BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Kurteisi í Kórnum!

03.06.2024 image

Við Blikar erum þekkt fyrir nærgætni við bæði menn og málleysingja. Það sannaðist enn og aftur í Kórnum í gærkvöldi. Þar létum við tvö mörk nægja gegn vinum okkur í HK þrátt fyrir að eiga miklu oftar möguleika á því að koma knettinum í markið. Það voru þeir Jason Daði Svanþórsson og Ísak Snær Þorvaldsson sem settu mörkin í leiknum. Bæði lið geta því farið í fríið langa með góðri samvisku. Þeir rauðröndóttu fengu engan skell og við unnum langþráðan sigur í Kórnum eftir rýra uppskeru þar undanfarin ár.

Knattspyrnuáhugamenn eru flestir lítt hrifnir af því að spila leiki inni  í Kórnum. En þegar suðvestan stormur, 12 metrar á sekúndu, með rigningarsudda inn á milli geisar úti þá er ósköp notalegt að setjast niður innandyra og horfa á knattspyrnuleik án þess að krókna úr kulda eða verða hundblautur inn að skinni. HK-ingar gera allt til þess að auka tekjur sínar af svona stórleik og otuðu hamborgurum og öðrum veigum að stuðningsmönnum. Þrátt fyrir að tíðindamaður Blikaris sé hvorki IOGT maður né vinur Bob og Bill þá mætti alveg tóna þessa sölumennsku aðeins niður. Á tímabili hélt undirrtaður að hann væri staddur í upphitun fyrir herrakvöld eða lokahóf hjá Lionsklúbbi.

Blikar komu mjög ákveðnir í leiks og greinilegt að liðið ætlaði ekki að falla í gryfju vanmats eða að ætla að spila einhvers konar léttleikandi bolta gegn heimapiltum. Það hefur reynst okkur dýrkeypt á undanförnum árum. Við komum okkur í nokkrar álitlegar stöður á fyrstu mínútunum en HK-ingar vörðust vel. Nokkuð dróg úr ákefðinni þegar liða fór á hálfleikinn en í raun var samt bara eitt lið á vellinum. Skömmu fyrir leikhlé jókst sóknarþungi okkar pilta og kom því ekki á óvart að Jason Daði skoraði fyrsta markið eftir góðan undirbúning Höskuldar og styrkleika Ísaks Snær í teignum.

Nokkrir heimapiltar og álitsgjafar hafa kvartað undan því að knötturinn hafi verið á hreyfingu þegar Höskuldur tók aukaspyrnu í aðdraganda marksins. En fyrirliðinn okkar getur ekkert að því gert að gólfið í Kórnum hallar og segulsvið jarðar togar knöttinn til sín með ófyrirséðum afleiðingum.

Síðari hálfleikur hófst svipað og sá fyrri. Blikar sýndu mátt sinn og megin og áttu heimamenn í miklum vandræðum með kraftmikla gestinga. Jason Daði var næstum því búinn að skora strax á fyrstu mínútu en það var síðan Ísak Snær sem sýndi snilli sína enn og aftur í leiknum. Aron Bjarna vippaði knettinum snyrtilega inn í teiginn þar sem Ísak Snær tók knöttinn á lofti með vinstri fæti og staðan orðin 0:2.

Þrátt fyrir fjölmörg færi þá létu kurteisir Blikar sé nægja að skora þessi tvö mörk. Bæði lið geta því vel við unað. Blikar komu með eldmóði inn í þennan leik og sást frá fyrstu mínútu að liðið ætlaði ekki að endurtaka mistök undanfarinna ára. Fremstir með jafningja voru Jason Daði, sem var óþreytandi allan leikinn og skoraði gott mark, og svo auðvitað Ísak Snær Þorvaldssyni. Hann blés á allar gagnrýnisraddir og sýndi það og sannaði að hann er einn besti framlínumaður í deildinni. Vonandi fáum við bara að halda honum allt keppnistímabilið!

Í þessari umfjöllun verður einnig að minnast á innkomu snllingsins Andra Rafns Yeoman. Hann lék í gær sinn 450 mótsleik fyrir Breiðablik! Hann spilaði fyrsta meistaraflokksleikinn sinn 17 ára gamall árið 2009. Hann varð bikarmeistari með liðinu það ár og svo Íslandsmeistari árið eftir. Andri Rafn hefur haldið tryggð við félagið alla tíð og aldrei spilað fyrir annað lið en Breiðablik. Það þarf vart að taka fram að engin leikmaður kemst með tærnar þar sem Yeoman hefur hælana varðandi leikjafjölda. Næstu menn eru Damir Muminovic með 370 leiki, Höskuldur Gunnlaugsson með 312 leiki og Olgeir Sigurgeirsson, núverandi aðstoðarþjálfari Fylkismanna, með 321 leik. Voandi fáum við að njóta krafta Andra Rafns Yeomans í mörg ár í viðbót!

Blikaliðið fer nú í töluvert langt frí vegna landsleikja. Næsti leikur verður gegn KA á Kópavogsvelli, miðvikudaginn 19. júní kl.19.15.

-AP

Til baka