BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Jason Daði sökkti KV

13.03.2022 image

Blikar unnu 3:0 sigur á KV í síðasta leik í riðlakeppni deildarbikarsins 2022. Okkar drengjum gekk afskaplega illa að nýta færin framan af leik og það var ekki fyrr en Jason Daði Svanþórsson kom inn á sem varamaður í síðari hálfleik að varnir Vesturbæjarliðsins brustu. Jason Daði setti öll mörkin og sýndi það enn og aftur hve mikilvægur hann er fyrir sóknarlínu Blikaliðsins.

image

Með þessum sigri á Breiðabliksliðið enn möguleika á því komast áfram í Lengjubikarnum. Við þurfum að bíða eftir úrslitum í leik Stjörnunnar og Skagamanna á morgun. Ef svo heppilega vildi til að leikurinn myndi enda með jafntefli þá komust við áfram.

En í heildina fer þessi leikur ekki í sögubækurnar. Við höfðum mikla yfirburði úti á vellinum, sérstaklega í síðari hálfleik þar sem gestirnir komust varla upp fyrir miðju. En uppspilið í sóknarleiknum var ekki nægjanlega sannfærandi og krummafótur upp við markið kom í veg fyrir að við skoruðum. En það breyttist heldur betur þegar Mosfellingurinn knái kom inn á. KV-liðar áttu í mestu erfiðleikum með hraðabreytingarnar hjá Jasoni Daða og þegar yfir lauk voru mörkin orðin þrjú.

Senn fer landið að rísa hjá Blikaliðinu eftir brösótt gengi í undanförnum leikjum. Brodd hefur vantað í sóknarleik liðsins og við höfum verið að fara illa með upplögð færi.

Nú þegar aðeins rúmur mánuður er þangað til Keflvíkingar mæta á Kópavogsvöll í fyrsta leik okkar í Bestu deildinni þá þurfum við að fínpússa það sem betur má fara.

Næsti skráði mótsleikur hjá okkar mönnum er gegn Reykjavíkur Víkingum í Meistarakeppni KSÍ. Aðrir mótsleikir eru ekki á dagskrá nema jafntefli verði í leik Stjörnunnar og ÍA á morgun, en einhverjir æfingaleikir eru planaðir næstu vikur.

Það er nægur tími til að pínpússa liðið fyrir fyrsta leikinn okkar í Bestu deildinni 19. apríl.

Þá verður kátt á Kópavogsvelli!

-AP

Mörk og atvik úr leiknum í boði BlikarTV

Til baka