð við skiptinguna. Inn á komu Arnór Gauti Jónsson, Viktor Elmar Gautason, Tumi Fannar Gunnarsson og Óli Valur Ómarsson en út fóru Höskuldur, Gabríel Snær, Valgeir og Aron Bjarnason.

Skiptingarnar reyndust vel. Vinnusemi og frískleiki kom með ferskum fótum. Óli Valur komst fljótlega í færi og einn Fjölnismanna bjargaði örstuttu síðar með miðfætinum á línu eftir hælspyrnu Viktors Karls, sem tekið hafði við fyrirliðabandinu. Síðan kom 5. skipting okkar manna þegar Dagur Örn Fjeldsted kom inn fyrir Tobias. Um leið gerðu Fjölnismenn skiptingu og breyttu skipulaginu í 4-4-2 sýndist mér. Þar með hófst þó píslarganga þeirra fyrir alvöru á þessum langa föstudegi. Leikurinn opnaðist meira og ekki var að sökum að spyrja.

Hvert markið öðru fegurra

Viktor Elmar skoraði stórkostlegt mark á 77. mínútu þegar hann spændi sig örsnöggt í gegnum vörn Fjölnis eftir að boltinn hafði gengið hefbundinn handboltagang fyrir framan vítateig skipateig skipaðan 11 Fjölnismönnum.

Þó Fjölnismenn hafi bætt enn frekar í tilraunir sínar að hápressu, m.a. með tveimur skiptingum, leystu varnarmenn okkar það jafnan af yfirvegun og sóttu á móti gegn færri Fjölnismönnum en fyrr. Það skilaði sér i öðru glæsimarki, fyrsta marki Tuma Fannars fyrir meistaraflokk Breiðabliks. Þá gaf Viktor Elmar boltann frá vinstri út í teiginn og viðstöðulaust með hreinni rist negldi Tumi tuðrunni í bláhornið. Verulega frambærilegt mark.

Þegar þarna var komið var svo lítið eftir af leiknum að tilkynnt var um mann leiksins. Sá var Ágúst Orri Þorsteinsson. Það var eins og við manninn mælt. Kemur löng sending úr vörninni, Ágúst Orri tekur hann með hælnum yfir varnarmanninn, mætir markmanni og vippar bratt yfir hann. Sem boltinn er að leka yfir línuna gerir markmaður Fjölnis sig líklegan til að ná honum. Viktor Karl, sem nú bar fyrirliðabandið manstu, tekur ekki þann kost að negla tuðrunni í netið af u.þ.b. 24 sentimetra færi. Nei, hann skýlir boltanum yfir línuna svo maður leiksins mætti eiga þetta fautagóða mark. Heiðursmaður. Sannur heiðursmaður.

Píslir ekki í uppbótartíma

Þrátt fyrir slatta af skiptingum og smávægilegar tafir vegna tímabundins fautaskapar Fjölnismanna um miðjan seinni hálfleikinn, ákvað ágætur dómari leiksins – hann Arnar Þór Stefánsson – að nóg væri starfað þegar klukkan sló í 90 mínútur. Engu var bætt við. Píslargangan ekki framlengd.

Fimm mörk dugðu. Eitt með skalla. Eitt þegar víti var fylgt eftir. Eitt eftir fagran einleik. Eitt með viðstöðulausri þrusu. Eitt með glimrandi afgreiðslu eftir stungubolta. Ekkert úr víti en fimm mörk í öllum regnbogans litum dugðu.

Næsti leikur er svo heimaleikur í deildinni á móti Stjörnunni miðvikudaginn 23. apríl, síðasta vetrardag, klukkan 19:15. Stjarnan bjargaði sér með einhverjum Júnætedískum hætti í bikarnum í dag á móti Njarðvík. Verðugur andstæðingur.

EH

Til baka