BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Magnað í Norður-Makedóníu!

25.08.2023 image

Blikar unnu frábæran 0:1 sigur á FK Struga frá N-Makedóníu í undankeppni Sambandsdeildar Evrópu í knattspyrnu á útivelli í gær. Það var fyrirliðinn okkar Höskuldur Gunnlaugsson sem tryggði okkur sigurinn með mögnuðu marki í fyrri hálfleik. Sigurinn var nokkuð torsóttur enda vallaraðstæður og veðurskilyrði mjög erfið.Nú reynir á karakterinn í liðinu í seinni leiknum sem verður í Kópavogi á fimmtudaginn. Þrátt fyrir að staðan sé góð þá er ekki sopið kálið þó í ausuna sé komið! Blikaliðið verður að koma mjög einbeitt til leiks til að tryggja sér sæti í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu.

N-Makedónía heitir formlega Lýðveldið Norður-Makedónía og var eitt af þeim löndum sem fékk sjálfstæði þegar Júgóslavía leystist upp árið 1991. Landið er einungis ¼ af stærð Íslands en íbúar þar eru um 1,8 milljónir. Nafngift landsins hefur verið mjög umdeilt vegna þess að Makeónía er líka nafn á stærra landssvæði sem nær til lýðveldisins ásamt hluta Grikklands og Búlgariu. Makedónía er einnig nafn á héraði í Grikklandi nútímans. Vegna deilna um nafn Lýðveldisins Makedóníu komu Grikkir í lengi í veg fyrir að landið fengi að sækja um aðild aðAtlantshafsbandalaginu og Evrópusambandinu. Árin 2018 og 2019 sömdu ríkisstjórnir Grikklands og Makedóníu því um að nafni lýðveldisins skyldi breytt í Lýðveldið Norður-Makedónía og að Grikkland myndi í staðinn leggja blessun sína við umsóknir nágrannaríkisins til þessara stofnana.

En þá er komið nóg af sögustund og snúum okkur að leiknum. Hann fór ekki fram á heimavelli FK Struga enda standa yfir framkvæmdir á þeim velli. Þess í stað var spilað á Ohrid leikvanginum sem er í um 15 km fjarlægð frá borginni Struga.

Aðstæður þar voru alls ekki nógu góðar án þess að ætla að draga athyglina of mikið frá leiknum sjálfum. Bæði er grasið mjög lélegt á vellinum en öll umgjörðin í kringum völlinn er alls ekki á Evrópustandard. Þegar vind fór til dæmis mikið að hreyfa í síðari hálfleik þá fauk heil rúlla af gervigrasi á varamannabekk Blikaliðsins. Var það hin mesta mildi að menn meiddust ekki alvarlega!  Reyndar ótrúlegt að UEFA hafi leyft að spila á þessum velli á meðan KA fékk til dæmis ekki að spila á Framvellinum þar sem aðstæður eru allar til fyrirmyndar.

Okkar strákar virkuðu aðeins taugaóstyrkir í byrjun leiks. Við dekkuðum ekki hættulega mið- og framherja Struga liðsins nægjanlega ákveðið þannig að þeir fengu of mikið að leika lausum halda. Þetta skapaði oft hættu á okkar vallarhelmingi og skoruðu þeir meðal annars mark. Það var sem betur fer réttilega dæmt af vegna hendi. Þess má þó geta að Færeyringurinn fótafimi, Klæmint Olsen, átti gullfallega kollspyrnu fljótlega í leiknum en markstöngin bjargaði heimapiltum þar. En þegar heimapiltar virtust ætla að taka yfir leikinn þá reis upp úr djúpinu Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði, eins og fuglinn Fönix forðum daga. Páll Óskar söng um þann atburð eftirminnilega í laginu,,Gordjöss“ árið 2015. Þar segir ,,Líkt og fuglinn Fönix rís, fögur lítill fótboltadís, Söngröddin er silkimjúk, sjáið bara þennan búk!“ Höskuldur dansaði í gegnum eina sex varnarmenn Strugaliðsins og sendi svo knöttinn með bylmingsskoti fram hjá varnarlausum markverði heimapilta. Stórglæsilegt mark!

Gjörðust nú N-Makedónarnir nokkuð dónalegir og brutu oft leiðinlega af sér. Pólskur dómari leiksins lét sér fátt um finnast framan af leik og þurfum við því að láta finna fyrir okkur. Það endaði með því að Jason Daði, Gísli, Höskuldur og Damir fengu gul spjöld. Þá áttaði Pólverjinn sig og fór að sýna heimapiltum gul spjöld af miklum krafti. Það endaði síðan með því að einn sterkasti leikmaður þeirra fékk rautt spjald undir lok leiksins og missir því af leiknum í Kópavogi.  Síðari hálfleikurinn fór síðan mest fram upp í háloftunum. Sterkur sviptivindur barst yfir völlinn frá háslettum Albaníu og áttu bæði lið í mestu erfiðleikum að hemja knöttinn. Varnarmennirnir sterku, Damír og Viktor Örn, skölluðu hvern boltann á fætur öðrum fram og okkar piltar allir sem einn börðust eins og ljón um hvern einasta fermetra. Anton Ari markvörður var síðan öryggið uppmálað í síðari hálfleik og lét ekki hvassar vindhviður trufla sig í úthlaupunum. Knattspyrnan var reyndar ekki upp á marga fiska en það skipti engu máli. Við ætluðum að verja stigin þrjú og gerðum það með sóma. Þó brá fyrir skemmtilegum spilköflum hjá okkur og var til dæmis varamaðurinn Ágúst Hlynsson hársbreidd frá því að auka enn við forskotið. Það gekk hins vegar ekki eftir en sem betur fer skipti það ekki máli. Leiktíminn rann síðan út eftir allt of margar aukamínútur og það voru örþreyttir Blikar sem fögnuðu gríðarlega!

Blikaliðið stendur nú á tímamótum. Framundan er mikilvægasti leikur í sögu félagsins. Með sigri eða jafntefli í síðari leik liðanna á Kópavogsvelli næsta fimmtudag getur liðið tryggt sér sæti í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu í knattspyrnu fyrst íslenskra knattspyrnuliða. Þrátt fyrir að staðan sé vænleg má alls ekki slaka á klónni eða vanmeta andstæðingana. Strugaliðið er gott knattspyrnulið og við þurfum að eiga toppleik á Kópavogsvelli til að klára leikinn. En með góðum stuðningi áhorfenda getum við klárað þetta verkefni. Við hvetjum því alla til að tryggja sér miða á leikinn og mæta græn og glöð á Kópavogsvöll í næstu viku.

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

-AP

Til baka