BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Iðnaðarsigur á KA!

21.06.2024 image

Þökk sé snilli Viktors Karls Einarssonar í teignum og góðrar sendingar frá Aroni Bjarnasyni tryggðum við okkur 2:1 sigur gegn KA á Kópavogsvelli í gærkvöldi. Óþarfi er að fegra hlutina eitthvað þvi við vorum drulluheppnir að tryggja okkur stigin þrjú í gær. Blikaliðið náði sér engan vegin á strik í leiknum í gær og eitthvað slen yfir bæði leikmönnum og stuðningsmönnum. Þetta þarf að laga því við eigum erfitt verkefni á sunnudaginn þegar sjóðheitir Skagamenn mæta í Kópavoginn.

Byrjunarliðið gegn KA:

Rúmlega 900 áhorfendur mættu á Kópavogsvöll í gærkvöld og voru flestir þeirra á bandi heimamanna. Veðurguðirnir voru í liði með þeim öllum, hægviðri, hiti í kringum 9 stig og engin rigning, þvert á það sem veðurfræðingar höfðu spáð. Rættist þar hið forkveðna ,,veðurfræðingar ljúga“ eins og Blikinn góðkunni Bogomil Font söng svo eftirminnilega um árið. Sjá nánar hér.

Blikar byrjuðu leikinn með látum og buldu sóknirnar hver á fætur annarri á norðanvörninni. En það vantaði alltaf herslumuninn til að koma knettinum í markið. Annað hvort hentu þeir gulklæddu sér fyrir skot okkar pilta eða að lokasendingin var ekki nógu nákvæm. Eftir 10-15 mínútur var eins og allur vindur væri úr okkar piltum. KA komst betur inn í leikinn og sóknarkraftur okkur hvarf smám saman. Lukkan gekk hins vegar í lið með okkur rétt fyrir leikhléið. Aron Bjarnason átti góðan sprett upp hægri kantinn, komst inn í vítateig gestanna og sendi fasta sendingu fyrir markið. Þar fylltist ungur og óreyndar bakvörður KA-mann skelfingu og þrumaði knettinum í eigið mark. Staðan orðin 1:0 fyrir okkur og glöddust flestir áhorfendur.

Ef stuðningsmenn Blika héldu að þetta myndi hleypa nýjum krafti í Blikaliðið þá varð þeim ekki að ósk sinni. Það voru hins vegar gulir og glaðir gestir sem mættu með miklum krafti í síðari hálfleikinn. Fljótlega var staðan orðin 1:1 eftir slaka varnarvinnu og nokkrum mínútum síðar vorum við stálheppnir þegar sóknarmaður KA-mann brenndi af dauðafæri.

Smá kraftur kom nú stuðningsmenn Blika í stúkunni sem reyndu að hrópa drengina okkar í gang. Hugsanlega hafði þetta einhver áhrif en stemmningin í stúkunni var afskaplega döpur meirihluta leiksins. En það var sem sagt kraftmikið hlaup Arons Bjarnasonar upp vinstri kantinn og mikil snilli Viktors Karls sem tryggði okkur þennan 2:1 sigur.

Bæði þjálfararnir og leikmenn hafa sagt í viðtölum við fjölmiðla að þetta hafi alls ekki verið nógu góður leikur hjá okkur. En það sýnir samt styrk að ná í þrjú stig í leik sem við náðum okkur alls ekki á strik. Strákarnir vita upp á sökina og munu koma miklu kraftmeiri í leikinn gegn Skagamönnum á sunnudag kl.19.15. Við áhorfendur verðum líka heldur betur taka okkur saman í andlitinu. Strákarnir eiga miklu meiri stuðning skilið og ef allir Blika sýna sitt rétta andlit á sunnudaginn í leiknum þá verður gaman á vellinum!

Þrjú stig eru þrjú stig sem ber að fagna - kannski ekki eins falleg og mörg önnur en öll stig telja jafnt þegar talið er upp úr poknaum fræga í haust. 

-AP

Fyrir leikinn fékk snillingurinn Andri Rafn Yeoman viðurkenningu fyrir 450 mótsleiki. Hann kom svo inná í hálfleik í sínum 451. leik í grænu Breiðablikstreyjunni. Andri Rafn, sem er aðeins 32 ára, byrjaði með meistaraflokki árið 2009 og hefur orðið bæði bikarmeistari og tvisvar Íslandsmeistari með félaginu

Til baka