BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Laaaaaangbestir í Bestu deild 2022

01.11.2022 image

„Blikar eru bestir í fótbolta og Arnaldur Indriðason ber höfuð og herðar yfir aðra hérlenda höfunda glæpasagna, og þó víðar væri leitað.“ Svona hefst ritdómur í Mogganum nú þegar tsunami yulensis (jólaflóð) bókanna er að skella á landanum haustið 2022. Gagnrýnandinn, sem er dyggur stuðningsmaður ónefnds Reykjavíkurliðs, seilist í fótboltasumarið til að lýsa taumlausri aðdáun sinni á skáldskap reifarameistarans. (Arnaldur er held ég Framari en sonur hans æfði með syni mínum í KR þannig að þetta er allt saman Reykjavíkurdæmi þarna í gangi, nema aðdáunin.) Svo hitti ég Valsara í heita pottinum og alls staðar er sami söngur: „Verðskuldaður titill,“ „langbestir,“ „þvílíkt lið!“ og vinnufélagi minn – Framari sem hefur búið á Kársnesinu um talsverða hríð – sagði við mig við kaffivélina í vinnunni nú í upphafi vikunnar: „Ég hélt við værum vinir,“ og vísaði þar til nýlegra félagaskipta.

Hvernig urðum við meistarar?

(Þú tekur eftir því, lesandi góður, að í millifyrirsögninni staðset ég sjálfan mig á meðal meistaranna; Eiríkur Snær Þorvaldsson, Eiríkur Rafn Yeoman eða hvað þið viljið kalla mig.)

Svipbrigði þjálfarans í viðtölum eftir hvern einasta af átta fyrstu leikjum mótsins voru í engu samræmi við árangurinn. Alvörugefinn Óskar Hrafn samgladdist Ísaki Snæ að skora en það væri ekkert gefið (ekki einu sinni alvörugefið). Ef þú efast um að þessi einbeitta byrjun hafi haft áhrif á framhaldið, skoðaðu þá þetta línurit, sem sýnir stigasöfnun efstu þriggja liðanna, umferð fyrir umferð. (Þær voru ekki allar spilaðar í tímaröð en það breytir ekki neinu.)

image

Með átta leikja striklotu Breiðabliks í upphafi móts gerðist kannski tvennt:

- Sjálfstraust okkar manna efldist, heimavinnan var að skila sér. Ég held þeir hafi vitað strax í maílok að titillinn væri þeirra, ef þeir bara væru klárir í að vilja hann. Þá voru samt fimm mánuðir eftir af mótinu. Það var notaleg tilfinning í stúkunni.

- Hin liðin vissu hvaða lið þyrfti að vinna til að hleypa sínum mönnum kappi í kinn. Fimm mánuðina sem voru eftir átti nánast hvert einasta lið í deildinni sinn besta leik á móti Breiðabliki, hvort sem leikurinn vannst, tapaðist eða stigum var skipt.

Það er fleira sem við sjáum á línuritinu að ofan. Versta þriggja leik röð Breiðabliks í deildinni er tap, jafntefli og sigur. Aldrei tapast tveir í röð, aldrei tvö jafntefli í röð og hvað þá síðri seríur. Ef eitthvað hafði farið úrskeiðis var það lagað í snatri.

Eins og þetta nýja fyrirkomulag á deildinni var ef til vill hugsað – að fá mergjaðar innbyrðisviðureignir toppliða í kraftgöllum og á keðjum, með kakóbrúsa og tvíbökur í lokin – þá gekk það einfaldlega ekki eftir. Þessu var þannig stillt upp að topplið hefðbundinnar deildar mætti helstu keppinautum sínum í síðustu umferð. Hvað gerði Breiðablik? Tók KA fyrir norðan, vann Víking í hlýlegum lokaleik en rústaði Val fyrir framan fá áhorfendur á Hlíðarenda í millitíðinni.

Kannski er vinum okkar sem skipulögðu mótið með þessum hætti vorkunn, sum góð og gild sjónarmið þar að baki en fyrir hönd okkar stuðningsmanna Breiðabliks þá var þetta stundum svolítið mikil bjórdrykkja í aðeins of kaldri tíð 😊 

Það þarf að skora til að vinna

Þvílík veisla framan af móti. Við vorum með heitasta lið deildarinnar og heitasta markaskorara deildarinnar. Rétt eins og önnur lið einbeittu sér að því að ná einhverju út úr leikjum gegn Breiðabliki, einbeittu varnarmenn um gervalla Bestu deildina sér að því að stoppa Ísak Snæ. En þá tóku bara aðrir við og svona lítur töluleg samantekt á skorun okkar markheppnustu manna út nú í sumar í Bestu deildinni, eftir umferðum. Hérna eru mörk þeirra sem skoruðu fleiri en fimm mörk á tíðinni.

image

Það er fernt sem vekur athygli mína þegar maður horfir á þetta svona:

- Hrikalega öflugur þáttur Ísaks Snæs í öflugri byrjun Breiðabliks á mótinu.

- Þétt byrjun og þéttur lokasprettur Jasonar Daða eftir meiðslabasl um mitt mót.

- Hrikalega öflugur Dagur Dan í viðbótarmótinu.

- Falleg þátttaka Viktors Karls, Gísla Eyjólfs, Antons Loga, Viktors Arnar, Omars, Damirs, Sölva Snæs, Mikkels og ónefnds varnarmanns andstæðinga þegar mikið lá við.

Það þarf að hvetja til að vinna

Það lá mikið við í tímabilslok árið 2010 og hér er stórfjölskyldan mætt í Garðbæinn á lokaleik tímabilsins. Þá þurfti Breiðablik að vinna lokaleik á móti Stjörnunni, hugsanlega dygði jafntefli.

image

Á myndinni eru, frá vinstri: Valur Páll Eiríksson, Orri Eiríksson, Ólafur Hjálmarsson, Freyr Björnsson, Dóra Hjálmarsdóttir, Kolbeinn Ólafsson, Gísli Björnsson, Hugrún Helgadóttir, Helgi Hjálmarsson, Björn Hjálmarsson, Magnfríður Kristjánsdóttir, Eydís Helgadóttir og Eiríkur Hjálmarsson.

Það skal viðurkennt að lítill hluti þessa söfnuðar var viðstaddur þegar Víkingum var gert það ljóst fyrir fullt og fast, 29. október síðastliðinn, að Breiðablik væri laaaaangbesta karlalið Íslands 2022. Ég held að það hafi ekki mörg úr þessum hópi verið upptekin við formannssmölun í Sjálfstæðisflokknum eða á Landsfundi Samfylkingarinnar en sjálfur ákvað yðar einlægur að skrópa ekki í æfingabúðum kórsins þessa helgi þrátt fyrir lofandi dagskrá í Kópavogsdal.

En mikið ferlega hefur verið gaman að mæta fyrr í sumar og það hefur fleirum þótt. Á reglulegri leiktíð – 22 umferðum Bestu deildar karla – var þetta mætingin:

image

Meðalfjöldi áhorfenda á útileikjum Breiðabliks var meiri en meðalfjöldi á heimaleikjum næsta liðs. Svona fannst okkur meira gaman en heimafólki að sjá grænklæddu strákana í Frostaskjóli, á Hlíðarenda, í Víkinni og jafnvel í Kaplakrika sumarið 2022. Það var ferlega gaman á vellinum þetta sumarið og staðallinn á heimavallarupplifuninni hár.

- Alltaf blöktu veifurnar á staurunum með okkar flottu strákum og stelpum.

- Alltaf var mannskapurinn klár í hliðinu (til að leiðbeina mér með þetta app framan af sumri).

- Alltaf var grillreykur í loftinu og hægt að fá sér hammara sæi maður fram á að missa af kvöldmat og hægt að heilsa upp á yngriflokkaforeldra sem maður þekkir standa vaktina og segja takk.

- Alltaf var hægt að rölta inn í Grænu stofu og fá sér einn kaldan (eða tvo hefði maður komið á hjólinu).

- Alltaf var hægt að treysta á að Helgi bróðir hringdi rétt fyrir leik og bæði mann um að taka frá fyrir sig sæti af því hann yrði aðeins seinn fyrir.

- Alltaf var hægt að treysta á að Copacabana (eldri eða yngri deild) leiddi hvatningu.

- Alltaf var hægt að teysta á að hitta gamla félaga í hálfleik sem höfðu meira vit á því sem var að gerast á vellinum en maður sjálfur.

Þess vegna lítur listinn yfir best sóttu Bestu deildarleiki sumarsins 2022 svona út. Tveir fjölsóttustu leikirnir voru leiknir eftir að ljóst var að titillinn flyttist búferlum í Kópavog; aðrir leikir ekki.

image

Takk!

Þegar nokkrir félagar mínir byrjuðu á því, einhvern tímann um mitt sumar, að óska mér til hamingju með væntanlegan meistaratitil míns liðs í karlafótboltanum, tók ég því fálega. Sagðist hafa verið á Kaplakrikavelli síðsumars 2021 og mikið vatn ætti eftir að renna til sjávar.

Mér fannst stundum ég vera að ljúga. Það var svo augljóst, svo snemma, að meistaraflokkur karla Breiðabliks var svo einbeittur og staðráðinn og ákveðinn í að vinna þetta mót að það skilaði sér alveg upp á 10. bekk í stúkunni á Kópavogsvelli. Vaxandi brosleysi Óskars Hrafns eftir því sem á leið mótið jók bara þessa falstilfinningu mína gagnvart félögunum; auðvitað vinnum við þetta. Það vita það öll og ég er hrikalega þakklátur öllu þessu rosalega fína fólki í átthögunum sem lagði gjörva hönd á plóg.

Laaaaaaaangbestir!

Eiríkur Hjálmarsson

Hérna geturðu sjálf rifjað upp sumarið, leik fyrir leik, og fundið gæsahúðina hríslast um þig. Ítarefni: Sagan 2022 

Og ef þér er ekki orðið nógu kalt eftir það, þá er markasyrpan hans Heisa hérna (fá sér te í bollann):

Laugardagurinn 29 október fer í sögubækurnar. Ógleymanleg stund á Kópavogsvelli  Takk allir sem hjálpuðu til við að gera þennan dag eins og hann var. Við getum ekki beðið eftir 2023:

Íslandsmeistarar Breiðabliks 2022

image

Fremsta röð f.v.: Bjarni Sigurður Bergsson formaður meistaraflokksráðs, Viktor Karl Einarsson, Dagur Dan Þórhallsson, Kristinn Steindórsson, Óskar Hrafn Þorvaldsson aðalþjálfari, Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði, Halldór Árnason aðstoðarþjálfari, Gísli Eyjólfsson, Oliver Sigurjónsson, Jason Daði Svanþórsson, Flosi Eiríksson formaður knattspyrnudeildar. 

Miðröð f.v.: Marinó Önundarson liðsstjórn, Eysteinn Pétur Lárusson framkvæmdastjóri Breiðabliks, Andri Rafn Yeoman, Davíð Ingvarsson, Omar Sowe, Brynjar Atli Bragason, Anton Ari Einarsson, Torfi Geir Halldórsson, Adam Örn Arnarson, Viktor Elmar Gautason, Ísak Snær Þorvaldsson, Ólafur H. Kristjánsson yfirmaður knattspyrnumála, Ásdís Guðmundsdóttir sjúkraþjálfari.

Aftasta röð f.v.: Aron Már Björnsson styrktarþjálfari, Ólafur Pétursson markmannsþjálfari , Sölvi Snær Guðbjargarson, Anton Logi Lúðvíksson, Damir Muminovic, Mikkel Qvist, Pétur Theodór Árnason, Viktor Örn Margeirsson, Elfar Freyr Helgason, Alex Tristan Gunnþórsson liðsstjórn, Særún Jónsdóttir sjúkraþjálfari. 

Á mynd vantar: Viktor Andra Pétursson, Galdur Guðmundsson og Sigurð Hlíðar Rúnarsson deildarstjóra knattspyrnudeildar.

Myndataka & umsjón: Helgi Viðar Hilmarsson, Bjarni Sigurður Bergsson.

Til baka