BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Jason Daði sá um Leikni!

14.01.2022 image

Blikar unnu 1:3 seiglusigur á Leiknismönnum í Breiðholti. Sigurinn var erfiður enda börðust heimapiltar eins og ljón allan tímann. En það var Jason Daði Svanþórsson sem gerði gæfumuninn þegar hann kom inn á í síðari hálfleik. Í sínum fyrsta leik á þessu keppnistímabili sýndi Mosfellingurinn hve snjall markaskorari hann er. Stigin þrjú fóru því öll í Kópavoginn þrátt fyrir að sigurinn hefði verið torsóttur.

Blikar voru í frekar miklu basli í fyrri hálfleik. Leiknismennirnir börðust eins og ljón og pressuðu okkur framarlega. Við náðum ekki upp miklu flæði í spilinu enda gáfu heimapiltar okkur ekki mikinn tíma.  Nokkrum sinnum skall hurð nærri hælum hjá okkur og vorum við í raun heppnir að lenda ekki undir. En skömmu fyrir leikhlé fékk hinn ungi og efnilegi Ásgeir Galdur knöttinn á miðjum vallarhelmingi Leiknismanna og náði að hrista af sér af varnarmann. Eftir góðan samleik Blika í vítateignum fékk Benedikt Warén knöttinn og renndi honum auðveldlega í markið. 0:1 fyrir okkur. Ekki endilega sanngjörn staða en knattspyrnan er miskunarlaus íþrótt!

Seinni hálfleikur þróaðist svipað. Heimapiltar voru sterkari framan af hálfleiknum, skoruðu mark sem var dæmt af, áttu skot í stöng en náðu síðan að jafna sanngjarnt. En síðan var komið að galdrakarlinum frá Mósó og því fóru stigin þrjú í Kópavoginn. Við getum því vel við unað eftir þessa tvo fyrstu leiki í fotbolti.net mótinu. Þrátt fyrir að mikið af sterkum leikmönnum hafi ekki spilað þessa leiki þá erum við efstir í riðlinum.

Næsti leikur er gegn vinum okkar í HK á laugardaginn á Kópavogsvelli kl.13.00.

-AP

image

Til baka